— Morgunblaðið/Ásdís
Íslenskt spergilkál er komið í verslanir, glænýtt og stútfullt af bætiefnum. Spergilkál er náskylt blómkáli, en er bragðmeira og auðugt af A- og C-vítamínum. Spergilkál hentar mjög vel til frystingar að undangenginni forsuðu.

Íslenskt spergilkál er komið í verslanir, glænýtt og stútfullt af bætiefnum. Spergilkál er náskylt blómkáli, en er bragðmeira og auðugt af A- og C-vítamínum. Spergilkál hentar mjög vel til frystingar að undangenginni forsuðu. Uppskriftin hér að neðan er fengin að láni úr matreiðslubókinni Af bestu lyst, en í réttinn þarf m.a. spergilkál.

Grænmetislasagna

12-14 lasagnablöð

300 g spergilkál

2 dl vatn

salt

1 saxaður laukur

300 g sveppir í sneiðum

1 msk. matarolía

500 g kotasæla

1-2 tsk. basílíka

salt og pipar eftir smekk

Leggið lasagnablöðin í bleyti í fimm mínútur. Sjóðið spergilkálið í léttsöltuðu vatni í tvær mínútur. Ef notað er frosið spergilkál þarf ekki að sjóða það. Látið lauk og sveppi krauma í olíunni. Blandið saman í skál spergilkáli, lauk, sveppum, kotasælu, basílíku og salti.

Sósa

8 dl léttmjólk

4 msk. hveiti

1 tsk. salt

½ tsk. múskat

pipar eftir smekk

3 dl ostur, 17%

1 msk. parmesanostur

Hitið sex dl af léttmjólk. Hrærið saman tvo dl af kaldri mjólk og hveiti og jafnið mjólkina í pottinum. Bragðbætið með salti, múskati og pipar. Látið sósuna sjóða í fimm mínútur og bætið þá ostinum út í en geymið þrjár matskeiðar. Gætið þess að sósan þykkni ekki um of. Smyrjið ofnfast fat og hyljið botninn með þunnu lagi af sósunni. Leggið lasagnablöðin yfir, síðan grænmetið, þá ostasósuna og loks lasagnablöð. Endurtakið þetta tvisvar til þrisvar. Hafið ostasósuna efst, stráið parmesanosti og afganginum af rifna ostinum yfir. Bakið í miðjum ofni við 200°C í hálftíma.