* ÁRNÝ Heiðarsdóttir úr Óðni í Vestmannaeyjum varð í 3. sæti í þrístökki á HM öldunga í San Sebastian í fyrrakvöld. Árný stökk 9,58 metra í flokki 50-54 ára. Þetta eru önnur verðlaun Árnýjar á mótinu en hún vann einnig til bronsverðlauna í langstökki.

* ÁRNÝ Heiðarsdóttir úr Óðni í Vestmannaeyjum varð í 3. sæti í þrístökki á HM öldunga í San Sebastian í fyrrakvöld. Árný stökk 9,58 metra í flokki 50-54 ára. Þetta eru önnur verðlaun Árnýjar á mótinu en hún vann einnig til bronsverðlauna í langstökki.

*ÓVÍST er hvort framherjinn Roy Makaay getur leikið með hollenska landsliðinu gegn Armeníu í undankeppni HM á laugardag en hann meiddist í árekstri við Theo Lucius á æfingu í gær. Makaay meiddist á hné en ekki er vitað hversu lengi hann verður frá fyrr en að loknum rannsóknum í dag.

* MANCHESTER United hefur lánað Lyn danska framherjann Mads Timm út leiktíðina. Mörg lið sóttust eftir kröftum hans, þar á meðal Íslendingaliðið Stoke City , en leikmaðurinn var í láni hjá Viking Stavanger í fyrra. Timm hefur spilað einn leik með Manchester United en pilturinn sat í fangelsi í þrjá mánuði fyrr á þessu ári vegna glæfraaksturs sem leiddi til alvarlegs umferðarslyss.

* JUSTIN Hoyte , varnarmaður frá Arsenal , hefur verið lánaður til Sunderland , nýliðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, út þetta tímabil.

* GRZEGORZ Rasiak , sóknarmaður frá Póllandi , er kominn til liðs við Tottenham , sem keypti hann af 1. deildar liði Derby County í fyrrakvöld. Rasiak hefur vakið mikla athygli með liði Derby og hann hefur jafnframt skorað 6 mörk í 20 landsleikjum fyrir Pólverja.

* OLE Gunnar Solskjær, norski knattspyrnumaðurinn, verður ekki kominn á ferðina með Manchester United fyrir jól eins og vonast hafði verið eftir. Solskjær hefur verið lengi frá vegna hnémeiðsla og læknir hans hafði reiknað með því að hann gæti byrjað að æfa í október. Nú hefur enn komið fram rifa í liðbandi og læknirinn segir að mikil óvissa sé með framhaldið hjá þessum 32 ára markaskorara.