Íslandsvinurinn Gerhard König við hvalbeinið góða sem hann hefur gert að listaverki.
Íslandsvinurinn Gerhard König við hvalbeinið góða sem hann hefur gert að listaverki. — Morgunblaðið/Hafþór
Þýski listamaðurinn Gerhard König, sem undanfarin ár hefur unnið að endurbyggingu listaverka Samúels Jónssonar í Selárdal, er einnig orðinn góðvinur Hvalasafnsins á Húsavík.

Þýski listamaðurinn Gerhard König, sem undanfarin ár hefur unnið að endurbyggingu listaverka Samúels Jónssonar í Selárdal, er einnig orðinn góðvinur Hvalasafnsins á Húsavík.

Á síðasta ári kom Gerhard í heimsókn og hóf að skera út hvali í stórt kjálkabein sem stendur fyrir utan Hvalasafnið. Hann var aftur á ferðinni í sumar og í síðustu viku lauk hann við listaverkið með því að skera út hvali og kolkrabba á bakhlið kjálkabeinsins.

Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður safnsins, segir að næsta verk sé að koma beininu fyrir á góðum stað til að ferðamenn geti skoðað listaverkið frá báðum hliðum. Ásbjörn segir listamanninn gefa alla vinnu sína við verkið enda mikill áhugamaður um hvali og hvalaskoðun.

"Við á Hvalasafninu erum Gerhard ákaflega þakklát fyrir framlagið og hlökkum til að sjá hann aftur að ári," sagði Ásbjörn að lokum.