[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórarinn Tyrfingsson fjallar um vandamál Sjúkrahússins Vogs: "Átakanlegast er þó að lesa um ógæfu þeirra í dagblöðum og fá tölvupóst frá aðstandendum þeirra sem á biðlistanum voru en fengu hjálpina of seint."

Í BYRJUN þessa árs var óhjákvæmilegt að loka bráðamóttöku við Sjúkrahúsið Vog sem rekin hefur verið undanfarin tvö ár. Auk þessa var dregið úr innritunum sem nemur 250 á ársgrunni. Síðustu mánuði höfum við starfsmennirnir á Vogi horft upp á afleiðingar þessa. Aðgerðirnar bitna aðallega á þeim sjúklingum okkar sem verst eru staddir. Þeir þurfa nú að bíða lengur eftir nauðsynlegri sjúkrahúsvist en áður. Slíkt er kostnaðarsamt fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir og þjóðfélagið í heild en hættulegast einstaklingunum sem þurfa að bíða.

Átakanlegast er þó að lesa um ógæfu þeirra í dagblöðum og fá tölvupóst frá aðstandendum þeirra sem á biðlistanum voru en fengu hjálpina of seint. Við þessar aðstæður er það skylda okkar hjá SÁÁ að bera þeim sem málið er skyldast tíðindin.

Heilbrigðisráðherrann er kjörinn talsmaður þessara sjúklinga og ráðuneyti hans á að tala máli þeirra við fjárlaganefnd Alþingis. Það er því átakanlegt að fylgjast með því hvernig ungur aðstoðarmaður ráðherra kemur sér hjá því að lesa úr tölulegum upplýsingum um vanda sjúklinganna og axlar ekki eðlilega ábyrgð, heldur bregst trausti sjúklinganna sem á biðlistanum eru og tekur til við að skrökva. Ómögulegt er að vita hvaða hagsmuni hann er að verja með því.

Annað árið í röð ætlar hann sér að fara inn á Alþingi og halda því fram að fjárveitingar hafi aukist til SÁÁ svo nemi tugum prósenta og halla með því réttu máli. Hið rétta í málinu er að árið 1999 vantaði 140 milljónir á núvirði upp á að fjárveitingar ríkisins greiddu rekstrarkostnað sjúkrastofnanna SÁÁ. Þá var fjárveitingin 372 milljónir en kostnaður 514 milljónir. SÁÁ greiddi þennan halla. Árið 2004 var fjárveitingin til sjúkrarekstursins 497 milljónir á föstu verðlagi og hefði ekki dugað fyrir rekstrinum eins og hann var 1999. Síðan þá hefur árlegum innritunum á sjúkrahúsið Vog verið fjölgað um 350, viðhaldsmeðferð ópíumfíkla tekin upp og sérstök unglingadeild tekin í notkun. Kostnaðurinn við sjúkrekstur SÁÁ var 578 milljónir árið 2004 og þar af var kostnaður vegna Vogs um 400 miljónir. Framlag ríkisins var á sama tíma 497 milljónir eins og áður segir. Þetta eru tölulegar staðreyndir. Að bregða fyrir sig prósentureikningi þar sem ríkisframlagið 1999 er lagt til grundvallar óverðbætt eru ódrengilegar blekkingar sem bitna á sjúklingunum sem eru á biðlistanum á Vogi

Höfundur hefur borið ábyrgð í heilbrigðisrekstri í 29 ár.