Grátandi barn í fanginu á lögreglukonu. Því var nýbúið að bjarga úr umflotnu húsi.
Grátandi barn í fanginu á lögreglukonu. Því var nýbúið að bjarga úr umflotnu húsi. — Reuters
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is TUGIR þúsunda manna biðu þess í gær að komast burt frá New Orleans en ástandið í borginni versnar með degi hverjum.
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is

TUGIR þúsunda manna biðu þess í gær að komast burt frá New Orleans en ástandið í borginni versnar með degi hverjum. Skortir þar mat, vatn og rafmagn og síðan bætist við, að vopnaðir glæpaflokkar fara ránshendi um sum hverfi. Stefnt er að því, að á næstu dögum verði um 30.000 hermenn komnir til aðstoðar og flestir í Louisiana og Mississippi.

Unnið var að því í gær að flytja um 25.000 manns, sem leitað höfðu skjóls í Superdome-leikvanginum í New Orleans, í Astrodome-leikvanginn í Houston í Texas en auk þess hóps höfðust tugþúsundir manna við í háhýsum og hótelum borgarinnar meðan fellibylurinn gekk yfir. Beið þetta fólk eftir því í gær að komast burt og sumt ekki vel á sig komið.

Fréttamenn sögðu í gær, að í stórri ráðstefnuhöll, sem notuð var eftir að Superdome yfirfylltist af fólki, væru þúsundir manna, allslausar og hrópandi á hjálp. Sums staðar hefði mátt sjá látið fólk. Ray Nagin, borgarstjóri í New Orleans, sagði í gær, að algert neyðarástand ríkti í ráðstefnuhöllinni enda vistir þrotnar. Sagði hann, að þúsundir manna hefðust við úti fyrir henni, gamalt fólk og sjúkt og barnafjölskyldur.

Er ástandið um sumt farið að minna á flóttamannavanda, sem Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandamenn hafa hingað til aðeins kynnst á sjónvarpsskjánum.

Staðfest manntjón í Mississippi var í gær komið vel á þriðja hundraðið og hækkaði talan stöðugt og Nagin, borgarstjóri í New Orleans, ítrekaði, að líklega hefðu þúsundir manna farist í borginni. Margra er saknað, meðal annarra söngvarans Fats Dominos.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, ætlar að koma til hamfarasvæðanna í dag og hann hefur beðið forsetana fyrrverandi, George Bush, föður sinn, og Bill Clinton, að leggja sitt af mörkum til hjálparstarfsins. Nokkur stórblöð í Bandaríkjunum gagnrýndu í gær Bush forseta fyrir andvaraleysi og sein viðbrögð í þessu mikla máli.

Um 4.000 þjóðvarðliðar fengu í gær það verkefni að halda uppi lögum og reglu í New Orleans en í sumum hverfum var óöldin svo mikil, að hún truflaði björgunarstarfið.

Í gær var skýrt frá því, að birgðir af þotueldsneyti hefðu minnkað allmikið og þá rauk upp verð á bensíni í sumum Suðurríkjanna. Fór það allt upp í sex dollara gallonið en til jafnaðar er það nokkuð innan við þrjá dollara í Bandaríkjunum.