YTRI skilyrði hafa verið sjávarútvegi á margan hátt erfið að undanförnu. Gengi krónunnar hefur staðið hátt og verið að hækka og olíuverð hefur verið í sögulegum hæðum.

YTRI skilyrði hafa verið sjávarútvegi á margan hátt erfið að undanförnu. Gengi krónunnar hefur staðið hátt og verið að hækka og olíuverð hefur verið í sögulegum hæðum.

Þetta kom fram í Morgunkorni Íslandsbanka, en þar segir að öllum líkindum muni íslenskur sjávarútvegur þurfa að búa við þessi óhagstæðu skilyrði um hríð.

"Á móti kemur að afurðaverð á erlendum mörkuðum hefur hækkað talsvert síðustu misseri. Vextir í helstu skuldamyntum hafa einnig verið lágir en líkur er á að þeir munu eitthvað fara hækkandi á næstunni. Samþjöppun í útgerð hefur vaxið á síðustu árum, þannig réðu tíu stærstu kvótahafar yfir 24% af heildarkvótanum árið 1992 en í ár er hlutfallið komið í 50%. Þegar horft er til síðustu ríflega 20 ára er ljóst að afkoma í útgerð og vinnslu hefur batnað mikið þótt sveiflur séu nokkrar á milli ára.

Á næstu árum reiknum við með því að hlutfall sjávarafurða í heildargjaldeyristekjum verði komið í 32% árið 2007 og í 27% árið 2012. Ástæðan er sú að gjaldeyristekjur frá öðrum atvinnugreinum, iðnaði og þjónustugreinum, munu vaxa mun hraðar á næstu árum og ekki síst þegar framleiðsla hefst á grundvelli yfirstandandi álversframkvæmda," segir í Morgunkorni. Um þetta og fleira er fjallað í nýrri skýrslu sem Greining ISB hefur gefið út og er hægt að nálgast á heimasíðu Íslandsbanka.