Sigurður Þór ásamt aðstoðarmönnum í bílskúrnum.
Sigurður Þór ásamt aðstoðarmönnum í bílskúrnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÉR hefur alltaf gengið hálfilla á Hellu. Það hefur alltaf komið eitthvað upp á þar og minnisstæðast er mér þegar ég missti af Íslandsmeistaratitlinum 1995 en þá eyðilagði ég vélina.

MÉR hefur alltaf gengið hálfilla á Hellu. Það hefur alltaf komið eitthvað upp á þar og minnisstæðast er mér þegar ég missti af Íslandsmeistaratitlinum 1995 en þá eyðilagði ég vélina. Mér finnst þó áin á Hellu vera ein skemmtilegasta þrautin sem ekin er í torfærunni og hlakka alltaf til að reyna við hana," sagði Sigurður Þór Jónsson á Toshiba-tröllinu þegar hann var inntur eftir því hvernig næsta torfærukeppni, 3. umferð Íslandsmeistaramótsins legðist í hann. Keppnin fer einmitt fram á Hellu á sunnudaginn.

Ef til vill verður gæfan Sigurði hliðholl að þessu sinni. Hann hefur verið í fremstu röð torfæruökumanna í hartnær tvo áratugi. Það er kominn tími til að lukkudísirnar brosi við Sigurði þar sem hann hefur oftar en ekki lent í alvarlegum bilunum eða brotið eitthvað í Toshiba-tröllinu á ögurstundu.

Með langa keppnisreynslu

Sigurður Þór keppti fyrst í torfæruakstri um mitt sumar 1992 á Akranesi en það sumarið keppti hann í tveimur keppnum, þeirri seinni á Akureyri. Hann hefur síðan þá keppt í öllum torfærukeppnum sem haldnar hafa verið undir merkjum LÍA, Landssambands íslenskra akstursíþróttafélaga. Sigurður hafði þá verið að viða að sér ýmsum jeppahlutum og dunda við að smíða jeppa í nokkra mánuði. En í afmæli, tveimur vikum fyrir Akraneskeppnina, var ákveðið að rusla smíðinni af og mætti galvaskt lið aðstoðarmanna í skúrinn helgina eftir. Var fyrsti keppnisjeppi Sigurðar Þórs smíðaður á hálfum mánuði úr því sem til var í skúrnum. Í upphafi keppti Sigurður Þór í götubílaflokki en árið 1997 ákvað hann að færa sig upp í sérútbúna flokkinn þar sem hann hefur verið síðan.

Félagsheimili í skúrnum

Það hefur verið áberandi hversu samhent aðstoðarmannalið Sigurðar er. Þeir hittast tvisvar í viku í bílskúrnum allt keppnistímabilið, gera við og smíða, en hittast síðan vikulega yfir vetrarmánuðina. Aðstoðarmannaliðið hefur verið óbreytt í tíu ár og tveir þeirra, Kristján Birgisson og Guðni Jónsson, hafa verið með Sigurði frá upphafi.

Grunnurinn að Toshiba-tröllinu var smíðaður árið 2000 fyrir keppnisferð til Swindon í Englandi. Síðan hafa verið gerðar margar breytingar á bílnum og er Sigurður óragur við að gera tilraunir og innleiða nýjungar í hönnun torfærubíla. Sem dæmi má nefna að hann átti hugmyndina að keðjudrifna millikassanum sem er í nánast öllum torfærujeppum í dag og hefur reynst ódrepandi. Sigurður varð fyrstur til að nota loftpúðafjöðrun og á þessu ári innleiðir hann "megaausurnar" sem Íslendingar hafa ekki notað áður.

Toshiba-tröllið

Fyrir þetta keppnistímabil setti Sigurður Þór nýja vél í Toshiba-tröllið. Það er 383 cid Small Block Dart keppnisvél og er vélarblokkin mun sterkbyggðari en venjuleg Chevy vél. T.d. eru engir kæligangar í neðri hluta vélarinnar og á hún að þola margfalt meira álag. Heddin á vélinni eru portuð og poliseruð samkvæmt tölvuútreikningum miðað við knastásinn í vélinni. Holley 990cfm innspýting er á vélinni og MSD kveikjukerfi. Sérsmíðuð 360 TurboHydramatic skipting tekur við afli vélarinnar. Framhásingin er Dana 44 með "reverse-drifi" og að aftan er 14 bolta Chevy hásing. Drifhlutföllin eru 4,56:1. Fjöðrunin er, eins og áður sagði, sérsmíðuð loftpúðafjöðrun með Koni-dempurum. Toshiba-tröllið vegur 1.250 kg.

"Vélin rýkur upp á snúning þegar henni er gefið, sama hvert álagið er," sagði Sigurður Þór í vikunni þegar hann vann að því að setja sverari öxla í framhásinguna. Vélin hafði snúið þá báða í sundur á Blönduósi og ætlar Sigurður að reyna að tryggja að það gerist ekki aftur á Hellu á sunnudagi þar sem hann býst við harðri keppni.

jak@ismennt.is

Höf.: jak@ismennt.is