Guðjón Bergman
Guðjón Bergman
Frá Guðjóni Bergmann, jógakennara og rithöfundi: "Í LJÓSI þeirrar umræðu sem myndast hefur um viðhorf Íslendinga til múslima vil ég leggja lóð mín á vogaskálarnar. Ég rek Jógamiðstöðina ehf. í Ármúla. Á sömu hæð og í næsta inngangi við mig má finna Félag múslima á Íslandi."

Í LJÓSI þeirrar umræðu sem myndast hefur um viðhorf Íslendinga til múslima vil ég leggja lóð mín á vogaskálarnar. Ég rek Jógamiðstöðina ehf. í Ármúla. Á sömu hæð og í næsta inngangi við mig má finna Félag múslima á Íslandi. Í tæp fjögur ár hef ég átt mjög góða sambúð við nágranna mína og mætt vinsamlegra viðmóti frá þeim en ég á að venjast. Samskiptin hafa kannski ekki verið mikil en mjög góð. Í stuttan tíma í byrjun veru minnar í Ármúlanum var samtengt rafmagn í þessum tveimur rýmum og var mér veittur fullur aðgangur að töflunni sem var staðsettur í þeirra rými. Á þriggja ára afmæli jógastöðvarinnar fyrir tæpu ári buðu þeir mér að fá lánuð borð, að fyrra bragði, sem ég þáði með þökkum. Múslimarnir hafa sýnt gestum mínum kurteisi og ég hef aldrei þurft að hafa afskipti af þeim vegna hávaða eða slæmrar umgengni. Ég veit að þessi þægilega sambúð hefur slegið verulega á mína eigin fordóma á þessum erfiðu tímum þegar neikvæð ímynd er dregin upp af herskáum múslimum í nánast hverjum einasta fréttatíma. Islam þýðir friður á arabísku og þeir múslimar sem sækja félagið hér á landi virðast lifa í samræmi við það þrátt fyrir slæmt umtal. Ég hvet alla Íslendinga til að kynna sér trúarbrögðin fordómalaust og læra að lifa í sátt og samlyndi við þennan stækkandi þjóðfélagshóp hér á landi.

GUÐJÓN BERGMANN,

Blönduhlíð 4, 105 Reykjavík.

Frá Guðjóni Bergmann, jógakennara og rithöfundi:

Höf.: Guðjóni Bergmann, jógakennara, rithöfundi