STRÁKARNIR í íslenska landsliðinu í alpagreinum á skíðum stóðu sig mjög vel á svigmóti í Álfubikarkeppninni í Ástralíu í gær.

STRÁKARNIR í íslenska landsliðinu í alpagreinum á skíðum stóðu sig mjög vel á svigmóti í Álfubikarkeppninni í Ástralíu í gær. Björgvin Björgvinsson hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu en hann varð einnig hlutskarpastur í svigkeppni í Mt Bullerfjalli í Ástralíu fyrr í vikunni. Björgvin var með annan besta tímann eftir fyrri ferðina, 1/100 úr sekúndu á eftir næsta manni, en tryggði sér sigur með frábærri síðari ferð en 33 keppendum tókst að ljúka keppni.

Sindri Pálsson varð sjöundi og Kristinn Ingi Valsson áttundi en Kristjáni Una Óskarssyni tókst ekki að ljúka keppni.

Björgvin, Sindri, Kristinn Ingi og Kristján Uni verða við æfingar í eina viku til viðbótar í Ástralíu en Sindri heldur síðan til N-Sjálands og keppir þar á tveimur mótum í risastórsvigi.