Kristján Belló Gíslason fæddist í Vestmannaeyjum 1. febrúar 1912. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 31. maí síðastliðinn og var jarðsunginn frá Kópavogskirkju 7. júní.

Elsku pabbi. Það kemur svo ótal margt upp í hugann þegar ég minnist þín. Þú varst mér alltaf svo góður og gerðir allt til að uppfylla óskir mínar og væntingar. Það er erfitt að lýsa þér í fáeinum orðum en þú varst stoltið mitt, alltaf svo akkúrat. Mikill húmoristi, virðulegur og blíður maður. Ég fann alltaf hvað þér þótti vænt um mig. Mér eru svo minnisstæðar stundirnar í Fljótshlíðinni, þegar við fórum í Deild og Múlakot og gengum upp á Stóra og Litla Dímon til að tína ber.

Vænt þykir mér um stundirnar sem við áttum saman í Sunnuhlíðinni. Þá gátum við gefið okkur nægan tíma til að ræða um lífið og tilveruna. Þú varst alltaf svo glaður að sjá mig og ég mun sakna orðanna: ,,Ertu komin, elsku rósin mín?"

Elsku pabbi minn, nú veit ég að þér líður vel og þú ert kominn til dóttur minnar og bróður. Megi góður Guð geyma þig.

Þín dóttir,

Arnþrúður.

Nú er ástkær afi okkar farinn fyrir fullt og allt og hans verður sárt saknað. Það er sárt að hugsa til þess að finna ekki sterka pípulyktina þegar við komum inn í Vogatunguna og geta ekki tekið utan um afa okkar þar sem hann sat með pípuna sína. Það er sárt að hugsa til þess að geta ekki setið með honum í eldhúsinu, hlusta á sögur úr Fljótshlíðinni eða heyra hans frægu "fimm aura" brandara sem hann sagði okkur með því að undirstrika endinn með því að kinka kolli og reka út úr sér tunguna. Nú er enginn lengur til að spyrja okkur hver sé bestur, en þú varst alltaf bestur, afi, og munt alltaf vera. Við munum alltaf muna eftir afa okkar í stólnum í eldhúsinu, alltaf í stuði og hlýlegur og góður við alla sem honum voru nærri.

Elsku afi, blessuð sé minning þín.

Þín barnabörn,

Halldóra Kristín,

Eiríkur og Ívar.

Elsku afi. Hver er bestur? Þú að sjálfsögðu. Þessi orð hljóma hjá okkur þegar við hugsum til þín. Við hlökkuðum alltaf til að koma í heimsókn til ykkar á Hátröðina. Þú tókst á móti okkur með þínum skemmtilega hætti og lúmska húmor, eins og þér einum var lagið. Þú varst virðulegur, hár og myndarlegur maður sem við vorum mjög stoltar af. Það var ekki langt í brosið þegar við systurnar settumst niður og fórum að minnast þín. Þú varst svo mikill karakter og húmoristi að brandarar þínir og persónutöfrar skinu í gegnum minningarnar um þig. Eftir hvert grín glottir þú út í annað og gafst þar með brandaranum meira gildi. Þó söknuðurinn verði alltaf til staðar vitum við að þér líður miklu betur núna. Þú ert kominn á þann stað sem bíður okkar allra og við vitum að Erna systir hefur tekið vel á móti þér.

Elsku amma, mamma, Gulla, Þröstur, Stebbi og aðrir aðstandendur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Guð veri með ykkur öllum.

Soffía Heiða, Kristín Halla, Haddý Anna og Eva Dögg.