Sigurbjörg Stefánsdóttir fæddist að Berghyl í Austur-Fljótum 20. janúar 1922. Hún lést á Landakotsspítala 29. maí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Grafarvogskirkju 7. júní.

Hún Bogga amma mín er dáin og komin á þann góða stað sem við öll endum á. Ég viðurkenni að ég varð mjög hryggur fyrst, en svo reyndi ég að hugsa rétt og vissi að þetta var það besta fyrir þig úr því sem komið var, því þú varst orðin svo lasin. Ég bjó einn vetur í sama húsi og Bogga amma mín, hún var svo góð og hugsunarsöm við mig, við spjölluðum um heima og geima, hún fræddi mig um lífið og tilveruna og því gleymi ég aldrei. Alltaf hugsaði amma um að ég fengi nóg að borða og ófáar voru ferðirnar sem hún kom upp til mín með nýbakaðar pönnukökur og annað góðgæti. Við náðum mjög vel saman þennan tíma ævi minnar sem við vorum mest saman og kynntist ég þá henni ömmu best. Þú varst mér alltaf svo góð, elsku amma mín, og ég gleymi þér aldrei. Ég sakna þín og ég veit í hjarta mínu að nú líður þér vel. Guð geymi þig.

Þitt ömmubarn

Hafþór Ægir.

Elsku amma mín. Það var alltaf svo gott að koma heim til þín. Maður gat alltaf treyst þér fyrir öllu sem gerðist. Alltaf þegar maður kom til þín fékk maður sama svarið: "Bless vinur." Þú varst líka svo góður vinur manns, maður gat alltaf talað við þig. Þú nenntir alltaf að tala við mig um íþóttafréttir. Síðan fór maður í ófá skipti með þér niður á Tjörn. Þú hugsaðir alltaf svo vel um allt og alla.

Núna er tómlegt, þegar manni leiðist og langar að tala við einhvern hefur maður ekki þig. Amma, síðan leyfðirðu mér alltaf að vera í handbolta inni og baðst mig alltaf að lýsa leikjum fyrir þig, Síðan slökktirðu alltaf á sjónvarpinu þegar það var eitthvað spennandi og þú gast ekki horft á það. Þú gast alltaf fengið mann til að hlæja og það er það sem ég sakna mest.

Vonandi líður þér vel þar sem þú ert núna

Kom, huggari, mig hugga þú,

kom, hönd, og bind um sárin,

kom, dögg, og svalan sálu nú,

kom, sól, og þerra tárin,

kom, hjartans heilsulind,

kom, ljós, og lýstu mér,

kom, líf, er ævin þver,

kom eilífð, bak við árin.

(V. Briem)

Þinn

Örn.

Ömmu Boggu hef ég þekkt frá því ég man eftir mér. Hún hefur verið í nálægð við mig, aldrei langt undan. Fyrst bjó hún í kjallaranum á Eyjabakka þar sem við bjuggum. Þegar við fluttum upp í Grafarvog, lét hún sig ekki muna um að taka strætó til okkar. Á jólum kom amma alltaf til okkar. Amma hafði þann sið að gefa öllum ættingjum sínum gjafir. Margar þeirra hafði hún búið til uppi í Gerðubergi, aðrar föndrað heima og restina verið að kaupa af og til allt árið. Það var því alltaf mikill spenningur þegar amma kom með alla pakkana sína. Hún jafnt sem við krakkarnir vorum sífellt að reka á eftir mömmu og pabba að ganga frá svo hægt væri að byrja að opna. Amma passaði upp á allt og nýtti pokann sem hún hafði haft gjafirnar í undir pappírinn.

Þessi tími verður nú minningin ein sem ég mun geyma hjá mér.

Þá man ég alltaf eftir því þegar þú dáðist að fegurð landsins. Einnig gleymi ég ekki sögunni sem þú sagðir mér um sjálfan mig því þú hafðir svo oft orð á því að ég hefði svo stór augu. Við vorum að keyra um í Reykjavík og ég sagði: Amma, ég sé til Akureyrar. Amma, mjög undrandi, spurði hvernig á því stæði. Ég svaraði: Ég er með svo stór augu! Hefur þetta fylgt okkur síðan, hún minnst á þetta og mikið hlegið.

Ömmu mun ég alltaf sjá fyrir mér sem konu sem hafði alltaf eitthvað fyrir stafni.

Hvíl í friði, amma mín.

Páll Arnarson.

Elsku amma Bogga mín, nú hafa leiðir okkar skilist. Ég trúi því að þú sért komin á betri stað þar sem þú ert laus við alla verki.

Þú varst besta amma sem nokkur gat eignast, allar þær stundir sem við áttum saman eru ómetanlegar. Ég er svo þakklát fyrir að hafa getað verið svona mikið með þér.

Fyrstu minningarnar eru í Eyjabakkanum þar sem við bjuggum saman fyrstu fimm ár ævi minnar og oft í viku gengum við saman niður í Mjódd, fram hjá steinunum og þar stoppuðum við alltaf og þú leyfðir mér að heilsa upp á álfana því þú sagðir að í steinunum byggju álfar. Mannstu hvað ég átti erfitt með að hætta með snuðið, ég hljóp alltaf inn til þín frá krökkunum og bað þig um að leyfa mér að fá snuðið "bara smá stund" því ég vissi að þú segðir ekki nei. Seinni árin voru ekki síður yndisleg, ég vildi alltaf vera að gista heima hjá þér um helgar og alltaf þegar við vöknuðum fékk ég heimsins besta hafragraut og við fórum saman í Kolaportið og á Tjörnina.

Þú studdir mig í öllu sem ég gerði, hélst alltaf í höndina á mér og sagðist trúa því að ég gæti allt sem ég vildi.

Elsku amma mín, þú átt stóran hlut í hjarta mínu sem ég mun geyma vel. Allar okkar stundir eru efst í huga mér og verða þar alla ævi. Nú ertu komin til afa og systra minna og mun þú passa þær líkt og þú gerðir við mig. Sofðu vel, elsku amma Bogga. Ég mun sakna þín sárt.

Hafðu gát á hjarta mínu,

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

(Höfundur ókunnur.)

Þín ömmustelpa

Tinna.

"Segðu mér einhverjar fréttir," var hún vön að segja. Oftast nær yfir drekkhlöðnu borði kræsinga "a la amma" þar sem pönnsurnar stóðu yfirleitt upp úr. Hún var ættarlaukur sem færði fréttir á milli fjölskyldumeðlima. Ávallt var stutt í brosið og hláturinn, hið ótrúlega glaðlyndi sem var hennar aðaleinkenni og fleytti henni í gegnum lífið.

Á uppvaxtarárum okkar á Akureyri bjó amma Bogga á Ólafsfirði. Það voru ófáar ferðirnar fyrir Múlann til hennar, og hún og Valdi afi komu oft brunandi yfir til okkar á bláa Moskvitsnum, oft hálffullum af frænkum okkar. Við eigum margar góðar minningar um ömmu á Ólafsfirði. Ávallt var nóg við að vera hjá henni og skemmtilegt.

Amma þurfti að hafa fyrir lífinu. Hún missti föður sinn í hörmulegu sjóslysi skömmu áður en hún fæddist. Ólst upp ásamt systkinum sínum hjá Önnu móður sinni á Siglufirði. Hún fluttist með ungan föður okkar yfir til Ólafsfjarðar til að giftast Valda stjúpafa og eignaðist fimm börn á fjórum árum. Hún vann í fiski á Ólafsfirði og fluttist til Reykjavíkur í kringum eftirlaunaaldur, þá orðin ekkja. Ávallt var þó stutt í brosið, húmorinn, sem oftar en ekki beindist að henni sjálfri. Jafnvel undanfarin ár, þegar slitinn skrokkurinn var að plaga hana, gat hún alltaf gleymt sér við spjall og þá var stutt í létta lund, hlátur og gleði. Boggu ömmu fannst gaman að spjalla. Hún kom til dyranna eins og hún var klædd og spjallaði við háa og lága sem jafningja, eiginleiki sem fáu fólki er gefinn.

"Þú ert ríkur maður, átt svona yndisleg börn," sagði hún reglulega. Hún mældi ekki ríkidæmi í veraldlegum auði. Hún átti aldrei mikið af honum, en hún var rík kona, átti sex börn og fjöldann allan af barnabörnum og barnabarnabörnum. Hún var ekta amma sem ávallt gaf sér góðan tíma fyrir börnin, enda löðuðust þau að henni, hvort sem um var að ræða hennar eigin eða annarra.

Hjá ömmu var bæði fjör og hlýja og við munum minnast hennar með gleði yfir öllum góðu minningum sem hún hefur gefið okkur alla okkar ævi.

Halldór, Birgir Örn, Þorvaldur Örn Arnarsynir og fjölskyldur.

Elsku amma mín, það var yndislegt að koma til þín. Þú varst alltaf tilbúin að spila eða gera eitthvað annað skemmtilegt. Þú áttir alltaf fiskbollur í dós því þú vissir hvað mér þótti þær góðar og þegar ég kom í heimsókn þá var alltaf spurt: "Langar þig ekki í eitthvað, Margrét mín?" og svarið var: "Áttu fiskbollur í dós?" og auðvitað átti hún það og skellti þeim í pott og þá skipti það ekki máli hvað klukkan var, hún gat verið tíu um morguninn eða tíu um kvöldið. Þetta lýsir þér vel, alltaf að hugsa um aðra.

En nú hefur allt breyst og eftir sitja fallegar minningar um þig, elsku amma mín, t.d. hvað það var gaman að fara með þér á Tjörnina og síðan var stefnan tekin á hamborgarastaðinn sem mér þótti svo góður og þaðan var farið í Kolaportið. Þar varst þú í essinu þínu því þér þótti svo gaman að koma þangað líka og alltaf keyptir þú það sama í mörg ár, það voru kartöflur, harðfiskur og silungur sem þér þótti svo góður. Svo má ekki gleyma fjallagrasaflatkökunum sem Tinna keypti fyrir þig og kom með til þín.

Elsku amma mín, það tekur sinn tíma að átta sig á því að þú sért farin til annarra starfa. Það var alltaf gott að leggja hendurnar utan um þig og faðma þig blítt því þú varst svo hlý. Megi góður Guð geyma þig.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

(Ásmundur Eir.)

Kveðja.

Margrét Björg Arnardóttir.

Í dag kveðjum við Sigurbjörgu Stefánsdóttur móðursystur mína, Boggu, eins og hún var kölluð, en hún var yngst af sjö systkinum sem nú eru öll látin.

Lífsbaráttan í Fljótum var hörð á þeim tíma sem Bogga kom í þennan heim. Hún var aðeins fjögurra mánaða þegar faðirinn drukknaði er þilskipið Maríanna fórst með allri áhöfn í maí 1922, en Stefán faðir hennar stundaði sjóinn með búskapnum. Í þá daga var ekki um samfélagshjálp að ræða og varð því amma að láta sum barnanna í fóstur um tíma. Bogga fylgdi móður sinni, bróður og eldri systrum til Siglufjarðar.

Ég og bræður mínir minnumst áranna á Hólavegi 6 þar sem amma bjó á neðri hæðinni ásamt tveimur yngstu börnum sínum, Boggu og Jónasi, en fjölskylda mín á efri hæðinni, við fjögur systkinin með foreldrum okkar. Það var glaðværðin og jákvæðnin sem er svo minnisstæð í fari Boggu. Þótt á móti blési á stundum tókst hún á við slíkt með sama jákvæða hugarfarinu. Á Siglufirði vann Bogga lengst af á Sjúkrahúsinu. Stóð hugur hennar til hjúkrunarnáms en aðstæður leyfðu það ekki.

Af Hólaveginum flutti Bogga til Ólafsfjarðar 1954, en þá hafði hún kynnst Þorvaldi Ingimundarsyni frá Ólafsfirði. Eignuðust þau fimm dætur en fyrir hjónaband átti hún son. Var mikill samgangur milli fjölskyldnanna, en mikil eftirsjá ríkti hjá okkur þegar Bogga og Örn sonur hennar fluttu til Ólafsfjarðar.

Dugnaður Boggu kom sér vel á stóru og erilsömu heimili í Ólafsfirði, en þangað var jafnan gott að koma. Þegar farið var um Ólafsfjörð var alltaf komið við á Strandgötunni til að hitta Boggu og fjölskyldu hennar og njóta gestrisni þeirra hjóna.

Það var ánægjulegt að hitta Boggu og afkomendur hennar á áttræðisafmælinu fyrir þremur árum þar sem hún kát og glöð fletti minningum liðins tíma.

Nú hefur hún kvatt, södd lífdaga, en eftir standa ljúfar minningar um sæmdarkonu. Ég bið henni blessunar og votta börnum hennar og fjölskyldum þeirra samúð okkar systkina.

Anna Nilsdóttir.