Samningur Íslands og Færeyja um hér um bil fulla og algjöra fríverzlun, sem Davíð Oddsson utanríkisráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd í Þórshöfn í fyrradag, er fyrir ýmissa hluta sakir merkilegur.

Samningur Íslands og Færeyja um hér um bil fulla og algjöra fríverzlun, sem Davíð Oddsson utanríkisráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd í Þórshöfn í fyrradag, er fyrir ýmissa hluta sakir merkilegur.

Í fyrsta lagi bindur hann okkur og frænd- og vinaþjóð okkar Færeyinga enn nánari böndum en áður. Líkt og utanríkisráðherra sagði, eiga litlar þjóðir að vinna saman og styðja hver aðra. Ákvæði samningsins, ekki aðeins um viðskipti heldur jafnframt um gagnkvæman rétt Íslendinga og Færeyinga hvað varðar heilbrigðisþjónustu, menntun, menningarmál og þátttöku í sveitarstjórnarkosningum, stuðla að enn nánara samfélagi þjóðanna. Samningurinn gengur jafnvel lengra á sumum sviðum en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sem Færeyjar eiga ekki aðild að. Nú munu Færeyingar eiga nánast sama rétt á Íslandi og Íslendingar sjálfir og öfugt. Þetta er rökrétt framhald af aldalöngum jákvæðum samskiptum þjóðanna. Það er sömuleiðis jákvætt að gert er ráð fyrir að Grænlendingar geti gerzt aðilar að þessum samningi þegar fram líða stundir. Þannig væri orðið til vest-norrænt efnahagssvæði, sem myndi treysta böndin milli eyþjóðanna í Atlantshafi.

Í öðru lagi færir samningurinn, eins og allir aðrir fríverzlunarsamningar, báðum löndum ný tækifæri í viðskiptum. Heimamarkaður bæði íslenzkra og færeyskra fyrirtækja stækkar. Íslenzkar fjárfestingar í Færeyjum eru nú þegar talsverðar, t.d. í verzlun á vegum Haga og í fjarskiptaþjónustu á vegum Dagsbrúnar. Færeyingar hafa einnig haslað sér völl í íslenzku viðskiptalífi; þeirra fremstur Jákup Jacobsen, sem m.a. hefur byggt upp Rúmfatalagerinn, eitt af þeim fyrirtækjum sem mest hafa gert til að lækka vöruverð á Íslandi. Gera verður ráð fyrir að samningurinn ýti enn frekar undir gagnkvæmar fjárfestingar og efli samkeppni á báðum mörkuðum til hagsbóta fyrir neytendur.

Í þriðja lagi er fríverzlunarsamningurinn við Færeyjar afar athyglisverður að því leyti að hann nær til landbúnaðarafurða jafnt og annarra vara. Til þessa hafa íslenzk stjórnvöld ekki verið til viðræðu um fríverzlun með landbúnaðarafurðir. Líkast til verða ákvæði samningsins um landbúnað að skoðast í því ljósi að Færeyingar flytja nánast ekkert út af landbúnaðarvörum til Íslands og íslenzkir bændur fá því litla samkeppni frá færeyskum. Auðvitað getur það breytzt, ef Færeyingar sjá ný markaðstækifæri hér á landi. Hins vegar vilja Færeyingar gjarnan íslenzkar landbúnaðarafurðir og ný sóknarfæri skapast fyrir íslenzkan landbúnað með þessum samningi.

Engu að síður hljóta íslenzkir neytendur að vona að þessi samningur sé aðeins sá fyrsti, þar sem samið er um fríverzlun með landbúnaðarvörur; að í kjölfarið fylgi fríverzlunarsamningar, sem auka í raun og veru samkeppnina á búvörumarkaðnum og stuðla að lækkuðu verði. Að því leyti er þessi samningur til fyrirmyndar.

Loks bendir Davíð Oddsson á það í samtali við Morgunblaðið í gær að samningurinn byggist á fullkomnu trausti á milli landanna; engar eftirlitsstofnanir séu til að líta eftir því að ákvæði hans séu haldin. Þetta er óvenjulegt, en til marks um hin sérstöku bönd, sem tengja Ísland og Færeyjar.