Speedster er leiktæki fyrst og fremst - aflið allt til afturhjólanna.
Speedster er leiktæki fyrst og fremst - aflið allt til afturhjólanna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
OPEL Speedster er jaðarbíll. Tveggja sæta sportbíll með blæjuþaki og miðlægri vél. Þetta er hinn fullkomni sýningarbíll fyrir alla bílaframleiðendur. Bíll sem trekkir unga kaupendur að merkinu.

OPEL Speedster er jaðarbíll. Tveggja sæta sportbíll með blæjuþaki og miðlægri vél. Þetta er hinn fullkomni sýningarbíll fyrir alla bílaframleiðendur. Bíll sem trekkir unga kaupendur að merkinu. Opel hefur Tigra til þessara hluta og líka Speedster, sem er annarrar gerðar og mun nær því að vera fullkomlega ópraktískur bíll. En Opel sótti ekki vatnið yfir lækinn heldur fékk að lánin teikningar að Lotus Elise og setti síðan sitt kram í bílinn.

Létt - afar létt

Allt er gert til þess að hafa Speedster léttan og þar af leiðandi er ýmis búnaður ekki til staðar sem sumir telja sjálfsagðan í alla nútímabíla, eins og t.d. samlæsingar, loftkæling eða rafmagn í rúðum. Jafnframt er vélin aflmikil, fjöðrunarkerfið glerhart, pínulítið Momo-stýrið þungt eins og handlóð, bremsurnar öflugar og veggripið svakalegt. Speedster er lítið leiktæki og um leið dálítið stolt Opel, sem eins og fyrr segir, á reyndar ekki mikið í bílnum, þ.e.a.s. hönnuninni. Hún kemur frá Lotus eins og undirvagninn en vélin er 2,2 lítra Ecotec, sú sama og í Vectra en þjöppunarhlutfallinu er breytt í vélinni fyrir Speedster. Reyndar verður að geta þess að Opel hefur tekist að gera þennan bíl að sínum því einungis 140 hlutar af 2.000 eru þeir sömu í Elise og Speedster.

Bíllinn var prófaður í vikunni og vakti blendnar tilfinningar í brjósti undirritaðs.

Gestaþraut

Auðvitað er gaman að allri athyglinni sem þessi íturhannaði sportbíll vekur í umferðinni (þótt það sé kannski ekki alveg það sem menn á miðjum aldri sækjast eftir í bílum). Hann er svo furðulágur og hvass í formum og með næstum framtíðarlegum línum bæði að framan og aftan. Og samsvarar sér líka vel á þessum stóru, kraftalegu hjólum. Menn rekur þó fyrst í rogastans þegar horft er inn í bílinn. Ökumannsrýmið liggur djúpt og er eins og meitlað innan úr bílnum. Það er líka vandasamt að setjast inn í hann - já, vandasamt. Það verður að setja hægri fótinn inn á undan þeim vinstri og beygja sig um leið í fósturstellingu, láta sig síga þannig niður í plássið og draga síðan, eða lyfta með handafli, vinstri fætinum inn fyrir. Og þá er ökumaður líka skorðaður af í fullkomlega efnissnauðu sæti, sem minnir mest á glerhörð keppnissæti í kartbílum. En sætin gegna líka fullkomlega sínu hlutverki og gersamlega festa ökumanninn þar sem hann á að vera, beint undir stýri.

Það er þröngt um tvo í bílnum, sem er kannski ekki svo galið þegar bjóða á persónulegan bíltúr um helgar, en það er takmarkað magn farangurs sem hægt er að hafa með í lengri ferðir. Aftan við vélina er þó smáskott sem þó tekur eins og tvær íþróttatöskur, eða allt að 50 lítra. Þar er blæjan líka geymd á góðviðrisdögum, en hún er gerð úr þykkum segldúk og er einföld í uppsetningu.

Stýrið er agnarsmátt og það er ekki verið að spandera í búnað eins og vökvastýri. Það skín í beran málminn í gólfum og einu þægindin sem orð er á gerandi er einfalt útvarpstæki í mælaborðinu. Reyndar er mjóbaksstuðningur í hörðum og þröngum sætunum og hann er stilltur með lítilli gúmmíblöðru en með því að kreista hana dælist loft inn í mjóbakspúðann í setunni.

Speedster er með fimm gíra handskiptingu. Það er örstutt milli gíranna, sannkölluð sportskipting, og það hvín í gírkassanum þegar skipt er um gír.

2,2 lítra vélin skilar 147 hestöflum en sjá má af þessari vél að bíllinn er ekki af nýjustu gerð, því núna er hann eingöngu boðinn með sömu 2,2 lítra vélinni með forþjöppu og skilar þá 200 hestöflum. Þegar haft er í huga að bíllinn vegur innan við 1.000 kg er hægt að hafa virkilega gaman af honum, en þá einkum á opnum vegum þar sem umferð er ekki til trafala. Opel segir að bíllinn nái 100 km hraða á innan við 6 sekúndum og innan við 5 sekúndum þegar hann er kominn með forþjöppu. Það er ekki verið að þyngja bílinn með ESP eða viðamiklum rafeindabúnaði og það er sport að gefa honum inn og finna hve auðvelt er að "slæda" með inngjöfinni. En hann grjótliggur í beygjum og minnir þar einna mest á Boxster eða aðra eðalsportbíla.

En Speedster er ekki bíll til daglegra nota í borginni. Bara það eitt að stöðva á rauðum ljósum með vélargnýinn í bakinu og að klöngrast ofan í hann og úr honum er þreytandi til lengdar. En sem leiktæki um helgar er hann gullmoli.

Opel Speedster

Vél: Fjórir strokkar. 2.198 rúmsentimetrar, 16 ventl ar.

Afl: 147 hestöfl við 5.800 snúninga á mínútu.

Tog: 203 Nm við 4.000 snúninga á mínútu.

Gírkassi: 5 gíra hand skiptur Getrag.

Hámarkshraði: 217 km/ klst.

Hröðun: 5,9 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km.

Hemlar: Kældir diskar að framan og aftan.

Hjól og felgur: 175/55-225/45, 17 tommu ál felgur.

Lengd: 3.786 mm.

Breidd: 1.708 mm.

Hæð: 1.117 mm.

Eigin þyngd: 945 kg.

Verð: 4.990.000 kr.

Umboð: IH hf.

gugu@mbl.is

Höf.: gugu@mbl.is