Gunnar Örn Örlygsson
Gunnar Örn Örlygsson
Gunnar Örn Örlygsson fjallar um staðsetningu innanlandsflugvallar: "Í raun er um takmarkaðan fjölda að ræða sem tapar á því að innanlandsflugið verði fært frá Vatnsmýrinni til Keflavíkur."

UMRÆÐAN síðustu daga um tilvist og framtíð innanlandsflugs á Íslandi hefur leitt af sér ýmsar hugmyndir og ábendingar. Ég leyfi mér að ítreka skoðun mína og rök þar af lútandi, af hverju færa skuli innanlandsflugið til Keflavíkur.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins 23 ágúst sl. hittir í raun naglann á höfuðið og rökstyður í megin atriðum þá skoðun margra að innanlandsflugið skuli fært suður til Keflavíkur.

Stærsta og veigamesta atriðið er að sjálfsögðu kostnaðarliðurinn. Í okkar fámenna landi er með öllu óskiljanlegt af hverju reka skuli tvo stóra flugvelli á sama landsvæði. Sjálfur ek ég til borgarinnar frá Keflavík nær daglega og hef upplifað þá breytingu og tækifæri sem tvöföldun Reykjanesbrautarinnar færir heim. Akstur á milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins mun aðeins taka 20-25 mínútur eftir að búið er að tvöfalda alla Reykjanesbrautina. Samgönguþjónusta milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarinnar er til fyrirmyndar og í raun ódýr kostur. Sjálfur tel ég mikilvægara að stjórnvöld íhugi frekar hvernig tryggja skuli í áföngum tvöföldun vega á öllum leggjum þríhyrningsins Borgarnes - Keflavík - Selfoss, með kjarnapunktinn í höfuðborginni. Má ætla að sá kostnaður sem falla myndi til byggingar nýs flugvallar að Lönguskerjum myndi duga langleiðina í eins risavaxið en þarft samgönguverkefni og hér hefur verið lýst.

Gera Reykvíkingar sér almennt grein fyrir þeim ávinningi sem felst í nýtingu Vatnsmýrarinnar undir byggingarland í framtíðinni? Allir sem fylgjast með, vita að byggingarland í Reykjavík er af skornum skammti skv. núverandi skipulagi. Borgaryfirvöld undanfarinna ára hafa í gríð og erg fært byggð upp til fjalla sem ég tel vera arfavitlausa stefnu. Miðborg Reykjavíkur þarf á byggingarlandinu í Vatnsmýrinni að halda. Annars verður miðborgin skilin eftir í þeirri þróun sem nú sér stað og um leið mun Reykjavíkurborg glata gullnu tækifæri til að þróast enn frekar sem eftirsótt borg til búsetu og ferðalaga.

Hin hliðin á umræðunni er rök fjölmargra íbúa landsbyggðarinnar sem vilja áfram hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Hef ég sjálfur farið víða í sumar og rætt þetta tiltekna mál við fjölmarga aðila. Hef ég fengið ólík sjónarmið frá fólki almennt en hef þó á tilfinningunni að helmingur vilji ekki færa flugið suður og almennt engar breytingar en hinn helmingurinn sé á því að skynsamleg leið sé að færa flugið suður til Keflavíkur. Eitt vil ég þó fjölyrða um. Landsbyggðarfólk sem á erindi til byggða sunnan við höfuðborgina, s.s. Kópavog, Garðabæ eða Hafnarfjörð, tapar ekki miklum tíma ef flugið reynist vera til Keflavíkur í stað Vatnsmýrarinnar. Landsbyggðarfólk sem á erindi til útlanda græðir tíma og í raun einfaldar ferðatilhögun sína með því að fljúga til Keflavíkur í stað Vatnsmýrarinnar. Erlendir ferðamenn sem hyggjast staldra stutt við vegna erinda úti á landi verða að staldra við í Keflavík áður en lengra er haldið, hvort sem þeim líkar betur eða verr enda hefur Keflavík alþjóðaflugvöll að geyma. Í raun er um takmarkaðan fjölda að ræða sem tapar á því að innanlandsflugið verði fært frá Vatnsmýrinni til Keflavíkur. Og ekki má gleyma þeim ávinningi sem skapast að horfið verði frá því að byggja nýjan stóran flugvöll, steinsnar frá Keflavíkurflugvelli, en slík framkvæmd myndi kosta skattgreiðendur á annan tug milljarða króna.

Höfundur er alþingismaður.