Tiltekt Hringrás sendir nú brotajárn Austfirðinga suður til Spánar í endurvinnslu.
Tiltekt Hringrás sendir nú brotajárn Austfirðinga suður til Spánar í endurvinnslu. — Morgunblaðið/Hallfríður Bjarnadóttir
Reyðarfjörður | Lokið er útskipun á 1.520 tonnum af brotajárni frá fyrirtækinu Hringrás hf. á Reyðarfirði. Er þetta í annað sinn sem sendur er farmur til endurvinnslu á Spáni, en á síðasta ári var skipað út 1.100 tonnum af brotajárni frá Reyðarfirði.

Reyðarfjörður | Lokið er útskipun á 1.520 tonnum af brotajárni frá fyrirtækinu Hringrás hf. á Reyðarfirði. Er þetta í annað sinn sem sendur er farmur til endurvinnslu á Spáni, en á síðasta ári var skipað út 1.100 tonnum af brotajárni frá Reyðarfirði.

Hringrás hefur haft aðstöðu á athafnasvæði Sorpsamlags Mið-Austurlands í Hjallaleiru 10 á Reyðarfirði, en hefur fengið úthlutað 3.900 m 2 lóð í Hjallaleiru 12 og er nú verið setja niður olíuskiljur, niðurföll o.fl. og verður lóðin malbikuð á næstu dögum.

Fyrirtækið safnar saman brotajárni og bílflökum frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu frá Raufarhöfn suður til Djúpavogs. Á Reyðarfirði er það klippt niður og eða pressað og undirbúið til útskipunar.

Fyrirtækið er í samstarfi m.a. við sveitarfélög, gámar hafa verið settir víða þar sem fólk og fyrirtæki geta losað sig við járn í ýmsum myndum. Þar má sjá mikla fjölbreytni, t.d. heyvinnslutæki, girðingar, iðnaðarvélar, allar gerðir heimilistækja, togvíra og bíla.

Mikil vakning hefur verið á meðal fólks varðandi umgengni við náttúruna og járni er ekki lengur safnað í hauga heldur reynt að koma því til vinnslu, það er liðin tíð að safna því m.a. í malargryfjur og urða þar eða henda í sjóinn. Það er mikil vinna við vinnslu á brotajárni fyrir útflutning því passa þarf að ekki fari olía, spilliefni ýmiskonar, gas frá gaskútum og annað sem valdið getur tjóni eða verið sprengihætta af.

Fyrirtækið tekur einnig við dekkjum, þau eru kurluð og notuð í drenlagnir undir sorpurðun, brædd í mottur fyrir leikvelli o.fl.