Jón Ingimundarson fæddist á Kaldbak á Eyrarbakka 7. júlí 1920. Hann lést á Kirkjuhvoli, dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli, að kvöldi miðvikudagsins 10. ágúst síðastliðins og fór útför hans fram frá Reykholtskirkju 18. ágúst.

Mínar fyrstu minningar tengjast pabba og samveru með honum. Ég held ég muni fyrst eftir að við feðgar vorum í gömlu fjárhúsunum á Haukagili, sem pabbi byggði upp neðar í túninu seinna. Það var vetur og blindbylur, svo varla sást útúr augum. Mínir stuttu fætur höfðu víst lítið að segja í skaflana á leiðinni heim til bæjar. Ég hef sennilega verið á fjórða, kannski fimmta árinu, en eins og ég svo oft upplifði á þessari samferð okkar feðga, voru handtökin snör, örugg og fumlaus, settur í strigapoka og sveiflað á bakið og borinn heim í bæ.

Og minningarnar eru fleiri um lítinn strák sem vildi vera með pabba, hvert sem hann fór. Oftar en ekki fékk ég að vera með, en stundum var sagt "seinna vinur, þegar þú ert orðinn stærri". Ég held líka að ég hafi verið eins og aukabúnaður á Farmall Cub traktornum, jafnaldra mínum, því ég man bæði eftir að hafa hangið hálfsofandi í fanginu á pabba við slátt og eins seinna farinn að standa í lappirnar og stýra. Þolinmæðin hjá manni sem var að stækka bú sitt og byggja upp var endalaus held ég, og aldrei fannst mér ég vera fyrir.

Ég óx með búinu og vélunum, fékk að hjálpa til, fékk alltaf góða tilsögn, góðar útskýringar.

Pabbi var glöggur á allt umhverfi sitt, hvort sem var landið, skepnur, menn eða vélar og varnaðarorðin þegar stráklingurinn var að komast upp á lag með vélar eða hross voru gjarnan "farðu varlega, vinur", hljóma enn innra með mér og einhvern veginn held ég að ég skili þessu til næstu kynslóðar.

Dugur og vinnusemi var eitthvað sem einkenndi þennan mann, og held ég að öllum ólöstuðum að enginn eigi jafn mörg handtök á öllum bæjum í Hvítársíðunni.

Alls staðar fór pabbi til viðgerða á vélum, hjálpa til við byggingar, smala og svo binda hey þegar sú tæknin ruddi sér til rúms. Ég sagði stundum við hann að enginn væri meiri Hvítsíðingur en hann, þó aðkomumaður væri. Þá brosti hann, og sagði að sér þætti vænt um þessa sveit.

Pabbi var ótrúlegur maður. Hann kunni held ég til verka á öllum sviðum. Ég man eftir að hann prjónaði, hann saumaði, bakaði, eldaði, hjúkraði, smíðaði úr tré, járni og jafnvel leikföng handa okkur krökkunum, og þegar sófasettið á heimilinu var orðið slitið, þá brá hann sér á námskeið í bólstrun og gerði settið sem nýtt.

Hann sótti sér þekkingu eftir þörfum, las helling og kunni mörgu góð skil, sagði líka skemmtilega og skýrt frá því sem hann kunni og vissi. Eftir að sjálfvirki síminn kom til sögunnar seint á síðustu öld áttum við oft löng og skemmtileg samtöl. Hann byrjaði oft er hann hringdi á því að segja "ég á nú ekkert erindi, langaði bara að heyra í þér". Svona var hann, tók sér ekki mikið pláss og bað sjaldnast um neitt, en afar þakklátur er maður lagði honum lið.

Skemmtilegt þótti mér seinni árin þegar ég kom úr leitum á haustin að svara spurningum hans um fjallið og féð. Hann þekkti heiðina vel og mundi hvern krók og kima þar, varaði mig oft við illfærum ef ég færi um ákveðin svæði, löngu eftir að hann hætti sjálfur að fara í leitir, og svo kom sérstakur svipur á hann þegar hann spurði um þessar ferðir.

Ég á mikla sjóði minninga um pabba, og í alla staði koma þær minningar mér vel. Ég held að ef ég ætti að draga saman í eitt orð umsögn um hann mundi orðið vera "aðdáun", svo vel fannst mér hann ætíð spila úr sínu. Að endingu vil ég segja: Takk, pabbi minn, fyrir samfylgdina Takk fyrir allt sem ég naut með þér.

Vona að þú hafir notið einhvers líka.

Hvíl þú í friði faðir minn kær.

Farinn úr þessum heimi.

Ég man þig svo vel er varst þú mér nær.

Þá minningu ætíð ég geymi.

Jón Ingimundur.

Elsku afi.

Fyrir mér hefurðu alltaf verið afi bóndi í sveitinni. Þú sast alltaf í horninu við eldhúsborðið í gamla húsinu á Haukagili. Eftir matinn fékkstu þér oft blund á bekknum inni í eldhúsi.

Þú varst rosalega duglegur maður og hirtir landið þitt vel.

Mér hefur alltaf þótt rosalega vænt um þig, afi, og var mjög stolt þegar ég sagði þér að þú værir að verða langafi. Það var svo gaman að sjá hvað þú varðst glaður. Bjarti líkaði voða vel við langafa sinn, hann dáðist mikið að skegginu þínu. Þegar ég hugsa til baka man ég ekki eftir þér öðruvísi en með mikið skegg. Þegar við heimsóttum þig á Hvolsvöll daginn fyrir andlát þitt varstu með svo flott skegg, nýklipptur og fínn. Ég var svo glöð yfir að vera komin til þín, vissi nokkurn veginn að ég væri að sjá þig í síðasta skipti á lífi. Ég var nokkuð viðbúin þessu sjálf, þar sem Bjartur Elí er orðinn það stór, að hann man alltaf eftir þér. Hann segir "þetta er Jón langafi, ekki Jón afi" þegar ég sýni mynd af þér og segi Jón afi. Ég vona að þú, afi okkar, hafir líka verið tilbúinn. Og við Bjartur Elí erum glöð yfir að þú fékkst að fara svona. Velkominn til himna, afi, og takk fyrir allar stundirnar.

Þín

Anna Hildur.

Afi er farinn. Afi með gráa skeggið og stóru hendurnar. Afi sem kenndi mér að flétta úr baggaböndum og að raka hey. Afi sem alltaf var góður og reiddist mér aldrei. Afi sem súrsaði slátur og leyfði mér að smakka hákarl. Afi með uppbrettar ermarnar, sem ræktaði kartöflur, veiddi bleikju og gróðursetti tré. Afi sem sagði mér sögur og leyfði mér að eiga lamb. Afi sem kunni að binda inn bækur, skera út í tré og sauma út. Afi sem aldrei bar öfund í brjósti og mælti aðeins góð orð um annað fólk. Afi sem gaf og gaf og bað aldrei um neitt í staðinn. Takk fyrir allar minningarnar. Takk fyrir að vera afi minn.

Þórunn.