BORGARSTJÓRNARFLOKKAR R-listans og sjálfstæðismanna fá sömu meðaleinkunn fyrir frammistöðu sína á kjörtímabilinu í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Þeir fá báðir meðaleinkunnina 5,2. F-listinn fær meðaleinkunnina 3,9.

BORGARSTJÓRNARFLOKKAR R-listans og sjálfstæðismanna fá sömu meðaleinkunn fyrir frammistöðu sína á kjörtímabilinu í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Þeir fá báðir meðaleinkunnina 5,2. F-listinn fær meðaleinkunnina 3,9.

Þátttakendur í könnuninni voru beðnir um að meta frammistöðu þeirra flokka og lista sem nú eiga sæti í borgarstjórn og voru því spurðir eftirfarandi spurningar: "Nú ætla ég að biðja þig að gefa þeim flokkum eða lista sem sitja í borgarstjórn einkunn á kvarðanum núll til tíu fyrir frammistöðu sína almennt á núverandi kjörtímabili?" Meðaleinkunn R- listans og D-listans var 5,2 eins og áður sagði og meðaleinkunn F-listans 3,9.

Einkunnagjöfin var þó mismunandi eftir því hvað fólk ætlaði að kjósa. R-listinn fékk t.d. 7,2 í meðaleinkunn hjá þeim sem ætla að kjósa Samfylkinguna, 6,2 hjá þeim sem ætla að kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og 5,9 hjá þeim sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn. Þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn gáfu R-listanum hins vegar að meðaltali fjóra í einkunn fyrir frammistöðu á kjörtímabilinu.

D-listi sjálfstæðismanna fékk 6,8 í meðaleinkunn hjá þeim sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en á bilinu 3,8 til 5,1 hjá þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.

F-listinn fékk 7 í meðaleinkunn hjá þeim sem ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn, en á bilinu 3,2 til 5,1 hjá þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.

Konur gefa R-listanum hærri einkunn fyrir frammistöðu en karlar, en dæmið snýst við þegar kemur að D-listanum. Karlar og konur gefa F-listanum hins vegar svipaða einkunn.

Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð dagana 25. til 29. ágúst. Stuðst var við 800 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til Reykvíkinga á aldrinum 18 til 80 ára. Alls 532 svöruðu könnuninni og var brúttósvarhlutfall því 66,3%.