Þorlákur Árnason hefur sagt skilið við Fylkismenn þegar liðið á tvo leiki eftir í deildinni.
Þorlákur Árnason hefur sagt skilið við Fylkismenn þegar liðið á tvo leiki eftir í deildinni. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ÞORLÁKUR Árnason hætti í gær störfum sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Fylkis í knattspyrnu. Hann hafði tilkynnt fyrr í vikunni að hann hygðist hætta að þessu tímabili loknu, þó samningur hans við félagið rynni ekki út fyrr en í lok tímabilsins 2006.

ÞORLÁKUR Árnason hætti í gær störfum sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Fylkis í knattspyrnu. Hann hafði tilkynnt fyrr í vikunni að hann hygðist hætta að þessu tímabili loknu, þó samningur hans við félagið rynni ekki út fyrr en í lok tímabilsins 2006. Í hádeginu í gær birtu síðan knattspyrnudeild Fylkis og Þorlákur sameiginlega tilkynningu á vef Árbæjarfélagsins um að samkomulag hefði verið gert um að Þorlákur léti af störfum frá og með gærdeginum.

Eftir Andra Karl andri@mbl.is

Sverrir Sverrisson, fyrrum leikmaður Fylkis, og Jón Þ. Sveinsson, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Fylkis og var ráðinn um leið og Þorlákur haustið 2003, stjórna liðinu í sameiningu í þeim tveimur leikjum sem liðið á eftir í deildinni, gegn FH og ÍBV.

Sverrir sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að sér litist vel á að stýra liðinu í leikjunum tveimur og verkefnið væri spennandi og um leið krefjandi.

"Það er gott að vera kominn í Árbæinn aftur. Ég lék með liðinu í fjögur ár og líkaði mjög vel þannig að þetta er svona eins og vera kominn heim til sín," sagði Sverrir og bjóst ekki við miklum breytingum í leikjunum tveimur. "Það eru alltaf einhverjar breytingar en ekkert stórvægilegt, hugsanlega einhverjar áherslubreytingar en heildarbragur liðsins mun ekki breytast mikið."

Sverrir er aðeins ráðinn út tímabilið en ekki hefur verið rætt um framhaldið. Aðspurður hvort hann gæti hugsað sér að stýra liðinu á næsta ári sagðist hann ekki hafa gefið sér tíma til að hugsa út í það, aðalmarkmiðið væri að ná stigi í næsta leik og standa uppréttur að leiktíðinni lokinni.

Gengi Fylkismanna hefur verið afar köflótt í sumar. Þeir hafa sýnt stórgóða leiki af og til en dottið niður þess á milli. Fylkir er í sjötta sæti með 20 stig og gæti verið í fallhættu fyrir lokaumferðina ef leikurinn gegn FH í Kaplakrika tapast í 17. umferðinni.

Óvíst með Guðna Rúnar

Eins og kom fram í Morgunblaðinu á miðvikudag tók Guðni Rúnar Helgason sér frí frá Fylki vegna ósættis við Þorlák Árnason en Sverrir gat ekki svarað því hvort Guðni myndi leika meira með liðinu á tímabilinu.

"Það síðasta sem ég heyrði af Guðna var að hann hefði tekið sér frí en að sjálfsögðu mun ég heyra í honum hljóðið, það er engin spurning," sagði Sverrir Sverrisson.

Morgunblaðið náði tali af Guðna Rúnari og innti hann eftir því hvort þjálfaraskiptin breyttu eitthvað hans stöðu. Guðni vildi hins vegar ekki tjá sig um málið en sagðist vera á heimleið frá útlöndum.