Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

Kópavogur | Meirihluti bæjarráðs Kópavogs lagði fram sína eigin tillögu að breytingum á reglum um úthlutun lóða bæjarins á fundi ráðsins í gær, en minnihluti Samfylkingarmanna hafði áður lagt sínar tillögur fyrir bæjarstjórnarfund á þriðjudag. Bæjarstjóri segir markmiðið að koma í veg fyrir brask.

"Það var kominn tími til að endurskoða reglurnar, við vorum búin að ræða það í bæjarráði að við ætluðum að gera það þegar búið væri að úthluta öllu í Þingunum [í Vatnsendahverfinu], en fyrst þessi umræða kom upp er best að ljúka því af," segir Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri.

Afgreiðslu tillagnanna var frestað til næsta fundar bæjarráðs, en Gunnar reiknar með að þær verði samþykktar þá, svo þær verði í gildi næst þegar Kópavogsbær úthlutar lóðum.

Skilyrðislaust dregið

Í tillögum meirihlutans er einkum verið að reyna að koma í veg fyrir brask með lóðirnar, t.d. með því að skilyrðislaust þarf að koma fram hvort sótt er um til eigin búsetu eða í öðrum tilgangi, að engin skilyrði séu við greiðslumat frá lánastofnunum, og með því að heimila aðeins umsókn um eina lóð og tvær til vara. Gunnar bendir á að áður hafi sami aðilinn getað sótt um allar lóðirnar sem í boði voru og þannig átt betri möguleika en aðrir á að fá lóð. Einnig er í tillögunum skýrt að séu tveir eða fleiri aðilar jafnhæfir skuli skilyrðislaust draga um hver fái lóðina.

Með þessum breyttu reglum segist Gunnar eiga von á því að umsóknum um lóðir fækki, enda séu oft braskarar að sækja um, sem og fólk sem í raun hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að byggja.

Gunnar segir að tillögur minnihlutans hafi ekki verið nægilega góðar, í þeim sé t.d. ósamræmi þar sem í annarri grein komi fram að ekki megi mismuna fólki á grundvelli búsetu, en síðar í tillögunum komi fram að bæjarráð eigi m.a. að taka tillit til þess hvort umsækjandi hafi átt lögheimili í Kópavogi í a.m.k. eitt ár á síðustu fimm árum fyrir úthlutun.

Tíundi liður reglnanna er óbreyttur, en þar segir: "Heimilt er að taka tillit til sérstakara aðstæðna umsækjanda, svo sem fjölskyldustærðar, núverandi húsnæðisaðstöðu, hvort viðkomandi hafi áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið eða annarra fjölskylduaðstæðna er máli kunna að skipta."

Verður að beita huglægu mati

Gunnar segir að bæjarráð verði að beita huglægu mati á umsóknum, t.d. ef stór fjölskylda er í litlu húsnæði eða ef fólk með fötlun þurfi að komast í húsnæði á einni hæð. Því sé ekki hægt að gera þessar reglur gagnsærri þar sem reglurnar geti aldrei náð yfir allt sviðið.