Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson fjallar um afnám fyrningarfrests af kynferðisafbrotum: "Mikilvægt er að efla upplýsta umræðu í samfélaginu um kynferðisbrot gegn börnum og alvarleika þeirra."

FÁ ÞINGMÁL vöktu eins mikla athygli á síðasta vetri og tillaga um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum. Tugþúsundir Íslendinga skoruðu á Alþingi að samþykkja tillöguna og margir fagaðilar sömuleiðis. Tillagan komst þó aldrei til endanlegrar afgreiðslu í þingsölum. Allsherjarnefnd bað mig um umsögn um tillöguna og nú þegar hinni pólitísku orrahríð er lokið er ekki úr vegi að viðra örfá sjónarmið.

Ákvæði um fyrningarfrest

Núgildandi ákvæði um fyrningarfrest eru tiltölulega ný eða frá árinu 1998. Ákvæðin fela í sér að fresturinn hefst við 14 ára aldur og er hann allt að fimmtán ár í alvarlegustu málunum. Aðstöðumunur geranda og þolanda er mikill og nýju ákvæðin viðurkenna þessa sérstöðu með því að hefja fyrningarfrestinn við 14 ára aldur brotaþola. Áður en farið er í að afnema fyrningarfrest vegna þessara tilteknu brota er nauðsynlegt að skoða þau rök sem hvíla almennt bak við frestinn.

Aðalsmerki góðra réttarvörslukerfa er áreiðanleg uppljóstrun brota, skjót og skilvirk málsmeðferð og refsingar sem endurspegla alvarleika brotsins. Afnám á fyrningarfresti gæti dregið úr kostum þessa kerfis. Sönnunaraðstaða verður örðugri eftir því sem lengri tími líður frá broti, afnám dregur úr aðhaldi réttarvörsluaðila til að flýta málsmeðferð og varnaðaráhrif refsinga minnka eftir því sem lengra líður frá broti.

Til viðbótar má nefna fleiri rök. Afnám á fyrningarfresti gæti jafnvel snúist í andhverfu sína og brotin hugsanlega ekki tekin nægilega alvarlega af réttarvörsluaðilum. Sér í lagi gæti þetta átt við um kynferðisbrot gegn börnum. Hætta er á því að brotum af þessu tagi verði ýtt til hliðar þar til viðkomandi barn nái tilskildum aldri til að hægt sé að taka nægilegt mark á frásögn þess. Það væri vitaskuld afleit niðurstaða. Fyrningarfrestur veitir einmitt réttarvörsluaðilum aðhald til að taka á málum eins fljótt og auðið er. Brýnt er að auðvelda þolendum kæruleiðina og skiptir viðmót réttarvörsluaðila og málsmeðferð miklu til að mál af þessu tagi komist strax upp á yfirborðið. Starf aðgerðahóps á vegum ráðuneytis dómsmála um heildarendurskoðun löggjafar á þessu sviði lofar góðu í þessu samhengi.

Niðurlag

Mikilvægt er að efla upplýsta umræðu í samfélaginu um kynferðisbrot gegn börnum og alvarleika þeirra. Við verðum að koma meira til móts við þolendur brotanna og ekki aðeins aðstoða þá við að ná fram rétti sínum heldur einnig félagslegri og sálrænni reisn sinni. Ekki má gleyma gerendum brotanna. Margir þeirra hafa verið beittir kynferðislegri misnotkun í æsku eða stríða við kynhneigð sem beinist að börnum. Meðferð til að halda aftur af þessum brotum hefur borið árangur sérstaklega hjá yngri gerendum. Brýnt er að leita leiða af því tagi um leið og viðkomandi eru látnir sæta refsiábyrgð á gjörðum sínum.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Höf.: Helgi Gunnlaugsson fjallar um afnám fyrningarfrests af kynferðisafbrotum