Náttúruhamfarirnar í Bandaríkjunum af völdum fellibylsins Katrínar eiga sér ekki hliðstæðu þar í landi. Ástandið í New Orleans og fleiri borgum og bæjum við Mexíkóflóa er ólýsanlegt.

Náttúruhamfarirnar í Bandaríkjunum af völdum fellibylsins Katrínar eiga sér ekki hliðstæðu þar í landi. Ástandið í New Orleans og fleiri borgum og bæjum við Mexíkóflóa er ólýsanlegt. Fram hefur komið að eyðileggingin sé enn meiri en í flóðbylgjunni miklu í Suðaustur-Asíu um síðustu jól, en að vegna góðs undirbúnings og brottflutnings íbúa hafi manntjónið orðið miklu minna en þar. Þó er nú óttazt að þúsundir manna hafi látizt og líkin liggja sums staðar eins og hráviði.

Það virðist á mörkunum að bandarísk stjórnvöld ráði við ástandið, sem hefur skapazt vegna hamfaranna. Rán og gripdeildir eru verulegt vandamál og margir íbúar flóðasvæðanna, sem ekki gátu komið sér burt, eru yfirvöldum ævareiðir fyrir meint aðgerðaleysi. Í gær var þannig skotið á margar björgunarþyrlur og lögregla og hermenn urðu fyrir árásum. Hamfarirnar vestra sýna að jafnvel hinir stóru og voldugu eru berskjaldaðir fyrir ógnaröflum náttúrunnar. Við ættum ekki að hika við að rétta Bandaríkjamönnum hjálparhönd, ef þeir óska eftir aðstoð.