Dalvíkurbyggð | Rekstrarniðurstaða ársreiknings Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2004 er neikvæð um 68,5 milljónir króna en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 130,9 millj. kr.

Dalvíkurbyggð | Rekstrarniðurstaða ársreiknings Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2004 er neikvæð um 68,5 milljónir króna en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 130,9 millj. kr. Ársreikningurinn liggur nú frammi en hann var samþykktur samhljóða við síðari umræðu í bæjarstjórn í lok síðastliðins mánaðar.

Veltufé frá rekstri var tæpar 60 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri upphæð, rúmum 7 milljónum.

Ýmislegt hefur áhrif á þessa niðurstöðu segir á vef sveitarfélagsins og er þar helst að nefna áhrif kennaraverkfalls til lækkunar á kostnaði og hækkun á tekjum frá Jöfnunarsjóði. Aðhalds hefur verið gætt, þó er þess ávallt gætt að skerða sem minnst þjónustu stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins. Í framsögu bæjarstjóra vegna fyrri umræðu um ársreikning í bæjarstjórn kemur fram að forstöðumenn stofnana hafi gert vel á undanförnum árum en enn betur á árinu 2004. Einnig telur hann að áætlanaferlið sem Dalvíkurbyggð hefur nú tekið upp, það er rammafjárhagsáætlun, komi til með að vinna með sveitarfélaginu í framtíðinni.