Aviator er stæðilegur bíll og tekur allt að sjö manns í sæti.
Aviator er stæðilegur bíll og tekur allt að sjö manns í sæti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LINCOLN hefur einkum verið þekkt fyrir framleiðslu á dýrum lúxusfólksbílum en á síðustu árum hefur fyrirtækið haslað sér völl í framleiðslu á Navigator- og Aviator-jeppunum.

LINCOLN hefur einkum verið þekkt fyrir framleiðslu á dýrum lúxusfólksbílum en á síðustu árum hefur fyrirtækið haslað sér völl í framleiðslu á Navigator- og Aviator-jeppunum. Við prófuðum á dögunum Lincoln Aviator sem líkist mjög stærri jeppanum Navigator í útliti með sitt stóra og framstæða grill. Þetta er þó ekki fullbúinn jeppi heldur fremur götujeppi með sítengdu aldrifi en án millikassans.

Byggður á Explorer

Til að halda niðri kostnaði fór Lincoln þá leið að byggja Aviator á grunni Ford Explorer sem hefur jafnan verið einn af söluhæstu jeppunum í Bandaríkjunum. En ýmislegt hefur verið gert til að aðgreina bílana. V8 vélin í Explorer skilar þannig að hámarki 239 hestöflum en með breytingu á vélinni hefur Lincoln náð úr úr henni 302 hestöflum sem gefur bílnum hressilegt viðbragð og skemmtilega millihröðun. V8-vélin er tengd við fimm þrepa sjálfskiptingu sem er, ólíkt flestum evrópskum lúxusjeppum, án handskiptivals, en mjúk og viljug til að skipta niður við góða inngjöf. Með þessari aflmiklu vél er bíllinn engu að síður hljóðlátur svo vekur eftirtekt en um leið hefur Lincoln-mönnum tekist að skila hásu hljóðinu frá v-áttunni vel inn í farþegarýmið þegar bílnum er gefið hressilega inn. Miðað við aksturstölvu bílsins var eyðslan í þjóðvegaakstri rétt rúmir 16 lítrar.

Bíllinn er fremur mjúkur í hreyfingum á ameríska vísu en ekki þó þannig að evrópskir fúlsi við. Bíllinn liggur nefnilega glettilega vel þar sem hann var reyndur á malbikuðum vegum. Hann er með sjálfstæða fjöðrun og liggur hreint ágætlega. Nákvæm stýring, góðar bremsur og yfirhöfuð ágætir aksturseiginleikar gera það að verkum að það er skemmtilegt að aka þessum bíl. Athyglisvert er hve tekist hefur að létta stýrisátakið í hægum akstri en það er hraðatengt og þyngist því til muna þegar þjóðvegahraða er náð.

Kantaður og á krómfelgum

Aviator er dálítið sérstakur í útliti. Vélarhlífin er há og bíllinn dálítið kubbslegur að framan. Áberandi stórir og ferkantaðir hliðarspeglar eru með stefnuljósum að neðan og innstigsbrettið á hliðunum er stórt og setur sérstæðan svip á bílinn. Hurðarhúnarnir eru sömuleiðis stórir og sér maður fyrir sér að auðvelt sé að opna bílinn jafnvel með þykka ullarvettlinga að vetri til. Öll hönnunin er því fremur köntuð og kassalaga og virðist lítið eiga skylt við þá tilhneigingu að draga sem mest úr loftmótstöðu, sem dregur úr eldsneytiseyðslu og vindgnauði og gerir bíla hraðskreiðari.

Stór stigbretti, krómaðar felgur og krómlistar að utan minna á að þetta er bíll í lúxusjeppaflokki.

Þegar sest er inn í bílinn blasir sömuleiðis við að ekkert er sparað til þess að gera vistarverurnar sem þægilegastar. Rafstilling er í sætum með minni og sömuleiðis pedalar, þannig að hægt er að ráða hæð þeirra frá gólfi. Bíllinn er klæddur ljósu leðri og sömuleiðis stýrið. Efri helmingur þess er samt gerður úr eðalviði og undirstrikar lúxustilfinninguna.

Á stýrinu eru rofar fyrir skriðstillingu, útvarp og hljómtæki og líka miðstöð/loftkælingu, sem er bráðsnjallt og ekki síður þægilegt. Vinstra megin á stýrinu er stilkur fyrir stefnuljósin og líka rúðuvindurnar, sem er óvanaleg staðsetning í evrópskum bílum en algeng í bandarískum. Bíllinn er ekki með dagljósabúnaði og sætastillingarnar eru í hurðinni en ekki neðanverðu sætinu eins og margir eiga að venjast. Millistokkur með stórri hirslu er á milli framsætanna. Fyrir neðan hljómtækin er rofi fyrir aksturstölvu sem sýnir t.a.m. vegalengdir, hve langt er hægt að komast á eldsneyti í tanknum, eldsneytiseyðslu og þarna er líka klukka og áttaviti.

Bíllinn kemur með aflmiklum hljómtækjum með geislaspilara. Hægt er að setja hlíf yfir hljómtækin með Lincoln-merkinu og þá freista tækin síður fingralangra þar sem þau sjást ekki.

Sjö manna bíll

Það fer vel um ökumann undir stýri en þó geta hávaxnir fundið fyrir þrengslum. Ágætt pláss er fyrir þrjá fullorðna í aftursætum en þó sitja fullvaxnir þar með fætur í óþægilegri stöðu til lengdar. Þriðja sætaröðin er einungis fyrir börn og aðgengið er ágætt þar sem hægt er að leggja fram aftursætisbakið og fella sætið upp að framsætisbaki og mynda þannig gott aðgengi. Þá er hægt að fella niður sætisbökin á þriðju sætaröðinni og mynda tiltölulega flatt rými þar fyrir farangur. Með þriðju sætaröðina í notkun er farangursrýmið með minnsta móti.

Góður kostur er að skottlokið opnast í tvennu lagi; annaðhvort einungis rúðan eða allur hlerinn. Bíllinn er með bakkvörn og regnskynjara.

Óhætt er að segja að Lincoln Aviator er eftirtektarverður kostur á jeppamarkaði. Hann hefur aflið og aksturseiginleikana ásamt góðri hljóðeinangrun og miklum búnaði.

Lincoln Aviator Luxury

Vél: 4,6 lítra, V8, 32 ventla.

Afl: 302 hestöfl við 5.750 snúninga á mínútu.

Tog: 407 Nm við 3.250 snúninga á mínútu.

Drif: Sítengt aldrif.

Skipting: Fimm þrepa sjálfskipting.

Lengd: 4.910 mm.

Breidd: 1.877 mm.

Hæð: 1.801 mm.

Eigin þyngd: 2.269 kg.

Verð: 5.965.000 kr. (grunnverð). Verð á próf unarbíl: 6.743.000 kr.

Umboð: Brimborg hf.

gugu@mbl.is