Rúrik Gíslason
Rúrik Gíslason
FORRÁÐAMENN enska knattspyrnufélagsins Charlton Athletic eru himinlifandi yfir því að hafa fengið hinn efnilega íslenska knattspyrnumann Rúrik Gíslason í sínar raðir. Á vef Charlton er fjallað ítarlega um Rúrik sem félagið keypti af 1.

FORRÁÐAMENN enska knattspyrnufélagsins Charlton Athletic eru himinlifandi yfir því að hafa fengið hinn efnilega íslenska knattspyrnumann Rúrik Gíslason í sínar raðir. Á vef Charlton er fjallað ítarlega um Rúrik sem félagið keypti af 1. deildarliði HK í vikunni og þar kemur fram að íslenska félagið geti fengið rúmar 20 milljónir króna í sinn hlut, eða um 180 þúsund pund. Endanleg upphæð er háð því hvort Rúrik komist í aðallið Charlton og leikjafjölda hans þar.

Charlton-menn þakka Hermanni Hreiðarssyni að nokkru leyti að hafa fengið þennan 17 ára gamla pilt til félagsins og sagt er að hann hafi leikið stórt hlutverk í að telja Rúrik á að ganga til liðs við Charlton.

"Rúrik er geysilega mikils metinn víðs vegar um Evrópu, og það sést best á nöfnum þeirra félaga sem hafa fylgst náið með honum," segir Peter Varney, framkvæmdastjóri Charlton, og bendir á að Bayern München, PSV Eindhoven og Ajax hafi öll haft augastað á honum en Rúrik hafi valið Anderlecht þegar hann reyndi fyrst fyrir sér í atvinnumennskunni.

Rúrik lék æfingaleik með unglingaliði Charlton gegn Feyenoord í byrjun ágúst. "Hann var líklega okkar besti maður í þeim leik. Hann er kraftmikill og vinnur vel, og þá hæfileika þarf hann svo sannarlega að nota hjá okkur," segir Steve Gritt, yfirmaður unglingamála hjá Charlton.