* DARRELL Lewis körfuknattleiksmaður leikur ekki með Grindvíkingum á næsta tímabili. Lewis er íslenskur ríkisborgari og hefur leikið hér á landi síðastliðin þrjú ár með Grindvíkingum. Á þessum þremur árum hefur Lewis skorað 27 stig að meðaltali í leik.

* DARRELL Lewis körfuknattleiksmaður leikur ekki með Grindvíkingum á næsta tímabili. Lewis er íslenskur ríkisborgari og hefur leikið hér á landi síðastliðin þrjú ár með Grindvíkingum. Á þessum þremur árum hefur Lewis skorað 27 stig að meðaltali í leik. Hann er með nokkur erlend tilboð upp á vasann og þá er vitað af áhuga liða hér á landi að góma kappann. Lewis lék á dögunum sína fyrstu landsleiki fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum.

* KRISTINN Björgúlfsson handknattleiksmaður mun að öllum líkindum spila með norska úrvalsdeildarliðinu Elverum á næstu leiktíð. Kristinn, sem er 23 ára gamall, er uppalinn ÍR-ingur en lék með Gróttu/KR síðastliðin tvö ár. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að nánast allt væri klappað og klárt, einungis ætti eftir að klára formsatriði í samningnum, sem er til tveggja ára en uppsegjanlegur af beggja hálfu eftir eitt ár.

* DANÍEL Berg Grétarsson handknattleiksmaður gengur sennilega til liðs við FH. Daníel, sem er tvítugur miðjumaður, lék með Gróttu/KR á síðustu leiktíð en hann er uppalinn í Stjörnunni. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að honum litist vel á það sem væri að gerast hjá FH en hins vegar væri ekki búið að ganga endanlega frá samningnum.

* FH-INGAR eru einnig á höttunum eftir Brynjari Hreinssyni, sem lék með Gróttu/KR á síðustu leiktíð. Þeir eru reyndar ekki einir um að vilja klófesta þennan efnilega hornamann, því Valsmenn eru líka á eftir Brynjari. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Brynjar ekki vera búinn að ákveða sig en það gerðist fljótlega.

* KA-MENN eru í óðaönn að ganga frá samningum við sína leikmenn, aðeins fyrirliðinn Jónatan Magnússon á eftir að skrifa undir en það mun líklega gerast á næstu dögum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Sævar Árnason, nýráðinn aðstoðarþjálfari liðsins, að það liti allt út fyrir að þeir héldu öllum sínum leikmönnum. "Það er eitthvað sem hefur ekki gerst í ein tíu ár og er auðvitað hið besta mál. Síðan erum við að leita að skyttu hægra megin og vonandi tekst okkur að ganga frá því máli sem allra fyrst."