Ísafjörður | Stofnuð hafa verið verðlaun ísfirskrar alþýðu. Verðlaunin má rekja til Heimastjórnarhátíðar alþýðu sem haldin var á Ísafirði fyrir ári.

Ísafjörður | Stofnuð hafa verið verðlaun ísfirskrar alþýðu. Verðlaunin má rekja til Heimastjórnarhátíðar alþýðu sem haldin var á Ísafirði fyrir ári. Með verðlaununum er ætlunin að þakka þeim sem lagt hafa mikið af mörkum til mannlífs og byggðar á Ísafirði. Jón Fanndal Þórðarson veitingamaður á Ísafirði var frumkvöðull að Heimastjórnarhátíð alþýðu og hann stendur einnig að stofnun þessara verðlauna. Hann segir raunveruleg grettistök, sem lyft hefur verið til styrktar byggð, gleymist oft í pólitískri samtryggingu og skjallbandalögum. Með verðlaununum eigi að gera tilraun til þess að benda á raunverulegan árangur sem skilað hefur alþýðu manna bættu mannlífi og betri hag.

Fyrir skömmu var eitt ár liðið frá því að haldin var Heimastjórnarhátíð alþýðunnar á Ísafirði. Til hátíðarinnar var boðað til þess að allur almenningur mætti fagna 100 ára afmæli heimstjórnar á Íslandi. Hátíðin, sem haldin var á Ísafirði, tókst mjög vel og sóttu hana þúsundir manna.

Jón segir nafn verðlaunanna ekki endanlega ákveðið. Hins vegar sé ætlunin með þeim að heiðra þá sem lagt hafa byggð á Ísafirði og nágrenni lið með störfum sínum. "Þar geta komið til greina félög, fyrirtæki og einstaklingar." Aðspurður segir hann ekki ákveðið hver hljóti verðlaunin þegar þau verða veitt í fyrsta skipti. Hann segir hinsvegar stefnt að afhendingu fyrstu verðlaunanna fljótlega og það verði gert þannig að sómi verði að.