Toshiki Toma
Toshiki Toma
Toshiki Toma fjallar um mannréttindastefnu SÞ: "Þeir sem virða skoðanir annarra og eru tilbúnir að taka þátt í lýðræðislegri umræðu munu virða álit nefndarinnar."

ATHUGASEMDIR nefndar um afnám kynþáttamisréttis til íslenskra stjórnvalda birtust nú um daginn, eftir að sérfræðingar SÞ fjölluðu um skýrslu íslenskra stjórnvalda og viðbótarskýrslu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) um framfylgd alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis.

Þótt nefndin telji margt vel gert í málefnum útlendinga og fólks af erlendum uppruna þá bendir hún á ýmis atriði sem betur mega fara. Meðal tilmæla nefndarinnar er að stjórnvöld setji heildarlög til að vinna gegn kynþáttamisrétti, bæti afgreiðslu hælisumsókna og áfrýjunarferli og endurskoði hina svokölluðu ,,24 ára reglu" útlendingalaga.

Ábendingar nefndarinnar merkja ekki endilega að Íslendingar standi sig verr en aðrar þjóðir í mannréttindamálum heldur er þeim ætlað að aðstoða stjórnvöld við að tryggja enn betur þau mannréttindi sem sett eru fram í alþjóðasamningnum. Því munu allir sem vinna að framgangi mannréttinda fagna tilmælum nefndarinnar.

Hér vil ég beina sjónum að tilkomu athugasemdanna frekar en ítarlegu innihaldi þeirra. Álit nefndar SÞ er nefnilega áþreifanlegur árangur ákveðinnar faglegrar starfsemi sem tilefni er til að vekja athygli á. Athugasemdirnar byggja á ýmsu starfi ríkisins og skýrslu yfirvalda, þekkingu sérfræðinga SÞ og dómgreind þeirra, og ekki síst starfsemi frjálsra félagasamtaka, og þá helst starfi MRSÍ. Vinna allra þessara aðila sameinast í tilmælum nefndarinnar sem eiga að vera okkur leiðarljós í öllu mannréttindastarfi.

Virðing fyrir mannréttindum kemur ekki af sjálfu sér. Markvisst mannréttindastarf krefst þrautseigju og mikillar vinnu sem oft er ekki mjög sýnileg. Að því leyti tel ég vert að vekja athygli á framlagi Mannréttindaskrifstofunnar til fyrrgreinds nefndarálits, sem e.t.v. er ekki öllum kunnugt. Með því að senda nefndinni viðbótarskýrslu og funda með sérfræðingum hennar stuðlaði hún að því að nefndin fengi heildstæða sýn á málaflokkinn.

Það að helstu áhyggjumál skrifstofunnar eru tekin upp í nefndarálit sjálfstæðrar, ópólitískrar sérfræðinganefndar SÞ endurspeglar það góða starf sem skrifstofan vinnur. Engu að síður er það staðreynd að stjórnvöld hættu skyndilega stuðningi við skrifstofuna án viðunandi skýringa og er það mörgum okkar óskiljanleg ákvörðun.

Í athugasemdum nefndarinnar er heitið á stjórnvöld að halda áfram stuðningi við MRSÍ. Á fundi nefndarinnar kom fram að íslensk stjórnvöld telja samstarf yfirvalda og félagasamtaka á sviði mannréttinda afar mikilvægt og að framlag Mannréttindaskrifstofunnar hafi dýpkað og styrkt umræðuna. Því vænti ég þess að stjórnvöld fari að athugasemdum nefndarinnar hvað varðar fjárveitingar til MRSÍ.

Þeir sem virða skoðanir annarra og eru tilbúnir að taka þátt í lýðræðislegri umræðu munu virða álit nefndarinnar. Dómsmálaráðherra hefur þegar sagst taka athugasemdirnar til skoðunar og vænti ég því jákvæðra viðbragða yfirvalda sem miða að því að efla starf Mannréttindaskrifstofu Íslands og styrkja stöðu útlendinga og fólks af erlendum uppruna á öllum sviðum mannlífsins.

Höfundur er prestur innflytjenda.