Aðkoma að slysinu var hrikaleg, en Björn lá stórslasaður á götunni eftir áreksturinn.
Aðkoma að slysinu var hrikaleg, en Björn lá stórslasaður á götunni eftir áreksturinn. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það virðist þurfa meira til en tvöfaldan fótamissi til að ganga á andlegt þrek Björns Hafsteinssonar frá Brynjudal í Hvalfirði, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson sem ræddi við Björn um hinn örlagaríka dag, 19. ágúst.

Ef lífsgleðin og jákvæðnin í Birni Hafsteinssyni strætisvagnastjóra sem missti báða fætur í vinnuslysi fyrir hálfum mánuði nægir ekki til að auka okkur bjartsýni og slá á bölmóðinn í amstri hvunndagsins, þá hljótum við að þurfa að hugsa okkar gang rækilega. Björn liggur nú á bæklunardeild Landspítalans og ber fótamissinn af mikilli karlmennsku. Hann hefur aldrei fyrr en nú þurft að leggjast inn á sjúkrahús, kominn á miðjan sextugsaldur.

Björn er ekki óvanur stórum ökutækjum, ók rútum í 30 ár víðsvegar um landið áður en hann fór að keyra strætisvagna fyrir tveimur og hálfu ári. Björn er fæddur og uppalinn í Brynjudal í Hvalfirði og flutti til Reykjavíkur fyrir röskum áratug. Eiginkona hans er Hjördís Pétursdóttir.

Föstudaginn 19. ágúst hóf Björn morgunakstur sinn á leið 2, stofnleið nánar tiltekið kl. 6:42 frá Hlemmi. Um klukkan 9 var hann á leið til baka niður á Hlemm með sex farþega í vagninum og ók vestur Suðurlandsbraut. Á gatnamótum Laugavegar og Kringlumýrarbrautar stöðvaði hann vagninn á rauðu ljósi. Þegar græna ljósið kviknaði og Björn lagði af stað vissi hann ekki fyrr en vörubíll kom frá vinstri og skall á vagninum af miklu afli. Þetta var einn mesti árekstur sem orðið hefur í borginni lengi. Litlu mátti muna að verkamenn á nálægri umferðareyju lentu undir vagninum þegar hann ýttist upp á eyjuna. Sjálfur telur Björn að hann hafi krækst í krana vörubílsins og þannig þeyst út úr vagninum og lent í götunni 20 metrum frá ökutæki sínu.

Þarna sat ég í götunni með stúfinn í hendinni

"Ég var mjög heppinn að hljóta ekki höfuðhögg þegar ég lenti," segir Björn. "Mjaðmirnar sluppu líka en þó skarst ég á lærunum." Þetta voru góðu fréttirnar en þær slæmu voru fótamissirinn. Björn missti samstundis annan fótinn neðan við hné. "Og þarna sat ég í götunni með stúfinn í hendinni og var að hugsa um að fá mér smók! Fólk dreif að til að aðstoða mig stórslasaðan en ég rak alla burtu og bað þá að athuga með farþegana. Mér fannst ég ekki vera mikið slasaður og fann ekki fyrir miklum sársauka. En lögreglumaður nokkur sem hafði beðið fyrir aftan mig við gatnamótin rétt fyrir slysið kom strax og hlúði að mér með því að rífa af sér belti og herða að lærinu til að stöðva blæðinguna. Þetta var indælismaður."

Björn missti aldrei meðvitund á meðan sjúkralið bjó hann undir flutning á Landspítalann en það var ekki fyrr en hann kom á spítalann sem hann leið út af rétt áður en hann fór í aðgerð. "Við komuna á spítalann sögðu læknarnir mér að það yrði líklegast að taka hinn fótinn af og ég sagði þeim þá bara að gera það. Svo sofnaði ég." Björn segist þrátt fyrir allt feginn að hnén skyldu ekki skaddast því það komi til með að hjálpa til í endurhæfingunni. Gert er ráð fyrir að endurhæfingin hefjist í næstu viku á Grensásdeild.

Þetta blessast allt

Björn segist afskaplega ánægður með aðgerðirnar og segist ekki hafa viljað halda stórsködduðum fætinum og þurfa koma í fleiri aðgerðir. Betra var að losna við hann strax. Í heildina er Björn mjög bjartsýnn á framtíðina og kveinkar sér hvergi. "Ég tók þá ákvörðun að lifa með þessu," segir hann. "Þetta blessast allt og ég tek einn dag í einu. Ég þakka mínum sæla fyrir að ekki skyldi fara verr." Hann á líka frábæra konu, Hjördísi, stoð hans og styttu hvað sem á dynur.

Það er ljóst að Björn hefur harla litlar áhyggjur af sjálfum sér og meiðslum sínum en annað mál er með umferðina. Hann segir engan vafa leika á því að slysið endurspegli mikla firringu í umferðarmálum. "Eftirlitinu er stórlega ábótavant, því það virðist sem menn geti keyrt út um borg og bý á óskráðum og ótryggðum bílum. Þetta ætti lögreglan að skoða í stað þess að eltast við einhverja vitleysu. Í umferðinni eru strætisvagnastjórar líka flokkaðir sem annars flokks vegfarendur enda er svínað á okkur endalaust. Bílarnir eru alltof margir og oftast eru ekki fleiri en einn í hverjum bíl."

Björn hefur að þessu slysi undanskildu sloppið við öll meiriháttar áföll á bílstjóraferli sínum en þó segir hann litlu hafa mátt muna í fáein skipti. "Árið 1983 fauk ég út af þegar ég var að flytja fólk upp í Járnblendiverksmiðju. Þetta gerðist rétt innan við Akranes og ég fór heilan hring á veginum. Svo hefur maður lent í kolvitlausum veðrum en allt sloppið til."

Og það lítur vel út með endurhæfinguna. Verið er að smíða gervifætur og hulsurnar á hnén eru þegar komnar. Svonefndir draugaverkir í tám og iljum voru að hrjá Björn í fyrstu en hafa minnkað jafnt og þétt. Björn og Hjördís segja aðhlynningu á Landspítalanum hafa verið eins og best verður á kosið og færa öllu starfsfólki spítalans bestu þakkir. Ennfremur þakka þau sjúkraliði, lögreglu og öllum þeim sem hafa aðstoðað þau og sýnt þeim hlýhug, ekki síst André Bachmann starfsbróður Björns sem tilkynnti honum að haldnir yrðu styrktartónleikum fyrir Björn á Broadway í annaðkvöld með helstu tónlistarmönnum landsins.

orsi@mbl.is