Grímur Atlason
Grímur Atlason
Grímur Atlason fjallar um skipulagsmál: "Burt með flugvöllinn og setjum Árbæjarsafn í Hljómskálagarðinn."

SKIPULAGIÐ í Reykjavík er að vanda mál málanna þegar kemur að borgarpólitíkinni. Undirritaður er kannski ekki alltaf sammála mikilvægisstuðlinum og finnst stundum halla á málaflokka eins og skólamál og félagsmál. En það er ekki mitt að dæma um það hvað eigi og eigi ekki að vera mikilvægasta málið í dag. Hér kemur því stutt innlegg í skipulagsumræðuna.

Í miðri Reykjavík er nokkuð fallegur grasbali með trjám og tjörn í kring. Þetta er Hljómskálagarðurinn en þar má vel fara í piknik ef vindáttin er hagstæð og ef slökkt er á hinum einkar hallærislega gosbrunni sem þrátt fyrir fyrirheit um annað blæs gjarnan tjarnargrútnum yfir göngustíga. Það er hinsvegar ljóst að nýting garðsins er ekki sem skyldi og er það fremur sorglegt í ljósi þess að þetta er grænt svæði á besta stað í borginni. Fyrir stuttu var dregin fram í dagsljósið gömul hugmynd um byggingu kaffihúss í garðinum. Það er frábær hugmynd og gæti verið vísir að endurnýjun lífdaga fyrir þennan yfirgefna garð.

Það mætti gera miklu meira við Hljómskálagarðinn. Það er t.d. óskiljanlegt hvers vegna Árbæjarsafninu var valinn staður í Árbæ (kannski var bara búið að skíra það áður en húsin voru flutt). Hrafn Gunnlaugsson kom með frábæra hugmynd fyrir nokkrum árum sem fólst í því að flytja gömlu húsin úr Árbænum í Hljómskálagarðinn. Þetta er góð hugmynd. Hljómskálagarðurinn og tjarnarsvæðið sunnanvert tæki stórkostlegum framförum fyrir vikið.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er sígilt deilumál. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar í þessu samhengi og sýnist sitt hverjum. Nýverið kom enn ein patentlausnin fram sem felst í því að byggja nýjan flugvöll 500 m frá núverandi flugvelli - bara úti í sjó. Hér er vond hugmynd á ferðinni og aldrei þessu vant var leiðarahöfundur Morgunblaðsins á tánum og gagnrýndi vitleysuna. Þvílík sóun á almannafé að henda 13 milljörðum í nýjan flugvöll til þess eins að stinga dúsu upp í þá sem eru óánægðir. Það er alveg sama hvað reynt er það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis. Pólitík sem gengur út á það að friða fólk í stað þess að taka af skarið og hafa dug og þor er bara leiðinleg framsóknarmennska.

Hvaða framtíðarsýn er það að hafa tvo stóra flugvelli á 25 km radíus? Í ljósi tækniþróunar sl. 50 ára mætti ætla að 25 km vegalengd (í lofti) verði orðin að engu eftir 50 ár. Hvers vegna þá að byggja nýjan flugvöll? Keflavík er alltaf að færast nær og nær og þar er ein af lengri flugbrautum Evrópu og þar er svæðið sem ætti að verða framtíðarmiðstöð innan- og utanlands flugsamgangna okkar Íslendinga.

Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er liðin tíð. Hann truflar og tekur pláss. Það sem meira er: það er ekki þörf fyrir hann. Það er skammsýni að halda að ferðatími farþega af landinu muni lengjast svo nokkru nemi - sé litið lengra en til allra nánustu framtíðar. Hugmyndir um flugvöll á Lönguskerjum eru í besta falli slæmar og í versta falli ef fram ná að ganga heimskuleg sóun á almannafé.

Höfundur situr í stjórn VGR.

Höf.: Grímur Atlason fjallar um skipulagsmál