— Morgunblaðið/RAX
LJÓSMYNDASÝNINGIN Andlit norðursins á Austurvelli með ljósmyndum Ragnars Axelssonar verður framlengd til mánudagsins 5. september. Sýningin var opnuð 24. júní og að talið er að ríflega 100.

LJÓSMYNDASÝNINGIN Andlit norðursins á Austurvelli með ljósmyndum Ragnars Axelssonar verður framlengd til mánudagsins 5. september. Sýningin var opnuð 24. júní og að talið er að ríflega 100.000 manns hafi séð hana í sumar, en hún hefur notið sérstakrar hylli erlendra gesta í Reykjavík, að sögn aðstandenda sýningarinnar. Edda útgáfa og ljósmyndarinn hafa fengið allt upp í tugi tölvuskeyta á dag frá þakklátum ferðamönnum sem sáu sýninguna á leið sinni um landið og vilja fræðast nánar um myndirnar, fá senda samnefnda bók sem kom út hjá Eddu útgáfu á erlendum málum í vor eða þakka fyrir sig.

Ljósmyndirnar voru teknar á um tuttugu ára tímabili á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum og sýna íbúa þessara landa í kröppum dansi við óblíða náttúru norðursins. Stefnt er að því að sýningin verði sett upp næsta vor í Þórshöfn í Færeyjum.