Ingibjörg Elsa Björnsdóttir segir frá ferð í Þjórsárver: "SUNNUDAGINN 14. ágúst 2005 var farið í sögulega ferð í Þjórsárver. Aldrei hafa jafn margir, eða 218 manns, heimsótt verin í einni ferð. Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Íslands og Landverndar. Þjórsárver eru ein stærsta gróðurvin miðhálendisins."

SUNNUDAGINN 14. ágúst 2005 var farið í sögulega ferð í Þjórsárver. Aldrei hafa jafn margir, eða 218 manns, heimsótt verin í einni ferð. Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Íslands og Landverndar.

Þjórsárver eru ein stærsta gróðurvin miðhálendisins. Há grunnvatnsstaða ásamt yfirborðsvatni viðheldur fjölbreyttum gróðri og ríkulegu plöntulífi. Víðáttumestu gróðurlendin eru votlendi, flóar og flæðiengjar en einnig er í Þjórsárverum mikið af grávíði og öðrum víðitegundum, víðigrundir og inn á milli víðisins eru bleikir blómkollar geldingahnappsins. Í Þjórsárverum finnast rúmlega 180 tegundir háplantna en segja má að að gullbrá setji einna mestan svip á verin með sín stóru gulu blóm og langan blómgunartíma sem er óvenjulegt á hálendinu. Hún er sérstaklega gróskumikil í Þúfuveri. Gullbráin er algeng hér á hálendinu en hún er á lista Bernarsáttmálans yfir tegundir í útrýmingarhættu í Evrópu. Við leitarmannakofann Gásagust í Þúfuveri snæddu ferðalangar hádegisnestið sitt og það spillti ekki fyrir að sitja innan um gróskumiklar blómabrekkur með fjalldeplu, maríustakki og smjörgrasi og síðast en ekki síst burnirót sem er víða gróskumikil í Þjórsárverum en hana er annars helst að finna í klettum og fuglabjörgum þar sem hún er óaðgengileg sauðfé sem er sólgið í burnirótina.

Þjórsárver eru einnig eitt stærsta og margbreytilegasta freðmýrasvæði landsins. Þar eru merkilegar rústir, en rústir eru hæðir með íslinsu að innan. Svæðið einkennist einnig af ótal tjörnum, frosttíglum og öðrum frostmyndunum. Umfangsmikið votlendi er í Þjórsárverum með fjölskrúðugu fuglalífi. Einkum eru það gæsir og álftir sem una sér vel í Þjórsárverum. Einhvern tímann hefur örninn átt sér þar búsetu og þá væntanlega lifað á gæs og er það hugsanlega skýring á örnefnum fjalla eins og Arnarfells hins mikla.

Í ferð Landverndar og FÍ var fólk á öllum aldri, frá 8 til 89 ára. Vaða þurfti kvíslar en hver var tilbúinn að hjálpa öðrum og allt gekk áfallalaust. Þótt kalt væri í veðri blasti við mikilfenglegt útsýni er litið var í átt til Hofsjökuls. Regluleg bunga Múlajökuls teygði sig niður jökulgarðana sem hann hefur ýtt á undan sér, en jökullinn er einn formfegursti jökull landsins. Í Arnarfellsmúlum, sem er ysti jökulgarðurinn, er mikið blómskrúð. Til vinstri gat að líta Hjartarfell, Nauthagajökul og Ólafsfell. Arnarfell hið mikla blasti einnig við vinstra megin við Múlajökul, en huldi topp sinn skýjum. Fjallamynd þessi jafnast á við það sem fegurst gerist á Íslandi, svosem eins og í Skaftafelli þegar litið er til Hvannadalshnjúks. Fyrir framan Múlajökul eru síðan verin, græn og unaðsleg, umlukt gráum sandauðnum Sprengisands. Landslagið er einstakt og þykir svæðið jafnvel koma til greina á heimsminjaskrá UNESCO.

Þegar komið var upp á Biskupsþúfu var orðið ansi napurt. Ferðalangarnir mynduðu skjólvegg fyrir prestinn sem tónaði og síðan var sungin messa. Beðið var fyrir framtíð Þjórsárvera og allir tóku vel og hressilega undir þegar sungið var: - Fögur er foldin, heiður er Guðs himinn. Um leið færðist slagveðrið í aukana, skýin duttu ofan á jörðina og rigningin barði ferðalangana þar sem þeir hröðuðu sér að messu lokinni niður Biskupsþúfu í átt að rútunum.

Á leiðinni í rúturnar var þó ýmislegt rætt. Einhver spurði hvað hrafntinna væri, en hún finnst á svæðinu. Annar spurði um fuglalíf og sá þriðji útskýrði tilurð líparíts. Skoðað var tófugreni og að lokum komust allir heilu og höldnu í hlýja og notalega bílana. Þótt veðrið hefði mátt vera betra skildu Þjórsárver eftir í huga ferðalanganna stórfenglega og óafmáanlega mynd af fögrum fjöllum og viðkvæmum gróðri.

Eftir þessa ferð er mér algjörlega ómögulegt að skilja hvernig einhverjir geta látið sér detta í hug að eyðileggja eða spilla Þjórsárverum með virkjanaframkvæmdum. Það fer ekki á milli mála að það hefur ætíð verið botnlaus fáviska og heimska að eyðileggja Þjórsárver, þessa viðkvæmu gróðurvin miðhálendisins. Þjórsárver ættu að vera á heimsminjaskrá UNESCO ekki síður en Þingvellir eða Skaftafell. Niðurstaðan er því sú að það má ekki með nokkrum hætti raska við vatnafari Þjórsárvera meira en orðið er. Þjórsárver þurfa á öllu því vatni að halda sem þau fá í dag, og ekki er á nokkurn hátt réttlætanlegt að raska friðlandinu með lónum. Við skulum því vona að skynsamleg lausn náist um friðun og framtíð Þjórsárvera. Þjórsárver ber að vernda.

Ingibjörg Elsa

Björnsdóttir,

jarðfræðingur.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir segir frá ferð í Þjórsárver

Höf.: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir segir frá ferð í Þjórsárver