Ályktun Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, fékk afhent fyrsta eintakið af lokaályktun umhverfisþingsins en með honum á myndinni eru Boris Koriakin frá Pétursborg í Rússlandi og Guðrún Sigfúsdóttir og Anna Björk Haraldsdóttir frá Akureyri.
Ályktun Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, fékk afhent fyrsta eintakið af lokaályktun umhverfisþingsins en með honum á myndinni eru Boris Koriakin frá Pétursborg í Rússlandi og Guðrún Sigfúsdóttir og Anna Björk Haraldsdóttir frá Akureyri. — Morgunblaðið/Kristján
UMHVERFISÞINGI ungmenna á norðurslóðum - Youth Eco Forum 2005 lauk í gær en þingið hefur staðið yfir á Akureyri og næsta nágrenni undanfarna daga. Lokaathöfnin fór fram í Ketilhúsinu, þar sem m.a.

UMHVERFISÞINGI ungmenna á norðurslóðum - Youth Eco Forum 2005 lauk í gær en þingið hefur staðið yfir á Akureyri og næsta nágrenni undanfarna daga. Lokaathöfnin fór fram í Ketilhúsinu, þar sem m.a. var lögð fram lokaályktun en meginþema þingsins var "Loftslagsbreytingar og endurnýjanleg orka." Þingið er liður í starfi Northern Forum-samtakanna, samtaka ríkja og borga á norðurslóðum, sem Akureyri á aðild að. Þátttakendur voru ungt fólk á aldrinum 16-20 ára, alls tæplega 30, þar af 18 erlend ungmenni, frá Rússlandi, Japan og Alaska, auk fararstjóra, fyrirlesara, hópstjóra og annars starfsfólks.

Anna Björk Haraldsdóttir var einn af fulltrúum Akureyrar á þinginu og hún sagði að þessir síðustu dagar hefðu verið yndislegir. "Við höfum lært mikið um umhverfismál, hvert annað og þá staði sem við erum frá. Við unnum hörðum höndum fyrri part dags og notuðum svo kvöldin til að vera saman, kynnast og skemmta okkur."

Anna Björk sagði að í lokaályktun þingsins sendu ungmennin þau skilaboð frá sér að það þyrfti að fara að gera allt sem hægt væri til þess að stöðva þessar loftslagsbreytingar, í það minnsta draga úr þeim. Þetta væri vandi dagsins í dag en ekki eitthvað sem hægt væri að ýta á undan sér. "Til þess þarf m.a. að fá fólk til að nýta enn frekar endurnýjanlega orku. Þar erum við að tala um vetni, sólarorku, vindorku, jarðhita og fleira. Það er líka nauðsynlegt að yfirvöld fari að gera eitthvað í þessum málum. Við viljum með þessu framtaki okkar leggja eitthvað af mörkum og vonumst til þess að rödd okkar heyrist sem víðast," sagði Anna Björk en stjórnvöld svæða, ríkja, alheimsstofnana og aðildarsvæða munu frá ályktunina í hendur.

Ungmennin tókust á við ýmsar hliðar umhverfismála og byggðu vinnuna m.a. á upplýsingum um mikilvægustu verkefnin á sínum heimaslóðum. Verkefni þátttakenda á þinginu eru með því mikilvægara sem nokkur getur tekið sér fyrir hendur þar sem margt bendir til þess að loftslagsbreytingar muni hafa gríðarleg áhrif á umhverfi og þar með lífshætti íbúa á norðurslóðum í framtíðinni.