Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is ENN vantar um 100 starfsmenn á leikskóla í Reykjavíkurborg, og hefur talan lítið breyst síðustu vikur.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

ENN vantar um 100 starfsmenn á leikskóla í Reykjavíkurborg, og hefur talan lítið breyst síðustu vikur. Talsvert hefur verið ráðið, en á móti kemur að einhverjir hafa hætt störfum, auk þess sem sumarafleysingafólk er horfið á braut.

Vandinn er enn mestur í Grafarvogi, að sögn Gerðar G. Óskarsdóttur, sviðsstjóra menntasviðs Reykjavíkurborgar. Borgin rekur alls 78 leikskóla, og ef um 100 starfsmenn vantar samanlagt vantar að meðaltali um 1,3 stöðugildi á hvern þeirra. Ástandið er þó misjafnt eftir skólum, sumir með fullmannað en aðra vantar fleiri. Enn jók á vandann nú um mánaðamótin þegar sumarstarfsmenn hættu störfum, en Gerður segir að á móti komi að eitthvað af skólafólki verði áfram í hlutastörfum.

Börnin þurfa stöðugleika

Ástandið var nokkuð misjafnt á þeim leikskólum sem haft var samband við í gær. Á leikskólanum Foldaborg í Grafarvogi eru allar stöður mannaðar, þó ekki megi mikið út af bregða með veikindi starfsmanna og önnur forföll. Þannig var staðan líka góð á leikskólanum Lyngheimum í Grafarvogi, þar sem fullmannað er og lítil hreyfing á starfsfólki.

Sigríður Jónsdóttir, leikskólastjóri á Funaborg í Grafarvogi, hafði aðra sögu að segja, en þar vantar enn þrjá starfsmenn. "Það verður að vera stöðugleiki í starfsmannahaldi þar sem fólk er að umgangast og ala upp lítil börn, það er mjög eðlilegt að sumarstarfsfólk komi til að aðstoða við sumarleyfi og annað, en það er vont ef við erum alltaf í vandræðum þegar það hverfur á braut," segir Sigríður.

"Það er vandamál að það skuli vanta þrjá starfsmenn á leikskólann 1. september, það gefur auga leið. Það er líka vandamál að það eru engir sem sækja um, við sjáum óskaplega lítið af umsóknum," segir Sigríður. Hún segir að einn nýr starfsmaður hafi byrjað í gær, en engu að síður þurfi að halda til streitu þeim aðgerðum sem gripið var til á leikskólanum þegar ljóst var í hvað stefndi.

Má ekkert út af bregða

"Ég hef stoppað innkomu barna, svo hér eru laus pláss. Hér eru þrír foreldrar sem búið var að senda bréf sem ekki hafa fengið að koma með börn sín, og það eru tveir foreldrar sem ekki fengu þann tíma sem þeir óskuðu eftir, en við gátum boðið þeim styttri tíma," segir Sigríður. "En það má ekki mikið út af bregða til þess að við þurfum að grípa til þess óyndisúrræðis að senda börn heim."

Sigríður segir vandann felast í því annars vegar að það sé ekki nóg af fagfólki til að manna leikskólana, en einnig séu launin lág. Hún tekur sem dæmi að ómenntuð manneskja undir 25 ára aldri fái rétt tæpar 113 þúsund krónur útborgaðar. Ljóst sé að laun þurfi að hækka verulega fyrir störf á leikskólum, sem og önnur umönnunarstörf til þess að hæft fólk fáist til þessara starfa.