Mazda RX-8 er einn þeirra bíla sem nýtt Mazda-umboð býður.
Mazda RX-8 er einn þeirra bíla sem nýtt Mazda-umboð býður. — Morgunblaðið/Golli
MAZDA Motor hefur gert formlegan samning við Brimborg ehf. um að Brimborg veiti heildarþjónustu fyrir Mazda hér á landi á sviði sölu, viðhalds og viðgerða. Brimborg tekur formlega við sem umboðsaðili Mazda á Íslandi þann 1.

MAZDA Motor hefur gert formlegan samning við Brimborg ehf. um að Brimborg veiti heildarþjónustu fyrir Mazda hér á landi á sviði sölu, viðhalds og viðgerða. Brimborg tekur formlega við sem umboðsaðili Mazda á Íslandi þann 1. október næstkomandi og áætlar að verja hálfum milljarði í uppbyggingu umboðsins. Fyrirtækið mun á næstu mánuðum hefja sölu á Mazda og veita alhliða þjónustu samkvæmt gæðastöðlum Mazda í nýju húsnæði við Bíldshöfða 8, á lóðinni við hlið Brimborgar við Bíldshöfða 6, eða þar sem Bifreiðaeftirlitið var til húsa í eina tíð. Framkvæmdir við nýtt húsnæði Mazda eru hafnar og gera áætlanir ráð fyrir að formleg markaðsfærsla á Mazda, undir fána Brimborgar, hefjist á árinu eða jafnskjótt og framkvæmdum lýkur.

Sýningarsalur fyrir Mazda, varahlutaverslun, hraðþjónusta og fullkomin viðgerðar- og viðhaldsþjónusta verða í 1.800 fermetra húsnæði á mjög rúmri og aðgengilegri 6.000 fermetra lóð. Öll þjónusta Mazda verður veitt af vel menntuðu og reyndu fagfólki Mazda. Framkvæmdastjóri fyrir Mazda hjá Brimborg er Þórður Gunnarsson, sem áður gegndi starfi sölustjóra hjá Heklu og Öskju. Um 25 manns munu starfa hjá Mazda við Bíldshöfða 8.

Brimborg mun bjóða breitt úrval fólksbíla, þ.m.t. Mazda2, Mazda3, Mazda5, Mazda6, Mazda MX-5 og Mazda RX-8. Við þróun vörulínu Mazda á Íslandi hefur Brimborg lagt sérstaka áherslu á aukinn staðalbúnað, þ. á m. DSC-stöðugleikastýrikerfi í öllum gerðum og síðast en ekki síst hagstætt verð.

Öflug uppbygging

Kostnaður við uppbyggingu Brimborgar á nýju umboði Mazda er áætlaður rúmur hálfur milljarður króna við húsnæði og lóð, birgðir bíla og varahluta, fjárfestingu í tækjabúnaði og þjálfun starfsmanna.

Slík fjárfesting ber vott um mikla trú á styrkleika og tækifærum Mazda á íslenska bílamarkaðnum.

Mazda Motor Corporation var stofnað í Hiroshima í Japan árið 1920. Fyrirtækið framleiðir rúmlega 1,2 milljónir bíla á ári.

Starfsemi Brimborgar hófst árið 1964. Undir fána Brimborgar starfa hundrað og fjörutíu manns og er Brimborg eitt af stærstu bifreiðaumboðum landsins. Áætlanir Brimborgar gera ráð fyrir sölu á rúmlega fjögur þúsund bílum á yfirstandandi ári. Áætluð velta á árinu nemur rúmum tíu milljörðum króna, sem er rúmlega 233% aukning frá árinu 2003.