Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein
MÁLEFNI starfskvenna gæsluvalla Reykjavíkurborgar voru rædd í borgarráði í gær, en rekstri gæsluvallanna var hætt og störf kvennanna lögð niður frá og með gærdeginum.

MÁLEFNI starfskvenna gæsluvalla Reykjavíkurborgar voru rædd í borgarráði í gær, en rekstri gæsluvallanna var hætt og störf kvennanna lögð niður frá og með gærdeginum. Stefán Jón Hafstein, formaður borgarráðs, segir að mál flestra gæslukvennanna séu leyst eða muni leysast á næstu dögum.

Hann harmar, í tilkynningu til fjölmiðla, missagnir um starfslokin, og segir að starfsmennirnir hafi notið ívilnana við starfslok umfram það sem samningar segja til um. Stefán bendir á að uppsagnarbréf hafi ekki verið afhent fyrr en 1. september, en ef ekki hefði átt að ívilna starfsmönnum hefði uppsagnarbréf verið afhent fyrir 1. mars, og því ekki komið til greiðslna eftir 1. september. Sú aðferð að miða uppsagnarfrest við 1. september hafi því fært starfskonunum möguleika á launum í 3-6 mánuði eftir að starfið var lagt niður, án þess að til kæmi vinnuskylda á móti.

Öllum boðin sambærileg störf

Ennfremur segir Stefán að öllum starfskonunum 22 hafi verið boðin sambærileg störf, eins og skylda sé þegar störf á vegum Reykjavíkurborgar eru lögð niður. "Það er fágætt og heyrir til undantekninga á íslenskum vinnumarkaði að starfsmaður, sem hefur fengið boð um annað starf við hæfi, geti við þær aðstæður hafnað starfstilboði og ákveðið í staðinn að gera starfslokasamning um launagreiðslur í 3-6 mánuði án vinnuskyldu á móti. Þetta gildir eigi að síður um starfsmenn gæsluvalla," segir í tilkynningu Stefáns.

Að lokum bendir hann á að til undantekninga heyri að vinnuveitandi geri óformlegt samkomulag við stéttarfélag um að starfsmaður sem hefur störf á félagssvæði annars stéttarfélags geti áfram verið í sínu gamla stéttarfélagi og lífeyrissjóði, sem hafi þó verið gert í þessu tilviki. Gæslukonur bentu einmitt á að ekki hefði gengið að fá skriflegt loforð um þetta, en ef það fáist ekki þurfi þær sem hefji störf á leikskólum að byrja að vinna sig upp frá grunni, enda leiðbeinendur á leikskólum í Eflingu en gæslukonurnar í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks bókuðu í borgarráði í gær að þeir hörmuðu þá meðferð sem gæslukonur hefðu sætt af hálfu borgaryfirvalda, og eins og forystukonur gæslukvennanna hefðu bent á hefðu borgaryfirvöld ekki staðið við fyrirheit um gerð starfslokasamninga.

Í bókun fulltrúa Frjálslynda flokksins vegna málsins segir að gæta þurfi sanngirni í samningum við starfsfólk gæsluvalla vegna lokunar þeirra, um sé að ræða kvennastétt í umönnunarstarfi sem hafi þjónað borgarbúum vel um áratugaskeið, og það þurfi að sýna í verki að slíkt sé metið að verðleikum.

Í svari Reykjavíkurlistans kemur fram að í öllu hafi verið staðið við fyrirheit um ívilnandi starfslokakjör og unnið að málinu öllu í nánu samráði og fullkomnu samkomulagi við stéttarfélag starfsmannanna.