Alda Ingibergsdóttir söngkona.
Alda Ingibergsdóttir söngkona.
Alda Ingibergsdóttir og Ólafur Vignir Albertsson fluttu lög og aríur eftir Puccini (Sole e amore, Terra e mare og E L'uccelino), Verdi (Stornello, La Zingara og Lo spazzacamino), Sveinbjörn Sveinbjörnsson (Álfarnir, Til næturinnar), Jóhann Ó.

Alda Ingibergsdóttir og Ólafur Vignir Albertsson fluttu lög og aríur eftir Puccini (Sole e amore, Terra e mare og E L'uccelino), Verdi (Stornello, La Zingara og Lo spazzacamino), Sveinbjörn Sveinbjörnsson (Álfarnir, Til næturinnar), Jóhann Ó. Haraldsson (Bara syngja og lifa), Jón Ásgeirsson (Vorvísa, Hjá lygnri móðu, Vor hinsti dagur) og Sigfús Halldórsson (Dagný, Vorsól, Lítill fugl). Þriðjudagur 30. ágúst.

FÁTT var frumlegt við efnisskrána á tónleikum Öldu Ingibergsdóttur sópran í Listasafni Sigurjóns á þriðjudagskvöldið. Að vísu heyrir maður ekki oft annað eftir Puccini en óperutónlist, og því hefur örugglega mörgum þótt forvitnilegt að hlýða á þrjú lítil lög eftir tónskáldið. Því miður eru þetta fábrotin, rislítil verk og túlkun Öldu og meðleikarans, Ólafs Vignis Albertssonar, var ekki það blæbrigðarík, hvað þá skáldleg, að það næði að ljá þeim vængi.

Meira var varið í þrjú lög eftir samlanda Puccinis, Verdi, og var söngur Öldu þar talsvert tilþrifamikill. Að vísu var hún ögn nefmælt og sterkir tónar á efsta sviðinu voru dálítið hvassir, en innlifunin virtist a.m.k. fölskvalaus. Sömu sögu er ekki að segja um Ólaf Vigni; þrátt fyrir að spila af nákvæmni á píanóið var leikur hans litlaus og hljómaði eins og hann hefði engan áhuga á því sem hann var að gera. Þegar dramatísk músík eftir blóðheitt ítalskt tónskáld er á matseðlinum... ja, þá vill maður helst finna sterkt bragð, jafnvel blóðbragð. Satt best að segja leið mér eins og ég hefði pantað vel kryddað spaghetti bolognese á fínum matsölustað en fengið í staðinn brauðstangir og gúrkusalat, sem var óneitanlega vonbrigði.

Auk tónlistarinnar eftir Puccini og Verdi voru íslensk lög á dagskránni sem oft eru flutt og voru þau eftir Sigfús Halldórsson og Jón Ásgeirsson, en einnig söng Alda lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Jóhann Ó. Halldórsson. Túlkun hennar var í það heila ágætlega ígrunduð og sannfærandi, en þeir tæknilegu annmarkar sem fyrr voru nefndir háðu henni þó að einhverju leyti. Hún sótti samt í sig veðrið eftir því sem á leið og aría Mímí úr La Boheme eftir Puccini í lokin var yfirleitt prýðilega sungin, en hefði samt hljómað ennþá betur ef píanóleikurinn hefði verið skýrari og líflegri.

Jónas Sen