Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is FORSTJÓRI Íslandsbanka og fimm framkvæmdastjórar bankans seldu í gær 241 milljón hluta í bankanum á genginu 15,25 krónur. Andvirði hlutanna er tæpir 3,7 milljarðar króna.
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is

FORSTJÓRI Íslandsbanka og fimm framkvæmdastjórar bankans seldu í gær 241 milljón hluta í bankanum á genginu 15,25 krónur. Andvirði hlutanna er tæpir 3,7 milljarðar króna. Sömu aðilar voru í hópi lykilstjórnenda í bankanum sem keyptu í lok maí síðastliðins 240 milljónir hluta í bankanum á genginu 13,30 krónur, eða fyrir tæplega 3,2 milljarða. Hver hlutur hækkaði því um 1,95 krónur á þremur mánuðum og söluhagnaður stjórnendanna því samanlagt um 470 milljónir fyrir skatta.

Gengi á hlutabréfum í Íslandsbanka í Kauphöllinni lækkaði um 1,9% í gær. Markaðsvirði félagsins var þá rúmir 197 milljarðar króna.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gær kemur fram að félag í eigu Bjarna Ármannssonar forstjóra, hafi selt flesta hluti eða 118 milljónir. Þrjú félög í eigu hinna framkvæmdastjóranna seldu 27 milljónir hluta hvert, eitt félag seldi 25 milljón hluti og eitt seldi 17 milljón hluti.

Aldrei réttur tími að selja

Bjarni Ármannsson forstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að í sjálfu sér væri aldrei réttur tímapunktur fyrir stjórnendur til að selja hlutabréf í því félagi sem þeir störfuðu hjá. "Við vildum minnka skuldsetningu okkar og ákváðum að selja eignarhlut í félaginu," sagði Bjarni. Aðspurður staðfesti hann að kaupin á hlutunum hefðu verið skuldsett á sínum tíma.

Bjarni sagði að þessi sala væri ekki til marks um að stjórnendurnir hefðu misst trú á félaginu. Allir ættu þeir verulega hluti þar eða kauprétti á hlutum. "Að markaðsverðmæti eigum við í sjálfu sér allir svipað nú og fyrir kaupin á hlutunum í maí," sagði Bjarni.

Gengið lækkaði í gær

Bjarni sagði að sem betur færi hefði verð bréfanna hækkað frá því þeir félagar keyptu í bankanum í maí, líkt og bréf í mörgum öðrum félögum á sama tíma. Frá söluhagnaðinum nú ætti eftir að draga fjármagnskostnað og skatta.

En kann salan á hlut stjórnendanna að eiga þátt í að gengi hlutabréfa í Íslandsbanka lækkaði um 1,9% í gær?

"Ég mundi ætla það, en það er erfitt um það að segja," sagði Bjarni. Hann sagði að þessi hreyfing á gengi bréfanna væri ekki óeðlileg innan dagsins og væri það t.d. hærra nú en fyrir viku.