Lance Armstrong hefur farið í lyfjapróf á hverju ári og aldrei hefur neitt ólöglegt fundist.
Lance Armstrong hefur farið í lyfjapróf á hverju ári og aldrei hefur neitt ólöglegt fundist. — Reuters
LANCE Armstrong, konungur hjólreiðanna, íhugar þessa dagana hvort hann eigi að höfða mál vegna sögusagna um að hann hafi notað stera, sem fjölgar rauðum blóðkornum þannig að súrefnisupptakan verður hraðari og meiri, þegar hann sigraði í fyrsta sinn í Tour de France-hjólreiðakeppninni.
Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is

Í síðustu viku sagði franska blaðið L'Equipe frá því að þvagsýni sem Armstrong lagði fram eftir siguinn og var fryst hefði verið rannsakað og niðurstaðan hefði verið að hann hefði notað EPO þegar hann sigraði í fyrsta sinn árið 1999. Armstrong hefur staðfastlega neitað þessum ásökunum.

Nýverið kom hann fram í spjallþætti í sjónvarpi í Bandríkjunum þar sem hann sagði þetta mjög slæmt fyrir sig. "Það hefur alltaf verið talað um þetta og verður sjálfsagt alltaf talað um þetta og það er ekkert sem ég get gert til að koma í veg fyrir það," sagði Arsmtrong.

Hjólreiðakappinn, sem er 32 ára, sigraði sjö ár í röð í Tour de France og hann segist velta því fyrir sér hvort þessar fréttir núna séu einhvers konar nornaveiðar.

"Þetta er ekki í fyrsta sinn sem einhver hefur sagt að ég hafi notað ólögleg lyf og sagt að ég hafi hjólað allt of hratt til að geta verið eðlilegur - ég hljóti að vera á einhverjum lyfjum. Ég vonaði að þegar ég ákvað að hætta keppni myndu svona sögusagnir hætta. En það virðist ekki vera."

Engin varasýni til

Samkvæmt fréttum franska blaðsins var sýni Armstrongs rannsakað í fyrra. Kappinn er ekki sáttur við hvernig að málum er staðið.

"Ég skil ekki að einhver maður á rannsóknarstofu í Frakklandi geti farið og opnað sýnaglasið sem átti að vera geymt nafnlaust. Þarna er ekki farið að þeim reglum sem settar hafa verið um geymslu lyfjasýna og ég get ekki tekið mark á svona vinnubrögðum. Það er til dæmis ekkert varasýni til að rannsaka og staðfesta það sem franska blaðið segir. Hvernig stendur á því að niðurstöðurnar eru birtar án þess að mér sé tilkynnt það fyrst? Ekki er það í samræmi við hefðbundin vinnubrögð," segir Armstrong.

Hann hefur íhugað að sækja menn til saka vegna þessa. "Vandinn við það er í raun tvíþættur. Í fyrsta lagi er ekki alveg ljóst hvern ég ætti að sækja til saka, rannsóknarstöðina, L'Equipe , íþróttamálaráðuneytið eða aðþjóðalyfjaeftirlitsstofnunina. Í annan stað þá gerði lögsókn trúlega lítið annað en lengja þann tíma sem þetta yrði í umræðunni og það er eitthvað sem mig langar ekki til að stuðla að.

Hins vegar hefur íþróttin verið mér mikils virði og þó svo að málshöfðun sé dýr og tímafrek þá hef ég bæði peninga og tíma til að fara út í slíkt. Það verður síðan að koma í ljós hvort af því verður," segir hann.

Ofsóttur af Frökkum

Armstrong bendir á að ef til vill séu þessar ásakanir franska blaðsins liður í slæmum samskiptum Frakklands og Bandaríkjanna upp á síðkastið. "Ég hef legið undir stöðugri gagnrýni franskra blaða í sjö ár - alveg frá því ég sigraði fyrst. Hjólreiðar í Frakklandi eru í mikilli lægð - þeirra mestu í aldarfjórðung.

Daginn sem ég tilkynnti að ég væri hættur var á forsíðu L'Equipe forystugrein þar sem þetta var rætt og í lok greinarinnar sagði: "aldrei hefur verið ástæða til að fagna eins mikið að íþróttamaður hættir."