ANNA María Jónsdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga, kveðst hafa áhyggjur af þeim stúlkum sem hafa skráð sig í Didrix spa skóla, því þær fái engin réttindi sem snyrtifræðingar eftir skólavistina.

ANNA María Jónsdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga, kveðst hafa áhyggjur af þeim stúlkum sem hafa skráð sig í Didrix spa skóla, því þær fái engin réttindi sem snyrtifræðingar eftir skólavistina. Kristrún Heimisdóttir, lögmaður Samtaka iðnaðarins, segir að auglýsingar skólans séu mjög villandi. Samtökin sendu fjölmiðlum tilkynningu fyrr í vikunni, þar sem varað var við auglýsingum skólans og bent á að skólinn veiti engin starfsréttindi. Lögmaður skólans, Guðrún Hulda Ólafsdóttir, mótmælir þessum ásökunum.

Í tilkynningu Samtaka iðnaðarins segir að í auglýsingum, sem birst hafi í dagblöðum undanfarna daga, bjóði Didrix spa skóli tíu mánaða nám í tveimur iðngreinum: hárgreiðslu og snyrtifræði. "Auglýsingarnar gefa til kynna að um sé að ræða fullgilt nám í viðkomandi iðngreinum en það er rangt. Samtökum iðnaðarins er kunnugt að ungt fólk hafi greitt meira en hálfa milljón króna í fyrirframgreiðslu til skólans í þeirri trú að um iðnnám sé að ræða [...]."

Kristrún segir að Félag íslenskra snyrtifræðinga og Meistarafélag í hárgreiðslu, aðildarfélög Samtaka iðnaðarins, séu gríðarlega ósátt við starfsemi skólans. Hún segir að starfsemi af þessu tagi grafi undan iðnnámi í landinu. Skólinn auglýsi tíu mánaða nám, en skv. námskrá í snyrtifræði og hársnyrtiiðn tekur námið nokkur ár.

Anna María Jónsdóttir tekur í sama streng. Hún segir að snyrtifræðingar hafi barist fyrir því í mörg ár að byggja upp starfsheiti sitt. Auk þess hafi þeir lagt grunn að þeirri námskrá sem gildi í snyrtifræðinámi, en sú námskrá hafi verið samin af menntamálaráðuneytinu og Starfsgreinaráði Íslands. Hún segir að þeir sem kenni snyrtifræði þurfi að fara eftir þeirri námskrá, svo að námið verði viðurkennt. Umræddur skóli, Didrix spa, hafi hins vegar ekki fengið tilskilin réttindi hjá menntamálaráðuneytinu.

Iðnnemasamband Íslands (INSÍ) sendi einnig frá sér tilkynningu þar sem það ráðleggur þeim, sem hafa hug á námi við skólann, að ráðfæra sig við INSÍ eða menntamálaráðuneytið áður en ákvörðun er tekin.

Námskrá afhent ráðuneytinu

Lögmaður Didrix spa skóla, Guðrún Hulda Ólafsdóttir, hefur einnig sent fjölmiðlum tilkynningu vegna málsins, fyrir hönd skólans. Þar segir að í tilkynningu Samtaka iðnaðarins komi fram alvarlegar ásakanir á hendur skólanum. "Ekkert í auglýsingu umbjóðanda míns benti til þess að um samþykkt nám væri að ræða." Skólinn muni hins vegar kenna eftir metnaðarfullri námskrá sem byggð sé á aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla og ætti að fullnægja reglugerð um sveinspróf. "Námskráin hefur verið afhent menntamálaráðuneytinu til samanburðar við aðalnámskrá framhaldsskóla."

Í tilkynningu lögmannsins er því einnig vísað á bug að nú þegar sé búið að svíkja fé af nemendum skólans. "Gefið er í skyn að nú þegar sé búið að svíkja fé út úr nemendum sem ekki hafa sjálfviljugir skuldbundið sig til að greiða. Þessu vísar umbjóðandi minn á bug sem ósönnu og órökstuddu, enda hafi nemendur allir sem einn tekið upplýsta ákvörðun um að innrita sig á námskeið umbjóðanda míns."