— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vegir og göngustígar SÁ hópur landsmanna sem ekki er göngugarpar eða fjallafólk á ofurjeppum er án efa afar fjölmennur. Þessi hópur nýtur nú þegar verulegra vegabóta sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa lagt í, t.d.

Vegir og göngustígar

SÁ hópur landsmanna sem ekki er göngugarpar eða fjallafólk á ofurjeppum er án efa afar fjölmennur.

Þessi hópur nýtur nú þegar verulegra vegabóta sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa lagt í, t.d. Nesjavallavegur og Kárahnjúkavegur, vegur frá Búrfelli upp að Vatnsfellsvirkjun og vegurinn að Blönduvirkjun og upp með Blöndulóni.

Nú er unnið að miklum vegi um Þórdalsheiði og Hallsteinsdal úr Skriðdal yfir á Reyðarfjörð. Vegna framkvæmda orkuveitna er aðgengi almennings að landinu meira og betra en nokkru sinni fyrr.

Andstæður þessa eru hinsvegar margar og ótrúverðugt að fjárskortur hamli sjálfsögðum aðgerðum. Dæmi skal nefnt sem getur gilt um marga aðra fjölsótta ferðamannastaði.

Dyrhólaey er einstakur, fagur og eftirsóttur ferðamannastaður. Vegurinn frá næsta bæ er nánast ófær, holóttur, þvottabretti, staksteinóttur og egghvassar klappir uppúr á köflum. Þegar komið er upp á bílastæðið næst vitanum er það staksteinótt og afar óslétt. Þá er gangstígurinn að vitanum lagður smágerðri lausri möl. Ekki eru slíkir stígir lagðir út að tveimur helstu útsýnisstöðum framan við vitann, vestur yfir ströndina né til skoðunar á gathöfðanum. Sömu sögu má segja um svæðið á neðra planinu austanvert á eynni.

Það sem vantar eru malbikuð plön þar sem hreyfihamlaðir geta hafið för í hjólastólum, þaðan malbikaða stíga að útsýnisstöðum. Þetta er sú lágmarkskrafa sem verður að gera um aðstöðu ferðamanna á útsýnisstöðum og gleyma alls ekki salernisaðstöðu. Fólk með barnakerrur, aldraðir með göngugrindur, hreyfihamlaðir í hjólastólum, eða með staf eða hækjur eiga réttmæta kröfu til þess að svona sé búið um á eftirsóttustu útsýnisstöðum landsins.

Réttmæti þessarar kröfu byggist á þeirri einföldu staðreynd að ferðaþjónusta er önnur helsta gjaldeyristekjulind þjóðarinnar.

Svo enn sé vikið að dæminu frá Dyrhólaey, þá tjáir engum, ekki ferðamálaráði, vegagerð, sveitarfélagi né öðrum að segja ekki ég, ekki ég. Úr þessu verður tafarlaust að bæta, finna þann sem ber ábyrgð. Peningar ferðafólksins, önnur helsta gjaldeyrislind landsins er til. Notið hana.

Kristinn Snæland.

Giftingarhringur í óskilum

GIFTINGARHRINGUR, merktur: þín Magga, fannst í nágrenni Eiðistorgs sl. þriðjudag. Upplýsingar í síma 8634563.

Óliver er týndur

ÓLIVER, sem er rauður og hvítur, týndist við Dýraspítalann í Víðidal . Hans er sárt saknað. Þeir sem gætu gefið upplýsingar um Óliver eru beðnir að hafa samband við Sigrúnu í síma 8461915. Fundarlaun.