Ása Bjarney Ásmundsdóttir fæddist í Keflavík 19. maí 1961. Hún lést á heimili sínu 24. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Ásmundur Óskar Þórarinsson, f. 1.1. 1930, og Unnur Magnúsdóttir, f. 2.2. 1933. Systkini Ásu eru Magnús, f. 14.4. 1954, Þórarinn, f. 27.4. 1959, Hildur Kristín, f. 25.10. 1962, og Jón Örn, f. 4.11. 1964.

Ása giftist 27. nóvember 1999 Einari Gunnarssyni flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli, f. 21.8. 1956, en þau höfðu verið í sambúð frá 1976. Börn Ásu og Einars eru Ásmundur Óskar, f. 26.6. 1979, í sambúð með Agnesi Ósk Ragnarsdóttur, f. 25.5. 1983, og Unnur, f. 13.11. 1989. Foreldrar Einars eru Gunnar Álfar Jónsson, f. 3.4. 1934, og Unnur Einarsdóttir, f. 24.10. 1933. Systkini Einars eru Jón Sigursteinn, f. 13.8. 1957, Gunnar Páll, f. 1.7. 1963, og Ingunn, f. 3.1. 1965.

Útför Ásu verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Í dag kveðjum við elskulega tengdadóttur. Með skjótum hætti erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið né öruggt. Ung kona fjörutíu og fjögurra ára og í blóma lífs síns fellur frá. Lífsferli Ásu lauk með snöggum hætti 24. þ.m.er hún fékk mikið heilablóðfall og lést sama dag. Engu var hægt að breyta. Þetta var allt svo sárt og óvænt. Eftir stöndum við hnípin og skiljum illa þennan tilgang lífsins.

Hún var mjög ung, þegar hún kynntist Einari syni okkar. Þau urðu strax ástfangin og þeirra gæfa var að auki að þau urðu mjög góðir vinir. Þau hófu sambúð fljótlega og eignuðust svo sitt fyrra barn, Ásmund Óskar árið 1979 og tíu árum síðar árið 1989 fæddist Unnur. Það var mjög gaman að fylgjast með heimili þeirra og búskap í gegnum árin þrjátíu og tvö, sem þau áttu saman. Þau giftu sig svo áður en ný öld gekk í garð og voru svo innilega hamingjusöm, eins og nýtrúlofuð væru. Sú stund er okkur ennþá í minnum. Það var stór stund í lífi þeirra beggja.

Ása var sérlega glaðsinna og skemmtileg, þó svo að hún væri í reynd hlédræg og laus við að trana sér fram. Hún var mjög ljúflynd, einlæg og hrein og bein, laus við allt prjál og tilgerð. Og alltaf var stutt í hláturinn. Við náðum strax mjög góðu sambandi við hana og það var gaman að sitja með henni og spjalla saman eða hringja til hennar. Við áttum alltaf svo skemmtilegar stundir saman, nú í sumarbústað í þessum mánuði og svo nú síðast á heimili þeirra í afmæli Einars, 21. ágúst sl.

Ása var framúrskarandi góð húsmóðir, sérlega dugleg til allra verka. Hún var góð í matseld og bakstri og einskis var vant á borði hennar. Hún bjó börnum sínum og manni gott heimili þar sem fjölskylda hennar og ættingjar þeirra beggja voru alltaf velkomnir og í reynd var heimilið eins konar miðstöð stórfjölskyldunnar. Það voru fáir dagar sem enginn leit inn á heimili þeirra. Hún hafði alltaf tíma til að tala við og sinna öðrum í fjölskyldunni sem og öllum vinunum áður en að henni sjálfri kæmi og var þeim mikil stoð og stytta. Hún umvafði alla með umhyggju sinni og ástúð. Já, Ása var vön að hugsa fyrst um aðra og hafði fyrir löngu ákveðið, þegar kæmi að dánardegi hennar, að gefa líffæri sín til annarra, þeirra sem þörf hefðu fyrir þau, og ef hægt yrði að koma því við. Þetta gekk allt eftir og nú eru vonandi einhverjir, sem njóta þeirra gjafa hennar. Þetta lýsir Ásu mjög vel, fórnfýsi hennar og velvilja til samferðafólksins og að aðrir njóti þess, sem hún hefur ekki þörf fyrir lengur. Og nú, þegar Ása hefur verið kvödd til annarra starfa í æðri heimi, er okkur sár söknuður í hjarta. Sárastur er söknuðurinn hjá Einari okkar og börnum hans, Ásmundi og Unni og foreldrum Ásu og systkinum. Við þökkum henni fyrir alla tryggðina og vináttuna og öll árin sem við áttum saman. Hún var góð tengdadóttir. Við biðjum góðan guð að gefa Einari og börnunum hans og öllum ættingjum styrk á þessari kveðjustund.

Unnur og Gunnar.

Kæra mágkona, svilkona og frænka.

Við viljum í fáum orðum þakka fyrir yndislega samveru í þessu lífi. Allar þær minningar sem við eigum um samveru okkar geymum við í hjarta okkar nú og um alla framtíð.

Elsku Einsi, Ási og Unnur. Á þessari stundu erum við hjá ykkur í huganum og biðjum góðan guð að vera hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Gunnar Páll, Steinunn Helga, Sigurður og Sigrún Sól,

Danmörku.

Enginn veit sína ævina. Það sannaðist svo sannarlega hinn 24. ágúst þegar elskuleg mágkona mín hún Ása fékk óvænta heilablæðingu. Þann dag minnti haustið á sig með norðan roki og kulda. Það haustaði í hjörtum okkar. Við hittumst síðast viku fyrir andlát hennar. Engan hefði grunað að svo skjótt yrði hún kölluð til annarra starfa.

Einar talaði gjarnan um að hann hefði fengið Ásu sína í tvítugsafmælisgjöf. Og að það hefði verið besta afmælisgjöfin sem hann hefði nokkru sinni fengið. Þá var Ása aðeins fimmtán ára snót á Siglufirði en Einar var að vinna við jarðboranir þar.

Við fjölskyldan fengum fljótlega að heyra að stóri bróðir væri kominn með kærustu og var spennan mikil hjá okkur yngri systkinunum þegar við hittum hana fyrst. Það var svo ekki fyrr en þau fóru að búa í Njarðvík að við fórum að kynnast henni. Það var ekki lítið spennandi fyrir okkur að fá að fara suðreftir og gista hjá þeim yfir helgi. Njarðvík angaði nefnilega af Ameríkustemningu.

Þau eignuðust svo Ása '79 og svo Unni '89 og eftir margra ára sambúð ákváðu þau svo að gifta sig, 1999. Þannig að á tíu ára fresti voru stórviðburðir í lífi þeirra.

Ása og Einar voru ákaflega hamingjusöm hjón. Þau leiddust gjarnan og kysstust í tíma og ótíma. Á milli þeirra voru miklir kærleikar.

Ása valdi það að vera heimavinnandi og sinna heimili og börnum. Hún hafði mikinn áhuga á velgengni barna sinna og var alltaf til staðar þegar þau þurftu á henni að halda. En ekki bara fyrir börnin sín heldur alla stórfjölskylduna. Hún var í daglegu sambandi við foreldra sína og sýndi þeim mikla umhyggju. Heima á Bjarnavöllum var gjarnan mikill gestagangur.

Ása var mjög barngóð. Hún lumaði gjarnan á sælgæti í töskunni sinni handa litlu frændfólki. Ása hafði mikinn áhuga á bílum og þá hreinum bílum. Alltaf þegar við fórum til útlanda geymdum við bílinn hjá þeim. Þegar heim var komið beið okkar stífbónaður bíll þrátt fyrir það að við legðum blátt bann við bílþrifum. Hún hafði einnig áhuga á garðrækt og voru þau hjón búin að búa sér til unaðsreit við húsið sitt. Hún var líka ákaflega gjafmild og umhugað um hag annarra og sýndi það sig best á dánarbeði hennar. Það vekur okkur hin sem eftir lifa til umhugsunar.

Elsku Einar, Ási, Agnes, Unnur og aðrir ástvinir. Hugur okkar er hjá ykkur. Blessuð sé minning Ásu Bjarneyjar.

Ingunn Gunnarsdóttir.

Elsku Ása.

Ég ætlaði ekki að trúa því þegar hún Jóa mágkona þín og vinkona mín hringdi í mig og sagði mér að þú værir farin frá ástvinum þínum og okkur hinum. Af hverju þú, sem varst alltaf hrókur alls fagnaðar og svo yndisleg og svo bara allt í einu þá ert þú farin. En eins og sagt er þá deyja þeir ungir sem guðirnir elska og þú átt greinilega eitthvert annað starf fyrir hendi, elsku dúllan okkar, þó að það sé alltaf sárt að sjá á eftir þeim sem maður elskar, en við vitum samt að þú ert alltaf hjá okkur öllum og skemmtir okkur eins og þér var einni lagið.

Takk fyrir okkar yndislegu samverustundir, þær munu alltaf vera minnisstæðar fyrir mig, elsku yndislega Ása.

Elsku Einar, Unnur, Ásmundur, Agnes, Unnur, Ási, Nonni, Jóa, Maggi, Tóti, Addý, börn og aðrir ættingjar, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og munið bara að okkar kæra Ása fylgir ykkur öllum stundum.

Með ástar- og styrktarkveðjum,

Védís Hlín Guðmundsdóttir og börn.

Elsku Ása frænka, það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin til Guðs. En við munum alla þá góðu og yndislegu daga sem við áttum með þér.

Þú varst alltaf svo hress og glöð þegar við vorum að kíkja í kaffi með mömmu og pabba, við fengum ís og allt mögulegt, bara að nefna það. Mikið verður erfitt að koma á Bjarnarvellina og sjá ekki Ásu frænku, en elsku Ása, við munum alltaf geyma þig í hjörtum okkar og munum minnast þín alla okkar tíð.

Við kveðjum þig nú með sárum söknuði og biðjum góðan guð að geyma þig, elsku Ása frænka.

Elsku Einar, Unnur, Ási, Agnes, afi, amma og aðrir ættingjar, megi guð styrkja ykkur í sorginni.

Arnar Freyr og Sandra Ósk Jónsbörn.

Elsku Ása, það er erfitt að skilja hvers vegna svona ljúf og góð kona þarf að kveðja svona alltof snemma. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Elsku Einar, Ási, Unnur og Agnes, megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Hugur okkar er hjá ykkur.

Unnur Edda og

Guðrún Álfheiður.

Hversu erfitt það er að ætla sér hér

í örfáum línum að minnast

þess alls sem við áttum og upplifðum hér

í þessu jarðlífi með þér.

Þær glaðværu stundir og gáskafull skot

í gegnum hugann reika

Sú tryggð og sú festa sem sýndir þú oss

er sáluhjálp þurftum að leita.

(Bj. Björns.)

Elsku Ása, það að kveðja þig er það erfiðasta sem við höfum reynt. Þú hefur verið fastur punktur í lífi okkar í svo mörg ár. Og svo er bara tómið, ekkert eftir nema góðu minningarnar, sem við eigum eftir með þér og fjölskyldunni. Allar heimsóknirnar, ferðalögin og bústaðaferðirnar sem við höfum átt saman.

Með sárri sorg í hjarta við kveðjum þig frænka og vinkona.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Við kveðjum með trega og söknuði og biðjum góðan Guð að geyma þig.

Um leið og við þökkum liðnar stundir vottum við Einari, Ása, Unni og öðrum ástvinum innilega samúð.

Björn og Þórdís

(Bjössi og Dísa).

Við kynntumst Ásu fljótlega eftir að maður hennar, Einar Gunnarsson, gekk í hóp Félags harmonikkuunnenda á Suðurnesjum. Ása var glaðlynd og skemmtileg kona og féll vel inn í þann félagsskap, sem best kom í ljós á þeim tveim landsmótum S.Í.H.U. er hún sótti með okkur. Fyrst á Ísafirði 2002 og síðan í Neskaupstað 2005.

Við vottum eiginmanni hennar, börnum og öðru skylduliði dýpstu samúð og þökkum fyrir ljúfar samverustundir.

Fyrir hönd okkar félaganna,

Gestur Friðjónsson.

Í dag fylgi ég góðri vinkonu minni Ásu Bjarney Ásmundsdóttur síðasta spölinn hér í þessari jarðvist. Ég kynntist Ásu fyrir alllöngu þegar við störfuðum báðar á Keflavíkurflugvelli. Við urðum strax vinkonur. Ása bjó þá með verðandi eiginmanni sínum Einari Gunnarssyni og syni þeirra Ásmundi. Síðar fæddist þeim dóttirin Unnur. Samband Einars og Ásu var ákaflega gott og var oft haft á orði að þau væru eins og nýtrúlofuð. Hún Ása var svo umhyggjusöm og átti svo gott með að gefa af sér. Samband hennar við börnin sín, foreldra, systkini og vini var þannig. Heimili þeirra hjóna stóð alltaf opið og á stundum var þar þröng á þingi, sérstaklega í litla eldhúsinu á meðan þau bjuggu á Faxabrautinni. Við Addi áttum þá heima í næsta húsi með strákana okkar. Addi var sjómaður þá og mikið að heiman og Einar í lögreglunni og því oft á löngum vöktum. Ég var nánast flutt yfir til Ásu á þessum tíma og eins á meðan Einar fór til Kanada að læra flugumsjón. Við sátum oft og spjölluðum langt fram á nætur, enda báðar miklir nátthrafnar. Þá var hlegið og bullað í bland við alvarlegri umræðuefni.

Þótt samverustundum hafi fækkað með árunum hefur vináttan haldist óbreytt svo þar hefur aldrei fallið skuggi á. Nú síðast fyrir þremur vikum komu þau Ása og Einar í góða heimsókn, hann með nikkuna og hún með góða skapið og þá var nú sungið og trallað fram á nótt. Það var því mikið áfall að fá þær fréttir að Ása hefði veikst og síðan örskömmu síðar látist af völdum heilablóðfalls.

Elsku vinir, Einar, Ási og Unnur, foreldrarnir Ási og Unnur, systkini og aðrir, sem um sárt eiga að binda, Guð veri með ykkur öllum og gefi ykkur styrk á erfiðum tímum. Blessuð sé minning Ásu.

Hrönn.