Ein af myndum Ívars Brynjólfssonar á sýningunni "Ónauðsynlegar upplýsingar".
Ein af myndum Ívars Brynjólfssonar á sýningunni "Ónauðsynlegar upplýsingar".
Opið á verslunartíma. Sýningu lýkur 26. júní.

Í SÝNINGARRÝMI FUGLs (Félag um gagnrýna list) sýnir Ívar Brynjólfsson 7 ljósmyndir undir heitinu "Ónauðsynlegar upplýsingar". Þetta eru skrásetningar á stöðum hvort tveggja í myndum og tölum. Þ.e. að undir myndunum eru staðsetningarnar merktar samkvæmt GPS tækni og áletraðar í álramma. Ívar er hér á kunnuglegum slóðum, jafnvel innan íslenskrar myndlistarsögu. Kristján Steingrímur Jónsson áletraði GPS staðsetningar á mónókróm fleti úr áli fyrir rúmum áratug eða svo. Áhorfandinn þurfti þar með að framkalla landslagsmyndirnar í eigin huga og skapaðist jafnframt ímynduð fjarlægð frá verki til staðsetningarinnar. Húbert Nói Jóhannson hefur um árabil unnið landslagsmálverk og merkt staðsetningar eftir GPS í álramma undir myndirnar . Myndir hans eru gerðar eftir minni og vísa til andrúms í landslagi sem byggir þá á persónulegri upplifun listamannsins. Verk Ívars eru hins vegar skrásetningar í ljósmyndum sem er vinsælt myndlistarform þessa dagana og þá sérstaklega í tengslum við sýningu á verkum Dieters Roth á Listahátíð í Reykjavík. Langflestir listamanna sem vinna skrásetningar í ljósmyndum nálgast myndflötinn hlutlaust og taka ekki fagurfræðilega afstöðu til hans sem einnar heildar heldur láta þeir myndirnar renna saman með endurtekningu og skapa þannig heildina. Má þar nefna landslagsmyndir Ólafs Elíassonar, Reykjavíkurmyndir Dieters Roths, andlitsmyndir Roni Horn, Vetrarávexti Haralds Jónssonar, Tjaldstæði eftir Spessa og svo má lengi telja. Skrásetningin er þá af mínimalískum toga og nálgunin hugmyndarlegs eðlis. Ívar Brynjólfsson gefur hverri mynd aftur á móti sína sérstöku myndbyggingu og áferð og hugsar formrænt um flötinn eftir geómetrískum lögmálum og sígildum formrænum vangaveltum. Ljósmyndirnar kallast á hver við aðra frekar en að renna saman. Hver mynd verður einstakur staður í sjálfu sér og GPS skrásetningarnar koma þá alveg út úr korti. Verður "konseptið" grunnt og tilgerðarlegt í þessu fagurfræðilega samhengi þar sem eiginleikar Ívars skína sem betur fer í gegn. Þ.e. að hann er ljósmyndari með sterka formræna sýn og næma tilfinningu fyrir áferð. Slíkir ljósmyndarar finnast ekki á hverju strái.

Jón B.K. Ransu

Höf.: Jón B.K. Ransu