GUÐJÓN Þórðarson var í gær útnefndur knattspyrnustjóri ágústmánaðar í ensku 3. deildinni. Undir stjórn Guðjóns er Notts County ósigrað í fyrstu sex leikjum sínum í deildinni, hefur unnið fjóra og gert tvö jafntefli, og trónir í toppsætinu.

GUÐJÓN Þórðarson var í gær útnefndur knattspyrnustjóri ágústmánaðar í ensku 3. deildinni. Undir stjórn Guðjóns er Notts County ósigrað í fyrstu sex leikjum sínum í deildinni, hefur unnið fjóra og gert tvö jafntefli, og trónir í toppsætinu. Þetta er nokkuð óvænt staða hjá félaginu sem endaði í 19. sæti deildarinnar í fyrra og þurfti þá að berjast við að falla ekki út úr ensku deildakeppninni.

Chris Kamara, formaður dómnefndarinnar og fyrrum knattspyrnustjóri Bradford, sagði í gær að ráðning Guðjóns til Notts County síðasta vor hefði komið mörgum á óvart. "En Howard Wilkinson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Notts County, trúði greinilega á hæfileika hans og með glæsilegri byrjun á tímabilinu hefur Guðjón unnið þá sem efuðust á sitt band," sagði Kamara.

Það er stjórn ensku deildakeppninnar sem stendur að útnefningunni í hverjum mánuði en hún nær yfir 1., 2. og 3. deild. Neil Warnock hjá Sheffield United var kjörinn stjóri mánaðarins í 1. deild og Peter Jackson hjá Huddersfield í 2. deild.

"Þetta er mikill heiður og ég þakka öllum hjá félaginu fyrir stuðninginn. En við höfum ekki unnið neitt ennþá og leikmennirnir vita hvað þeir þurfa að gera til að halda áfram á þessari braut," sagði Guðjón við vef Notts County í gær.