Aðeins verður boðið upp á fimm dyra hlaðbaksútgáfuna hérlendis.
Aðeins verður boðið upp á fimm dyra hlaðbaksútgáfuna hérlendis. — Morgunblaðið/jt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kia kynnti nýverið í Frakklandi næstu kynslóð Rio þar sem Jóhannes Tómasson tók í gripinn. Kia á Íslandi kynnir hann hérlendis á næstunni.

Kia Rio, ný kynslóð af flaggskipi smábíla frá Kia, var kynntur nýverið bílablaðamönnum í Frakklandi og er hann fáanlegur bæði sem stallbakur og hlaðbakur, með bensín- eða dísilvél. Forráðamenn Kia segja Rio einkum stefnt á Evrópumarkað og auk þess að vera flaggskip smábílalínunnar er Rio ætlað að bjóða skemmtilega og fjölbreytta eiginleika, vera bæði hagnýtur og rúmgóður og styrkja stöðu Kia enn frekar í Evrópu.

Þeir gera ráð fyrir að á fyrstu 12 mánuðunum muni seljast um 40 þúsund bílar í Evrópu.

Sala er víðast hvar hafin eða um það bil að hefjast og eru fyrstu bílarnir að skila sér hingað til lands.

Kia Rio er laglegur bíll og þótt hann sé nefndur flaggskip smábílaflotans er hann eiginlega ekki smábíll, í það minnsta meiri bíll en sýnist. Hlaðbaksgerðin er 3,99 m löng en stallbakurinn ívið lengri eða 4,24 metrar.

Meginlína hönnunarinnar er mjúk og ávöl en luktir, vindskeið á skotti eða þaki og brot í línunni yfir hjólaskálum gera sitt til að ná fram líflegum einkennum.

Vel heppnaður hlaðbakur

Hlaðbakurinn virkar betur heppnaður í útliti en stallbakurinn sem er á einhvern hátt sviplausari en hagnýtari þar sem hann er lengri og þýðir það einkum meira farangursrými. Þá eru hemlaljós í afturgluggum, uppi á hlaðbaknum en niðri á stallbaksútgáfunni. Nýja gerðin hefur 9 cm lengra hjólhaf og meiri sporvídd að framan er eldri gerð sem á að gefa meira innanrými og betri aksturseiginleika. Þá er bíllinn um 5 cm hærri en sá eldri og 1,5 cm breiðari.

Hið innra er Rio vel heppnaður. Þar er allt yfirbragð líflegt, hægt að fá t.d. rautt áklæði eða með ljósum lit einkennandi, en það sem fyrst vekur athygli er að Rio er rúmgóður hvar sem setið er og allur frágangur virkar vandaður og sannfærandi. Hefðbundin uppröðun er á flestu í mælaborðinu, hringlaga mælar fyrir hraða og snúningshraða og til hliðar eru útvarpsrofar efst og neðar miðstöðvarrofar og fleira.

Dísilvélin hefur vinninginn

Prófaðir voru bæði dísil- og bensínbílar, þ.e. bensínbíll með 1,6 lítra og 112 hestafla vél og dísilbíllinn sem er 1,5 lítra og 110 hestöfl. Bensínútgáfan er fáanleg annað hvort með fimm gíra handskiptingu eða sjálfskiptingu en dísilbíllinn aðeins með handskiptingu.

Séu þessar gerðir bornar saman hefur dísilvélin vinninginn þar sem hún hefur mun meira svigrúm í togi. Bensínbíllinn er nokkru sneggri í viðbragðinu en þó ekki neinu sem nemur, það er bitamunur en ekki fjár, og dísilvélin hefur þann kost að eyða færri lítrum á hundraðið sem munar um þegar þessir vökvar kosta orðið vel á annað hundrað krónur. Innkaupsverðið á dísilbílnum verður að vísu eitthvað hærra. Sé vangaveltunum haldið áfram má hiklaust mæla með dísilbíl hjá þeim sem eitthvað að ráði fara út fyrir borgina, en kostir hennar umfram bensínvél koma ekki síst fram í akstri á þjóðvegum.

Lipur vel

Kia er þannig almennt vel lipur í akstri og bæði drjúgur sem þéttbýlisbíll og til aksturs úti á landi, hann er meiri bíll en sýnist hvað það varðar. Stýri er nákvæmt og bremsur léttar. Bíllinn er einnig búinn stöðugleikastýringu sem gípur inní ef skynjarar nema að eitthvað sé farið að losna um veggripið hjá ökumanni og gæti þannig bjargað honum úr vandræðum.

Kia á Íslandi ætlar eingöngu að bjóða fimm dyra hlaðbaksútgáfuna. Í fyrstunni verða aðeins fáanlegir bílar með bensínvél en von er á bílum með dísilvél eftir mánuð. Verðið bensínbílnum er 1.590.000 krónur.

joto@mbl.is