Það má benda á það að stuðningur íslenska ríkisins við námfúst fólk er ekki mikill. Ekki miðað við áherslurnar og það sem við montum okkur af að minnsta kosti.

Mikið er gott að eiga kost á því að stunda nám og víkka sjóndeildarhringinn. Menntun er eitt það dýrmætasta sem við eigum en hún er ekki eins sjálfsagður hlutur og við viljum vera láta.

Það er ekki í boði fyrir alla jarðarbúa að læra að lesa og skrifa. Ennþá er ólæsi algengt þó að alþjóðastofnanir hafi sett sér það markmið að minnka ólæsi í heiminum. Yfirleitt eru það líka fátækari ríki heims sem hafa ekki efni á því að mennta alla þegna sína. Það hlýtur að ala á vandamálum ef meirihluti þjóðar er ólæs og ómenntaður. En það má ekki gleyma því að það er hægt að læra ýmislegt sem ekki stendur í bókum og án þess að eiga stílabók. Það er nefnilega auðvelt fyrir Vesturlandabúa að tapa sér í vorkunn yfir "aumingja litlu Afríkubúunum" sem eiga þess ekki kost að fara í skólann klukkan átta alla morgna. Það er til dæmis tækni að kunna grasalækningar, að byggja hús eða kunna sögu forfeðra sinna. Svo má ekki gleyma því að ólæsi er ekki bundið við þróunarlöndin.

Á Íslandi er mest lagt upp úr bóklegri menntun og því við hæfi að tala sérstaklega um hana.

Fyrir þann sem hefur lesið frá 6 ára aldri er erfitt að ímynda sér daglegt amstur án þess að lesa nokkurn skapaðan hlut. Það gæti skapað vandamál við matarinnkaupin og innihaldslýsingarnar, við að lesa textann á sjónvarpsþættinum um kvöldið eða tilkynninguna sem berst inn um lúguna, um að heita vatnið verði tekið af í dag. Það er nefnilega ansi hentugt að kunna lesa. En er það nóg?

Þótt skólaskylda hérlendis sé til 16 ára aldurs má deila um það hvort allir þeir sem eru 16 ára og eldri á landinu séu læsir og hvað þá skrifandi. Skólakerfið virðist ekki vera að ala upp mjög þenkjandi nemendur í dag og það er ekki óalgengt að fólk í háskólanámi kunni til dæmis ekki að skrifa einfalda ritgerð.

Ekki fara allir í bóklegt framhaldsnám og ennþá færri leggja hug á nám á háskólastigi enda segir sig sjálft að það myndi ekki ganga upp ef allir væru bókmenntafræðingar eða lögfræðingar (fyrir utan hvað það yrði óstjórnlega leiðinlegt). Þeir sem kjósa hins vegar að fara í háskólanám þurfa að vera jafnfærir og þeir sem hafa svipaða menntun frá löndunum sem við berum okkur saman við. Ég held að það sé ekki alltaf raunin. Hvorki í grunnskóla né menntaskóla eru íslenskum krökkum kennd góð vinnubrögð, að skrifa ritgerðir eða hugsa sjálfstætt. Það er líka engin munur á Jóni og séra Jóni því að flestir klára grunnskylduna án þess að hafa haft fyrir því og sumir jafnvel án þess að kunna að lesa eða skrifa en enginn tekur eftir því. Erlent skólakerfi þar sem gerð er lágmarkskrafa um hæfni nemenda gerir það að verkum að sumir þurfa að endurtaka bekkinn. Það er að sjálfsögðu ekki skemmtilegt en nemendurnir læra á því og ekki eru margir sem falla um bekk oftar en einu sinni. Myndi svoleiðis kerfi ekki ganga í grunnskólum á Íslandi?

Það getur vel verið að við séum vel menntuð þjóð á við margar en fyrst við veljum þessa leið, að hafa grunnskyldu til 16 ára aldurs, af hverju ekki að gera það almennilega? Sá grunnur gæti nægt sumum sem færu síðan beint í iðnnám eða hvatt aðra sem hygðu á bóklegt nám til að gera betur. Það er alla vega frekar pínlegt að fá stúdentspróf tveimur árum á eftir nágrannalöndunum og standa þeim síðan ekki jafnfætis. Flestir þeir sem ég kannast við og hafa lokið háskólaprófi hafa hins vegar gert það með mikilli prýði enda er aldrei of seint að leggja sig fram. Það hefur þó komið frá þeim sjálfum og þeirra dugnaði og erfitt að þakka það skólakerfinu sjálfu.

Það má einnig benda á það að stuðningur íslenska ríkisins við námfúst fólk er ekki mikill. Ekki miðað við áherslurnar og það sem við montum okkur af að minnsta kosti. Jújú, það er hægt að ganga inn í lánasjóð íslenskra námsmanna og sækja um lán, sem tekur síðan alla ævi að greiða af, ef maður á góðan að sem er tilbúinn að skrifa undir skuldabréfið. Því er það ekki fýsilegur kostur fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna að fara í dýrt háskólanám. Það er líka alveg sama hversu vel þú stendur þig, hér tíðkast ekki að breyta hluta af lánsupphæðinni í styrk eins og á sumum Norðurlöndunum. Það er jafnvel hægt að fá á tilfinninguna við lántökuna að hér sé verið að gera námsmanni persónulegan greiða, þvílík eru skilyrðin. Þetta eru einu sinni peningar sem greiddir verða margfalt til baka.

Það er ansi merkilegt að hjá einu ríkasta landi heims, sem virðist leggja mikið upp úr menntun og nýsköpun, að það sé nánast ekkert stutt við bakið á því fólki sem hefur áhuga á að auðga flóruna með nýjum leiðum. Það getur reynst því erfitt að fá styrki til að leggja stund á fag sem ekki er kennt hérlendis og ekki eru veittir styrkir eða lán í heilu lagi til skólagjalda. Þeir sem hafa lagt á sig margra ára háskólanám koma svo út á vinnumarkaðinn og fá nánast engan aðlögunartíma heldur skella sér beint út í skuldasúpuna. Það þarf menntun til að viðhalda stöðugleikanum í þjóðfélaginu en til þess þarf gott skólakerfi og stuðning við þá sem hyggja á langa skólagöngu. Það er ekkert sérlega upplífgangi fyrir þann sem hefur 3-5 ára háskólamenntun að vita til þess að allt þetta hafi nánast verið til einskis þar sem hann er skuldum vafinn en Jói Jóns sem fór aðra leið framhjá bóklega náminu eða hætti bara eftir grunnskólann hefur það ansi gott.

Sara M. Kolka