Elín Guðmundsdóttir fæddist í Álftártungu á Mýrum 4. júní 1917. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness að morgni föstudaginn 26. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sesselja Þorvaldsdóttir, f. 4. maí 1888, d. 2. des. 1955, og Guðmundur Árnason, f. 21. sept. 1873, d. 9. des. 1954. Systkini Elínar eru tvíburasystir hennar, Gróa, Júlía, f. 3. júlí 1921, Árni, f. 21. febr. 1923, Valgerður Anna, f. 9. febr. 1925, og uppeldisbróðir hennar, Magnús Halldórsson, f. 6. nóv. 1933.

Hinn 4. maí 1941 giftist Elín eftirlifandi eiginmanni sínum Finni Einarssyni, bónda, f. 6. okt. 1917, frá Háhóli á Mýrum, sem ættaður er af Kjalarnesi. Foreldrar hans voru Einar Ingvi Finnsson, f. 27.5. 1888, d. 29.3. 1952, og Sigríður Guðmundsdóttir, f. 26.9. 1887, d. 21.4. 1919. Fósturmóðir Finns og seinni kona Einars var Sólveig Sigurðardóttir, f. 29.9. 1884, d. 23.3. 1962. Börn Elínar og Finns eru: 1) Sólveig Sigríður, f. 24.8. 1941, maki Þorsteinn Hlíðdal Vilhjálmsson, f. 21.4. 1941, þeirra börn eru: a) Svanur, f. 26.11. 1963, b) Borgar, f. 13.7. 1968, c) Sigrún, f. 25.4. 1974 og d) Smári, f. 18.10. 1975. 2) Guðmundur, f. 19.7. 1943, maki Jenný Svana Halldórsdóttir, f. 12.2. 1947, þeirra börn eru: a) Halldór, f. 12.2. 1968, b) Finnur, f. 22.9 1971, c) Elín, f. 29.11.1977, og d) Sigurbjörn Ingi, f. 24.9. 1981. 3) Sesselja Valdís, f. 12.10. 1944, maki Kristján Björnsson, f. 8.11. 1943, þeirra börn eru: a) Herdís Birna, f. 8.2. 1964, b) Elín, f. 3.12. 1966, c) Eygló, f. 5.9. 1974, og d) Guðmundur, f. 3.5. 1978. 4) Gróa, f. 12.8. 1951, maki Ólafur Ingi Jónsson, f. 11.5. 1957, þeirra börn eru: a) Daði Jörgensson, f. 24.10. 1980, b) Sigríður, f. 18.1. 1991, og c) Finnur, f. 12.8. 1992. Barnabarnabörn Elínar eru 12. Uppeldissonur Elínar og Finns er Einar Ingvi Einarsson, f. 9.3. 1951, maki Ingibjörg Sverrisdóttir, þau eiga sex börn.

Elín ólst upp í Álftártungu hjá foreldrum sínum og systkinum en fluttist ásamt manni sínum að Gufuá í Borgarhreppi árið 1948 þar sem þau bjuggu til ársins 1963 er þau fluttust að Stað sem er næsti bær við Gufuá. Þaðan fluttu þau svo í Borgarnes árið 1967 og bjó Elín þar til æviloka.

Útför Elínar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Langt af fjöllum hríslast lækirnir

og laða þig margir til fylgdar.

En vegurinn er einn, vegurinn

velur þig, hvert spor þitt er stigið.

Og frá upphafi allra vega

fór enginn þá leið nema þú.

(Snorri Hjartarson.)

Það er hverjum manni blessun að kynnast góðu fólki og þannig var þegar ég kynntist tengdaforeldrum mínum og þeirra afkomendum. Þegar kynni okkar Elínar hófust voru þau hjónin komin á efri ár og komin í sérhúsnæði fyrir aldraða við dvalarheimilið í Borgarnesi en ég brokkgengt borgarbarn með mjög takmarkaða þekkingu á lífinu til sveita. Ég var nokkuð kvíðinn okkar fyrsta fundi eins og gjarnan er við slíkar uppákomur en Gróa, konan mín, hafði áður upplýst mig um uppruna þeirra, búskap og veikindi móður sinnar. Strax þá tóku þau hjón vel á móti mér eins og öllum öðrum og ræktuðum við einstakan vinskap saman hátt á annan áratug og þannig fékk ég að kynnast öllum þeim góðu kostum sem Elínu voru gefnir.

Við sátum oft saman löngum stundum þar sem hún sagði mér sögur úr lífi sínu og sinnar samheldnu fjölskyldu og smám saman fékk ég ljóslifandi mynd af ævi hennar. Ég sé hana fyrir mér sem unga stúlku, skynuga og tápmikla, þar sem hún ærslast um í túninu í Álftártungu ásamt tvíburasystur sinni Gróu, og yngri systkinum í leik og vinnu með mönnum og dýrum. Hún hafði reyndar ótrúlega máttugan hæfileika til að umgangast öll dýr og varla held ég að geti verið til meiri dýravinur. Ég sé hana líka fyrir mér þar sem hún stendur ung kona, liðlega tvítug, nýlega heimkomna í faðm fjölskyldunnar eftir langa sjúkrahúsvist fyrir sunnan þar sem hún barðist fyrir lífi sínu. Í augum hennar má greina skæran lífsglampa og þrá eftir hamingjuríku lífi. Ég sé hana líka fyrir mér í eldhúsinu á Gufuá með börnunum sínum fjórum ásamt uppeldissyni, eiginmanni og foreldrum sínum og aðkomna gesti sitjandi umhverfis matborðið eftir erilsaman dag við bústörfin. Börnin hlusta með athygli á kröftugar umræður fullorðinna um þjóðmálin eða önnur dægurmál. Elínu líður vel enda mjög hamingjusöm með hlutskipti sitt og þakklát guði og mönnum. Ég sé hana líka fyrir mér samgleðjast börnum sínum og tengdabörnum þegar barnabörnin, og síðan barnabarnabörnin, koma í heiminn eitt af öðru.

Þegar okkar kynni hófust tók ég strax eftir eðlislægum eiginleikum Elínar, hennar mildu skapgerð og jákvæðu hugarfari. Margir aðrir góðir eiginleikar birtust manni með árunum sem margir fengu að njóta bæði í gleði og sorg. Mér er efst í huga natni hennar í umgengni við dýr og náttúru, stálminni t.d. um menn, málefni, staðhætti og ljóð, en mér er minnisstætt er hún þuldi bæði Fjallið Skjaldbreið og Gunnarshólma eftir Jónas sem hún hafði síðast farið með fyrir langa löngu en mundi samt. Stöðug fróðleiksfíkn fram í andlátið, góðvild, hjálpsemi og vinarhugur til samferðamanna sinna voru aðrir eiginleikar. En innsæið og staðfestan um tilgang og gæði lífsins var sá hæfileiki sem ég naut mest. Eflaust hefur reynsla hennar, oftsinnis á mörkum lífs og dauða, og bágt heilsufar, sem hún þó aldrei kveinkaði sér yfir, mótað hana mest en ég hef heldur aldrei efast um að fjölskylda hennar hafi í uppvextinum umvafið hana umhyggju og ást. Elín var alltaf fyrir mér svolítið undur því mér finnst hún snemma hafa gert sér grein fyrir því að með ákveðnu hugarfari og lifnaðarháttum gæti hún ráðið mestu um gæði lífsins sér til handa. Þegar litið er til baka veit ég að margir eru sammála um að Elín hafi lifað innihaldsríku og góðu lífi sem hún naut og vaknaði til á hverjum degi með eftirvæntingu og þakklæti. Hún fylgdist vel með þjóðmálum, var einlægur náttúruverndarsinni, hafði róttækar skoðanir og hafði gaman af að ræða pólitík. Hún lét sig varða náungann og sagði jafnan að það væri sitt hvað að tala um fólk og tala illa um fólk, sem var nokkuð sem ég heyrði hana aldrei gera, því hún fann alltaf eitthvað gott við allar manneskjur - nema kannski helst misvitra pólitíkusa og hún fyrirleit heimsku gráðugs auðvalds. Sem mikill ættjarðarvinur bauð hún þó af hjarta velkomna erlenda innflytjendur sem hingað hafa ratað og fannst þeir auðga íslenskt samfélag með framandi menningu og hugsun. Stöðnun og uppgjöf voru hugtök sem hún fyrirleit, enda hafði hún sjálf lifað einhverja mestu framfaratíma þjóðarinnar, allt frá hingaðkomu símans, útvarpsins og bílsins, til farsíma og háþróaðrar tölvutækni dagsins í dag. Hún fylgdist spennt með öllum fréttum, innlendum sem erlendum, og fylgdist með heimsviðburðunum á risastóru atlaskorti sem jafnan stóð opið í stofunni hjá henni. Fólk sem þorði að bjóða hvers kyns óréttlæti birginn var hennar fólk. Með þessu hélt hún sjálf sinni frjóu hugsun kristaltærri fram í andlátið - réð til dæmis flókna krossgátu um sólarhring áður en hún lést, þá sárþjáð, og spurði um líðan síns fólks og minnti á afmælisdaga frændfólksins nú seinni partinn í ágúst. Þótt líkami hennar hafi verið búinn að margsegja henni að nú gæti hann ekki meira dreif hún hann áfram af ólýsanlegum viljastyrk einum saman hin síðustu ár. Þegar slíks ósamræmis gætir milli veiks líkama og heilbrigðrar sálar hjá einum og sama einstaklingi er ekki laust við að maður verði pínulítið "spældur" út í læknavísindin og í augum hennar mátti greina að hún var sama sinnis. Við það góða hjúkrunarfólk, sem annaðist hana á Akranesspítala, er þó ekki að sakast, því þar var henni sýnd einstök umhyggja og elskusemi.

Að leiðarlokum er mér efst í huga djúp virðing og þakklæti fyrir að hafa auðnast að kynnast þessari tignarkonu íslenskrar alþýðu og bændastéttar, sem þó aldrei gekk á neinn skóla nema farskólann í sveitinni, en var þó hámenntuð. Hún hefur auðgað mig og gert okkur öll að betri manneskjum.

Tengdaföður mínum, sem missirinn er mestur, votta ég mína dýpstu samúð og bið Guð um að lýsa leiðina okkar allra.

Ólafur Ingi Jónsson.

Elsku Ella mín. Ég vil bara kveðja þig með nokkrum orðum. Þú varst yndisleg og góð kona, alltaf svo jákvæð og hjartahlý. Það var gott að leita til þín hvort heldur sem eitthvað bjátaði á eða ef eitthvað þurfti að fræðast um.

Ég kom í fjölskyldu þína fyrir fjörutíu og tveimur árum þegar ég kynntist honum Munda þínum, og frá fyrsta degi tókuð þið Finnur mér opnum örmum, með ykkar einstöku hlýju og góðvild. Það er margs að minnast frá þessum árum sem við áttum samleið, ekki síst áranna á Kjartansgötunni þegar þið Finnur bjugguð í kjallaranum hjá okkur. Það voru góð fimmtán ár fyrir okkur öll og ekki síst fyrir börnin okkar að hafa afa og ömmu í sama húsi.

Eitt það leiðir annað af sér.

Þó við óskum og vonum

fer sem fer.

En við öllum spurnum er eitthvert svar.

Heitur eldur endar sem kulnað skar.

Tjaldið fellur, tíminn er frár,

við þó taka af árum

önnur ár.

Og við brýnum að nýju bit í ljá,

undirbúin leggjum brattann á.

Öll við tæmum glösin

eitt og eitt.

Gildir einu hversu vel er veitt.

Og við endurtökum ekki neitt.

Sólin sekkur hafið í.

En hún skín á morgun

björt og hlý.

Öll við fellum laufin,

eitt og eitt.

Fáum gott sem engu þar um breytt.

Og við endurtökum ekki neitt.

(Stefán Hilmarsson.)

Ég vil þakka þér samfylgdina og alla þá ást og hlýju sem þú hefur veitt mér. Ég bið góðan Guð að styrkja Finn í hans miklu sorg.

Þín tengdadóttir

Jenný.

Við viljum með þessum orðum kveðja ömmu okkar, Elínu Guðmundsdóttur. Við systkinin höfum öll sína sögu að segja og hvert okkar á sínar minningar um "ömmu í Borgarnesi", eitthvað sem við geymum hjá okkur um ókomna tíð. Við erum þó öll sammála um það að í þessum minningum eru endurtekin atriði sem gera ömmu eftirminnilega. Við munum öll eftir pönnukökunum hennar ömmu, kleinunum góðu, sumarbústaðarferðunum og prjónuðu sokkunum og vettlingunum sem oft leyndust í jólapökkum. Við vorum oft öfunduð af vettlingunum fínu og meira að segja vöktu listileg mynstur vettlinganna oftar en ekki umræður, hvort sem var innanlands eða erlendis. Enda var amma listakona með prjónana. Síðast en ekki síst munum við eftir ömmu fyrir hlýju orðin. Við vorum öll "gullið mitt" og hún þakkaði okkur alltaf fyrir "gæðin ykkar". Þótt við værum lítil og vissum ekki alveg hvað orðin þýddu, þá vissum við að þau voru góð því oftar en ekki fylgdi stroka um vangana og þær hættu ekki þó við værum orðin fullorðin, sem betur fer. Þau fylgja okkur líka alltaf. Við systkinin fórum á yngri árum í réttir og alltaf var gist hjá ömmu og afa í Borgarnesi í góðu atlæti. Það var alltaf gott að koma í heimsókn. Amma var líka einstaklega dugleg við að fylgjast með okkur, hvar sem við vorum í heiminum, skrifa bréf og spyrjast fyrir um hagi og líðan okkar. Hún átt stóran Atlas og fylgdist vel með bröltinu í okkur, í hvaða heimsálfu sem við vorum stödd. Við vissum að amma hugsaði til okkar.

Við viljum þakka þér fyrir tímann sem við áttum með þér, elsku amma, við munum sakna þín.

Þín

Veigubörn, barnabörn og makar.

Amma var best í heimi, það var alveg sama hvað við vorum að gera í lífinu, alltaf stóð hún með okkur. Ef eitthvað gekk illa klappaði hún á kinn og sagði: "Þetta kemur."

Það þurfti ekki að hafa mörg orð um hlutina heldur gat amma sér til um ýmislegt sem hvíldi á okkur og virtist hún alltaf vita þegar hennar var þörf. Við minnumst hennar sitjandi við eldhúsborðið að leggja kapal eða með prjónana í kjöltunni. Hún var vel að sér um alla hluti og "ferðaðist" með börnum og barnabörnum vítt og breitt um heiminn með hjálp landabréfabókarinnar. Alltaf var hún með í för, allavega í anda. Hún hafði mikinn áhuga á þjóð- og heimsmálum og var vel að sér um það sem var að gerast hvar sem var í heiminum. Tónlist skipaði stóran sess í lífi ömmu. Ung byrjaði hún að spila á orgelið við messur í Álftártungukirkju og bjó að þeirri þekkingu alla tíð og kenndi okkur að stauta í gegnum nótnablöðin. Hún hlustaði mikið á tónlist, ekki síst popptónlist, sem og aðra.

Umhyggjusemi hennar var með eindæmum. Hún laðaði það besta fram í öllum og fólk hlustaði á hana og tók mikið mark á því sem hún sagði. Hún mátti ekki neitt aumt sjá og talaði aldrei illa um nokkurn mann, blótaði aldrei, nema helst þegar stjórnmál bar á góma, þá gat hún sagt: "déskotans vitleysa". Amma hafði mikinn áhuga á mönnum og málefnum og vildi hún vita "hverra manna" fólkið var sem hún hitti eða var áberandi í þjóðlífinu.

Síðustu vikur í lífi ömmu reyndust henni erfiðar vegna veikinda, en þrátt fyrir að líkaminn væri þreyttur var andinn sterkur og hugurinn skýr.

Við minnumst ömmu með miklum söknuði og alls þess sem hún hefur gefið okkur á lífsleiðinni.

Amma og afi höfðu verið gift í 64 ár og mjög samrýnd og verður hennar sárt saknað af öllum þekktu hana. Elsku afi, guð styrki þig.

Birna, Davíð, Guðmundur, Eygló, Elín og fjölskylda.

Nú er hún elsku amma okkar dáin. Við vitum þó að hún er hér enn, þó við sjáum hana ekki.

Amma okkar var alltaf glaðlynd og svo góð og kom eins fram við alla. Hún var sú viljasterkasta kona sem við höfum kynnst, þótt hún væri bæði lítil og grönn og talaði aldrei hátt. Hún kvartaði heldur aldrei, þótt hún væri oft þungt haldin og liði illa. Hún komst það sem hún ætlaði sér nema það að verða 100 ára og að komast á ættarmótið sem átti að halda daginn eftir að hún dó. Samt var hún þar örugglega því við fundum öll svo vel fyrir henni í kirkjunni.

Þegar svo einstök manneskja eins og amma deyr verða það oft smáatriðin úr lífinu sem hafa mest áhrif þegar hún er horfin. Þess vegna minnumst við með miklum söknuði allra góðu og ógleymanlegu kvöldstundanna þegar við sátum í eldhúsinu hjá ömmu í Ánahlíðinni og mauluðum hrískex með smjöri og spiluðum eða prjónuðum og spjölluðum um öll heimsins mál. Þá var allt í lagi að vaka fram á nótt þótt afi væri kannski löngu sofnaður.

Elsku amma, við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu og fyrir alla þá visku sem þú gafst okkur, bæði um menn og dýr og allan heiminn.

Þú varst og verður alltaf efst í huga okkar og það er svo gott að finna mýktina þína og hlýjuna áfram hjá sér. Hvíldu í friði í miklu ljósi.

Við biðjum góðan Guð að hugga elsku afa og okkur öll.

Þínir "englar",

Sigríður og Finnur.

Liðið er hátt í öld síðan hjónin, þau Sesselja Þorvaldsdóttir og Guðmundur Árnason í Álftártungu, áttu von á frumburði sínum árið 1917. Barnsins var að vænta í júlíbyrjun en þar kom að fæðingin var ekki langt undan en það var samt bara 4. júní. Bóndi fór ríðandi til að sækja ljósmóður. Svo hröð varð atburðarásin að þegar Guðmundur kom til baka með Kristínu ljósmóður frá Hraundal voru fædd tvö undursmá stúlkubörn sem vógu sex og sjö merkur. Fyrirfram vissi enginn að börnin yrðu tvö og hægt er að gera sér í hugarlund að aðstæður voru erfiðar og lítið af þeim þægindum sem við teljum nauðsynleg í dag. En þarna komu í heiminn Elín Guðmundsdóttir sem lést sl. föstudag og Gróa tvíburasystir hennar sem lifir systur sína 88 ára að aldri.

Ella frænka var eftir að við komumst til vits og ára oftast kennd við Gufuá í Borgarhreppi þar sem hún bjó ásamt manni sínum Finni Einarssyni um árabil. Þau hjón voru afar samrýnd enda oftast nefnd í sama orðinu. Á Gufuá ólust börnin upp og þar dvöldu foreldrar hennar sín síðustu æviár. Þar var stundaður hefðbundinn sveitabúskapur eins og tíðkaðist um og eftir miðja 20. öld. Síðar fluttu þau Ella og Finnur að Staðarhúsum en frá árinu 1968 hafa þau búið í Borgarnesi. Eftir þau vistaskipti komu þau sér upp sumarbústað í Hrísnesi í Gufuárlandi, sem þau nefndu Árnes. Þar dvöldu þau mikið og nutu náttúrufegurðar og gróðurs en Ella var mikill náttúruunnandi og allar skepnur hafði hún að vinum.

Álftártunga er kirkjustaður og börnin þar ólust upp við iðkun kristinnar trúar þar sem þau önnuðust messusönginn undir dyggri forystu móður sinnar en Ella spilaði jafnframt á orgelið. Vitaskuld hafði slíkt uppeldi áhrif á Ellu enda var hún trúuð kona og ekki í vafa um að þegar jarðlífsvist lyki tæki annað við.

Hún var víðsýn, algjörlega fordómalaus og áhugasöm um allt sem lifir og hrærist. Hafði jafnt gaman af því að hlýða á sálmasöng og Bubba Morthens flytja lög sín. Eins og algilt er um ömmur hafði hún mikið yndi af því að fylgjast með barnabörnunum en sum þeirra hafa tekið sér fyrir hendur störf í fjarlægum heimsálfum. Enda er það svo að í vistlegu stofunni hjá Ellu og Finni í Ánahlíð kom Finnur fyrir vegghillu fyrir heimsatlasinn. Sú bók var ávallt opin á þeim stað þar sem barnabörnin voru hverju sinni. Þar gat ýmist að líta kort af þjóðríkjum Afríku, Asíu eða Mið-Ameríku og hún sagði frá af lifandi innsæi hvar þau héldu sig og hvað þau voru að fást við. Undir þeim frásögnum tifuðu prjónarnir. Lengi voru það lopapeysur sem urðu til á færibandi en eftir því sem krafta þraut urðu plöggin fíngerðari og um leið enn fegurri. Prjónaðir voru einkar fallegir rósavettlingar með hefðbundnu munstri. Oftsinnis voru þeir ætlaðir litlum lófum og prjónarnir sem prjónað var á varla meira en númer eitt.

Ella var alla tíð heilsuveil. Átti við hjartveiki að stríða frá unga aldri og varð þess vegna að dvelja mikið á sjúkrahúsum. Það setti vitaskuld mark sitt á persónuleika hennar sem var nokkuð sérstakur. Hún bjó yfir feiknarlegum sálarstyrk og svo virtist sem hún kæmist langt á viljastyrknum einum saman. Sjálf hafði hún óbilandi trú á læknastéttinni og virti mikils alla þá sem urðu á vegi hennar í áratuga veikindabasli. Hún var afar umtalsgóð og kastaði ekki hnjóðsyrði til nokkurs manns. Ella var lágvaxin kona en samsvaraði sér vel. Hendur hennar voru litlar svo eftirtektarvert var. Hún hafði fallega rithönd og liggur eftir hana nokkuð af samanteknu efni t.d. í Þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands og í sendibréfum sem hún skrifaði frændfólki og vinum. Hún bjó yfir stálminni og var gott að leita í brunn hennar þegar rifja þurfti upp atburði liðins tíma eða finna út ættartengsl og persónusögu.

Þessir eiginleikar samanlagðir gerðu það að verkum að Ella átti góða og gjöfula ævi en síðasta árið var ansi erfitt og svo fór að lokum eftir að hún hafði farið 11 sinnum frá áramótum á Akranesspítala að líkaminn gafst upp, en hugur og sálarstyrkur hélst fullkomlega til hinstu stundar. Síðustu vikurnar kepptist hún við að lifa til þess að komast á ættarmót afkomenda Sesselju og Guðmundar sem fyrirhugað var 27. ágúst í Álftártungu og hún átti ríkan þátt í að því var hrint í framkvæmd. Mótið var haldið þann dag þótt minna í sniðum væri og án þátttöku Ellu en hún er annar tveggja afkomenda Guðmundar og Sesselju í Álftártungu sem kveður þetta jarðlíf. Það var stór frændgarður, afkomendur Álftártunguhjóna með fylgdarliði, sem söng guðþjónustu í litlu kirkjunni í Álftártungu sl. laugardag og minntist Ellu. Fjölgar sífellt í þeim hópi og þeir hinir yngstu sýndu rétta tilburði við sálmasönginn.

Komið er að kveðjustund og við kveðjum með þakklátum huga góða konu og frænku sem var okkur öllum mjög kær og mikils virði. Með henni var gott að deila bæði gleði og sorgum. Þá kom vel í ljós hvern mann hún hafði að geyma.

Við Beigaldasystkin vottum Finni og afkomendum öllum samúð um leið og við þökkum ómetanlega samfylgd við mæta konu gegnum árin.

Lilja Árnadóttir.

Mig langar að minnast hennar Elínar móðursystur minnar með örfáum orðum.

Ég minnist þess hversu hlý og elskuleg hún ávallt var. Glaðleg og góð, falleg og fíngerð. Ég minnist virðingar hennar fyrir öllu og öllum, börnum og fullorðnum, dýrum og gróðri. Ef allir byggju yfir þeim eðliskostum sem einkenndu Ellu frænku væri veröldin betri.

Fram á síðustu stundu hélt hún andlegri reisn og fullkomnu minni. Hún átti oft við líkamlegt heilsuleysi að stríða, en reis alltaf upp aftur, lífskrafturinn og lífsgleðin voru ótrúleg.

Ella var elst af sínum systkinum, nokkrum mínútum eldri en Gróa tvíburasystir hennar. Systkini hennar lifa, öll komin yfir áttrætt. "Ótrúlega seigt í þessu," orðaði einn frænda minna það fyrir nokkrum dögum þegar við vorum að undirbúa ættarmót sem átti að halda og haldið var að hluta til um síðustu helgi. Ella frænka ætlaði sér á það ættarmót og örugglega var hún með okkur þar á sinn hátt.

Ég sendi Finni og öllum þeirra afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Sesselja Hauksdóttir.

Yndisleg kona, Elín Guðmundsdóttir, er látin. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 26. ágúst síðastliðinn, 88 ára að aldri.

Ég og börnin mín höfum ósjaldan talað um hana sem bestu konu sem við höfum kynnst. Eins og við segjum stundum: "Hún er svona engill." Hvert skipti er við komum á heimili hennar og Finns, eftirlifandi eiginmanns hennar, eða hittumst, var það alltaf mikil hlýja og faðmlög og einstök góðmennska sem mætti manni, enda var Ella mín alveg einstök manneskja af Guði gerð. Hún hafði góða nærveru og var hvers manns hugljúfi. Hlý, góðhjörtuð og gjöful alla tíð.

Ég á góðar æskuminningar frá því að ég var í sveitinni hjá þeim hjónum. Með þessum orðum viljum við, ég og börnin mín, Pálmi Ívar og Halldóra Janet, minnast hennar og þakka henni fyrir allar þær stundir er við áttum með henni.

Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í Paradís. Guð blessi þig, elsku Ella.

Elsku Finnur minn og fjölskylda, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum guð að blessa ykkur öll.

Sigurbjörg (Sibba).

Núna er hún elsku hjartans amma mín fallin frá. Betri og fallegri manneskju var hvergi hægt að finna, hvorki að innan né utan. Að amma var alltaf til staðar fyrir mig hefur margoft hjálpað mér þegar ég hef haldið að allar lausnir stórra og smárra mála hafi verið uppurnar. Þegar ég hef átt það til að vera fljótur að draga ályktanir, dæma of fljótt, verða reiður, þá einmitt var svo gott að geta leitað til ömmu, heyra hana segja: "Þetta verður allt í lagi." Í hennar huga gerði maður eiginlega aldrei neitt rangt, heldur var það þá bara hluti af leiðinni til meiri þroska.

Samband ömmu minnar og afa var einstakt og mættu flest hjón taka sér það til fyrirmyndar. Ég sá það heldur ekki svona sterkt fyrr en í seinni tíð, þegar ég sjálfur fór að vita hvað það er að vera ástfangin, hvað amma og afi voru yfir sig hrifin hvort af öðru. Núna síðast í júlí spurði ég ömmu hvort þeirra samband hefði alltaf verið svona gott. Hún sagði: "Daði, ég hef alltaf verið ástfangin af honum afa þínum og veit að ég hefði ekki getað hugsað mér betri eiginmann!" Þessi orð ömmu glöddu mig því ég hafði í rauninni aldrei spáð í ást milli ömmu og afa. Þau voru bara afi og amma, stoðir og styttur stórfjölskyldunnar sem gerðu allt fyrir fólkið sitt, þó mest með því að vera bara til. Það er mér mikils virði að hafa fengið að sjá þessa ást líka og ég veit að amma var ánægð með lífið sitt þrátt fyrir öll sín veikindi. Hún naut hvers dags eins og hann væri stórkostleg gjöf Guðs og mættum við flest taka okkur það til fyrirmyndar.

Mér finnst erfitt að sætta mig við þegar ég skrifa þetta að hún sé ekki lengur hér meðal okkar. En sannarlega er hún þó alltaf hjá okkur, heldur verndarhendi yfir okkur og í hjarta mínu mun hún dvelja að eilífu.

Ég hugsa alltaf til þín, amma mín, og mun áfram leita til þín ef ég þarf einhver ráð, eða bara til að spjalla. Sjáumst síðar.

Daði Jörgensson Ólafsson.