Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir, Ólafur Beinteinn Ólafsson og Stefán Helgi Stefánsson ætla að minnast forfeðra sinna, söngvaranna Sigurveigar Hjaltested og Stefáns Íslandi, á tónleikum.
Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir, Ólafur Beinteinn Ólafsson og Stefán Helgi Stefánsson ætla að minnast forfeðra sinna, söngvaranna Sigurveigar Hjaltested og Stefáns Íslandi, á tónleikum. — Morgunblaðið/Jim Smart
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is NIÐJAR tveggja ástsælla íslenskra söngvara, þeirra Sigurveigar Hjaltested og Stefáns Íslandi, ætla að koma saman á sex tónleikum á næstunni til að heiðra minningu þeirra.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

NIÐJAR tveggja ástsælla íslenskra söngvara, þeirra Sigurveigar Hjaltested og Stefáns Íslandi, ætla að koma saman á sex tónleikum á næstunni til að heiðra minningu þeirra. Þetta eru þau Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópransöngkona, sonardóttir Sigurveigar, og Stefán Helgi Stefánsson tenórsöngvari, en Stefán Íslandi var langafi hans í beinan karllegg.

Íslenskar söngperlur og óperutónlist

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Ými á sunnudag kl. 17 og verða þar flutt hefðbundin íslensk einsöngslög og dúettar fyrir hlé, en óperutónlist eftir hlé. Söngvurunum til fulltingis eru Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari og Ólafur Beinteinn Ólafsson, sonur Sigurveigar Hjaltested og Ólafs Beinteinssonar, en það var hann sem átti hugmyndina að þessum tónleikum dóttur sinnar og Stefáns.

"Hann spilar og kynnir og er eins konar sögumaður á tónleikunum. Hugmyndin að þeim er í raun komin frá honum," útskýrir Ingibjörg Aldís. "Honum fannst snjallt að minnast og heiðra Sigurveigu og Stefán og gefa um leið ungum söngvurum tækifæri til að koma sér á framfæri og kynna sig. Hann hlaut styrk til verkefnisins úr Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur og við vorum að sjálfsögðu reiðubúin að vera með."

Á tónleikunum verður flutt tónlist sem Stefán og Sigurveig gerðu garðinn frægan með á sínum tíma, í bland við tónlist sem þau Ingibjörg Aldís og Stefán Helgi hafa dálæti á. "Þarna verða flutt lög á borð við Gígjuna eftir Sigfús Einarsson og Til skýsins eftir Emil Thoroddsen. Af óperutónlistinni syngjum við mikið úr La Traviata - dúettana þaðan frá a til ö. Síðan verður dúett og aría úr Ástardrykknum, svo dæmi séu tekin," segja þau og bæta við að rómantík og lýrík einkenni efnisskrána. "Það er mikið af ástum alls staðar."

Það gerðist þó aldrei, svo söngvararnir viti til, að Sigurveig og Stefán hafi sungið saman, enda var kynslóðarbil á milli þeirra. "Enda erum við ekkert að reyna að stæla þau, heldur syngjum bara eins og við syngjum. En við viljum reyna að endurvekja þessa stemningu frá þessum tíma."

Ferðast um landið og syngja

Ingibjörg og Stefán hyggja svo á ferðalag um landið, þar sem efnisskráin verður með svipuðu sniði. Fyrst verður förinni heitið til Selfoss þann 10. september, en þaðan halda þau norður á Akureyri og á Sauðárkrók og halda þar tónleika 17. og 18. september. Í lok október verður síðan haldið á Ísafjörð og Egilsstaði. "Það var mun algengara hér áður fyrr að menn og konur færu um landið og syngju. Við ætlum að láta reyna á það; taka góðan rúnt og leyfa fólki að njóta," segir Stefán Helgi.

Stefán Íslandi lést í hárri elli árið 1994, en Sigurveig, sem er 82 ára gömul í dag, hefur boðað komu sína á tónleikana. "Hún verður heiðursgestur á tónleikunum okkar," segir Ingibjörg og bætir við að amma hennar hafi haft mikil áhrif á hana í þá átt að hefja söngnám. Stefán hafði nýhafið söngnám þegar langafi hans lést, en segir hann hafa glaðst yfir ákvörðun hans.

Þau Stefán segja marga, sérstaklega eldra fólk, hafa gaman af þessari tengingu þeirra við hina raddprúðu forfeður þeirra, þó raddir þeirra séu langt frá því að vera eins. "Ég reyni að bera mig ekki saman við ömmu, heldur fyrst og fremst hvort ég sé sjálf ánægð með hvernig ég syng. Þau voru stjörnur síns tíma og því er erfitt að bera sig saman við þau," segir Ingibjörg og Stefán tekur í sama streng. "Langafi minn var svo góður söngvari og frægur, að þó ég rembdist eins og rjúpan við staurinn kæmist ég aldrei nálægt því að verða eins og hann. En það er alltaf gaman þegar fólk heyrir einhvern tón sem því finnst minna á hann."