Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson
ÖKUHRAÐAGREIND og áfengislásar eru tækninýjungar sem talið er að geti dregið úr alvarlegum umferðarslysum. Umferðaröryggi var helsta umræðuefnið á fundi samgönguráðherra Norðurlandanna, sem haldinn var í Vejle í Danmörku fyrr í vikunni.

ÖKUHRAÐAGREIND og áfengislásar eru tækninýjungar sem talið er að geti dregið úr alvarlegum umferðarslysum.

Umferðaröryggi var helsta umræðuefnið á fundi samgönguráðherra Norðurlandanna, sem haldinn var í Vejle í Danmörku fyrr í vikunni. Ríkti einhugur meðal ráðherranna um að umferðaröryggismál skyldu áfram hafa forgang. Rætt var m.a. um þá möguleika sem felast í tækninýjungum á borð við ökuhraðagreind, það er tæki sem varar ökumann við, aki hann yfir leyfilegum hraða. Eins áfengislása sem ætlað er að koma í veg fyrir að ökumenn undir áhrifum geti ekið bíl.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að taka fyrrnefnd tæki í notkun hér á landi. Hann sagði að Svíar hefðu gefið áfengislásunum mikinn gaum og bílaframleiðendurnir Saab og Volvo hefðu þróað tækni í þá veru. Svíar áforma að taka þessa tækni í notkun árið 2012.

Sturla benti á að þessi mál væru skoðuð í skugga hrikalegra mannfórna sem umferðin hefði krafist í þessum löndum. Sem betur fer hefði þó tekist að draga úr aukningu alvarlegra umferðarslysa í nokkrum nágrannalöndum. Bretar og Frakkar hefðu t.d. náð miklum árangri, einnig Danir sem gripu til mjög harðra aðgerða gegn of hröðum akstri. "Ég tel að við þurfum að skoða alla þessa möguleika og vera samferða hinum Norðurlandaþjóðunum í þessu," sagði Sturla.

Tækni, sem fylgist með og varar við of miklum ökuhraða, mun líklega verða í bílum framtíðarinnar, að mati Sturlu. Annars vegar er um að ræða tækni sem varar ökumann við of miklum hraða og hins vegar kerfi á borð við hið íslenska Saga-kerfi sem skráir allan ökuferil bílsins.

Nú er unnið eftir umferðaröryggisáætlun hér á landi. Sturla sagðist mundi beina því til Umferðarstofu og Umferðarráðs að kynna sér umræðuna um umferðaröryggi á Norðurlöndunum og velja það úr sem sérfræðingar okkar telja mikilvægast að taka hér upp.