Úr myndinni Kaffihús á mörkunum (Border Café/Café Transit).
Úr myndinni Kaffihús á mörkunum (Border Café/Café Transit).
NÝJAR kvikmyndir eftir tvo af bestu leikstjórum Írans verða Evrópufrumsýndar á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst þann 29. september næstkomandi.

NÝJAR kvikmyndir eftir tvo af bestu leikstjórum Írans verða Evrópufrumsýndar á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst þann 29. september næstkomandi.

Þetta eru kvikmyndirnar Kaffihús á mörkunum (Border Café/Café Transit) eftir Kambozia Partovi og Dagrenning (Day Break/Dame Sobh) eftir Hamid Rahmanian.

Að sögn Hrannar Marinósdóttur stjórnanda hátíðarinnar er það mikill heiður fyrir hátíðina að fá að sýna kvikmyndirnar fyrst allra hátíða í Evrópu. Myndirnar verða einnig sýndar á Toronto-kvikmyndahátíðinni í Kanada sem hefst í næstu viku.

Kaffihús á mörkunum er nýjasta mynd íranska leikstjórans Kambozia Partovi. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir kvikmyndagerð sína undanfarin ár, en hann skrifaði jafnframt handritið að myndinni Earth and Ashes sem vann til fjölda verðlauna, meðal annars á Cannes-kvikmyndahátíðinni í fyrra. Myndin fjallar um Reyhan, íranska ekkju sem tekur við kaffihúsarekstri eiginmanns síns. Þar sem slíkur rekstur er bannaður konum mætir hún miklu mótlæti. Mágur hennar reynir að nýta sér stöðu hennar og giftast henni og grískur vonbiðill skerst í leikinn. Á endanum eru örlög Reyhan og kaffihússins, sem hefur öðlast miklar vinsældir undir stjórn hennar, ákveðin af héraðsrétti og dómurinn skilur Reyhan eftir í vafa um stöðu sína í heiminum.

Dagrenning er fyrsta leikna mynd íranska leikstjórans Hamid Rahmanian. Hann hefur skapað sér gott nafn sem leikstjóri heimildarmynda, sem hlotið hafa góðar viðtökur á alþjóðavísu. Kvikmyndin Dagrenning er byggð á sönnum sögum er tengjast írönskum lögum um dauðadóma. Lögin veita fjölskyldu fórnarlambs dæmds morðingja ákvörðunarvald yfir lífi morðingjans. Myndin er tekin í rótgrónu fangelsi í Teheran og fjallar um hinn dauðadæmda Mansour sem bíður örlaga sinna sem háð eru geðþóttaákvörðun fjölskyldu fórnarlambsins sem hann er fundinn sekur um að hafa myrt.

Nánari upplýsingar á www.filmfest.is