Undirbúningur að framboði er að hefjast.
Undirbúningur að framboði er að hefjast.
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is Líkur taldar á stuðningsmannaprófkjöri Samfylkingin í Reykjavík hyggst velja frambjóðendur sína í komandi borgarstjórnarkosningum með prófkjöri. Ekki hefur þó verið ákveðið hversu opið prófkjörið verði.
Eftir Örnu Schram arna@mbl.is

Líkur taldar á stuðningsmannaprófkjöri

Samfylkingin í Reykjavík hyggst velja frambjóðendur sína í komandi borgarstjórnarkosningum með prófkjöri. Ekki hefur þó verið ákveðið hversu opið prófkjörið verði. Í síðustu borgarstjórnarkosningum voru frambjóðendur valdir með svonefndu stuðningsmannaprófkjöri, þ.e. þeir sem skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við flokkinn, höfðu rétt á að kjósa.

Samfylkingarfólk í Reykjavík er að koma sér fyrir í startholunum þessa dagana vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Málefnavinna hefst um helgina, að sögn Jóhönnu Eyjólfsdóttur, formanns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Frambjóðendur verða valdir með opnu prófkjöri, en ekki hefur verið ákveðið hvernig prófkjörið verður nákvæmlega, né heldur hvenær það verður haldið. Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík tekur endanlega ákvörðun um framboðsmál, að öllum líkindum í lok þessa mánaðar. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns þykir sennilegt að svokallað stuðningsmannaprófkjör verði fyrir valinu. Allir stuðningsmenn Samfylkingarinnar geta kosið í slíku prófkjöri - séu þeir ekki skráðir í flokkinn, nægir þeim að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu.

Einnig hafa komið fram raddir um að óflokksbundnum verði tryggð aðkoma að framboðslistanum. Fulltrúaráðið tekur væntanlega einnig afstöðu til þess á fundi sínum í lok september.

Eins og kunnugt er hafa þau Steinunn V. Óskarsdóttir borgarstjóri og Stefán J. Hafstein, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, þegar gefið kost á sér í efsta sæti framboðslistans í Reykjavík.

Auk þeirra stefnir Stefán Jóhann Stefánsson varaborgarfulltrúi á öruggt sæti á listanum. Hann staðfesti það í samtali við blaðamann í gær. "Ég hef verið varaborgarfulltrúi og sinnt ýmsum nefndarstörfum fyrir Reykjavíkurlistann," segir hann. "Ég hef verið hvattur til að gefa kost á mér í eitt af efstu sætunum hjá Samfylkingunni fyrir kosningarnar næsta vor. Ég mun verða við þeim áskorunum."

Sigrún Elsa Smáradóttir varaborgarfulltrúi reiknar sömuleiðis með því að gefa kost á sér áfram, en hefur þó ekki tekið endanlega ákvörðun. Fleiri hafa verið nefndir til sögunnar, s.s. Sigrún Grendal píanókennari og Andrés Jónsson, formaður Ungra jafnaðarmanna. Aðrir mögulegir frambjóðendur eiga vafalaust eftir að stíga fram í dagsljósið.

Þeir samfylkingarmenn sem blaðamaður ræddi við í gær, í tilefni þessarar greinar, virtust almennt nokkuð rólegir vegna prófkjörsins; þeir sögðu m.a. að menn væru líklega að bíða eftir því að málefnavinnan hæfist og að fulltrúaráðið tæki endanlega afstöðu til framboðsmála. Eftir það myndi líklega færast fjör í leikinn.

Átta öttu kappi fyrir síðustu kosningar

Samfylkingin varð formlega til vorið 2000, með samningi Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka um kvennalista. Hinn nýi flokkur tók því fyrst þátt í R-listanum fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2002.

Flokkarnir þrír sem stóðu að R-listanum, þá um vorið, áttu hver rétt á tveimur sætum í sex efstu sætum listans. Þar af komu þriðja og fjórða sætið í hlut Samfylkingarinnar, en auk þess fékk flokkurinn níunda sætið. Sjöunda og áttunda sætið komu í hlut óflokksbundinna, þ.e. þeirra Dags B. Eggertssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Sú síðarnefnda gekk formlega til liðs við Samfylkinguna u.þ.b. ári síðar.

Átta frambjóðendur Samfylkingarinnar öttu kappi um fyrrgreind þrjú sæti og var kosningin í þau sæti bindandi. Flokksbundnir félagar og þeir sem lýstu stuðningi við Samfylkinguna áttu rétt til þátttöku í prófkjörinu. Sendir voru út 3.300 atkvæðaseðlar til flokksfélaga skv. félagaskrá, því þeir gátu kosið með póstkosningu en auk þess var hægt að kjósa á kjörstað í Reykjavík.

Fékk afgerandi kosningu

Meðal þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu voru þrír borgarfulltrúar, þau Helgi Hjörvar, sem kom upphaflega inn í borgarstjórn í gegnum Alþýðubandalagið, Hrannar Björn Arnarsson, sem kom í gegnum Alþýðuflokkinn og Steinunn V. Óskarsdóttir, sem kom í gegnum Samtök um kvennalista. Aðrir frambjóðendur voru Sigrún Elsa Smáradóttir, Stefán Jóhann Stefánsson, Stefán Jón Hafstein, Pétur Jónsson og Tryggvi Þórhallsson.

Stefán Jón fékk afgerandi kosningu í fyrsta sætið, með 1.029 atkvæði í það sæti, Steinunn Valdís varð í öðru sæti með samanlagt 1.217 atkvæði í fyrsta og annað sætið, og Helgi Hjörvar varð í þriðja sæti með samanlagt 1.295 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti. Sigrún Elsa varð í fjórða sæti, Hrannar í því fimmta, Stefán Jóhann í sjötta, Pétur í sjöunda og Tryggvi í áttunda. Alls 2.509 greiddu atkvæði í prófkjörinu.

Í samræmi við þessa niðurstöðu skipaði Stefán Jón þriðja sætið á framboðslista R-listans, Steinunn Valdís fjórða sætið og Helgi Hjörvar níunda sætið. Þá skipaði Sigrún Elsa fimmtánda sætið og Stefán Jóhann átjánda sætið.